NÝ BÓK

Bandamanna saga

Við höldum áfram að tína inn fornsögurnar enda öllum skylt og hollt að lesa þær. Nú er það Bandamanna saga. Er hún eina Íslendingasagan sem gerist að öllu leyti eftir söguöld, nánar tiltekið eftir 1050. Hún gerist að mestu í Miðfirði og á Þingvöllum. Er þetta læsileg saga og oft gamansöm. Þar kemur fram töluverð gagnrýni á höfðingjastéttina. Náin tengsl virðast vera milli Bandamanna sögu og Ölkofra þáttar.

Sagan segir frá feðgunum Ófeigi Skíðasyni á Reykjum í Miðfirði og Oddi syni hans. Þeir eiga ekki skap saman og fer Oddur ungur að heiman og gerist sjómaður. Hann auðgast á verslun og eftir nokkur ár er hann orðinn vel efnaður og kaupir jörðina Mel í Miðfirði, sem er beint á móti Reykjum, kaupir goðorð og gerist sveitarhöfðingi. Þá gerast nokkrir höfðingjar bandamenn og hefja átök gegn Oddi og rekur sagan þau átök. Svo er að sjá hvernig Ófeigur faðir Odds bregst við þessu öllu saman.

Björn M. Ólsen taldi Bandamanna sögu með hinum merkustu Íslendingasögum og sagði hana sannkallaðan gimstein í sögum vorum.

NÝ BÓK

Greenmantle eftir John Buchan

Fyrir ekki svo ýkja löngu buðum við upp á skáldsöguna The Thirty Nine Steps eftir John Buchan hér á Lestu.is. Er sú saga hin fyrsta af fimm sem Buchan skrifaði um ævintýramanninn Richard Hannay. Nú er komið að bók númer tvö um Hannay og nefnist hún Greenmantle. Var hún fyrst gefin út árið 1916.

Sagan gerist á tímum fyrri heimstyrjaldarinnar og nú er Hannay beðinn um að rannsaka orsakir óeirða meðal múslima í miðausturlöndum. Hann heldur til Konstantínópel til fundar við Sandy vin sinn. Þar þurfa þeir að reyna að koma í veg fyrir að Þjóðverjar fái fengið innfædda í stríð gagn Englendingum.

Sagan naut gríðarlegra vinsælda þegar hún kom út og mun hafa verið í sérstöku dálæti hjá rússnesku keisarafjölskyldunni meðan hún beið þess hvað verða vildi árið 1917. Bókin er vel skrifuð, einkum sumir kaflar hennar, og árið 1957 valdi hinn kunni rithöfundur Graham Greene fyrsta kafla bókarinnar í bók sína The Spy's Bedside Book, en í hana valdi hann brot úr bestu njósnasögum allra tíma.

NÝ BÓK

Króka-Refs rímur eftir Hallgrím Pétursson

Í dag hverfum við aftur til fortíðarinnar og færum ykkur þaðan Króka-Refs rímur eftir sjálft þjóðskáldið Hallgrím Pétursson. Hallgrímur Pétursson er eflaust frægastur þeirra Íslendinga sem lifðu á sautjándu öld og þótt hann sé kannski helst kunnur fyrir Passíusálmana og önnur trúarkvæði samdi hann einnig ádeilur, tækifæriskviðlinga og rímur svo eitthvað sé upptalið. Hallgrímur fæddist árið 1614, annaðhvort í Gröf á Höfðaströnd eða Hólum í Hjaltadal. Hann lést í Ferstiklu skammt frá Saurbæ á Hvalfjarðasströnd þar sem hann þjónaði lengst sem prestur 18. desember 1674. Á 17. öld voru ortar a.m.k. tvennar rímur út af sögunni um Króka-Ref, rímur Hallgríms og rímur Þorvalds Rögnvaldssonar á Sauðanesi, sem nú eru glataðar að mestu. Gísli Konráðsson segir þá sögu í einni af syrpum sínum, og kveðst hafa hana eftir handriti síra Gunnars Pálssonar, að eitt sinn hafi síra Hallgrímur beðið mann nokkurn, er fór norður í Vaðlaþing, að taka þar fyrir sig Refs-rímur, og hafi þá kveðið:

Sjáir þú mann með sívalt nef
þar seggir eru að þinga,
taktu hjá honum rímur af Ref
og reiddu þær fyrir mig hingað.

NÝ BÓK

The Witch and Other Stories eftir Anton Chekhov

Í dag bjóðum við upp á fyrsta smásagnasafnið af nokkrum eftir rússneska snillinginn Anton Chekov. Chekhov var smásagnahöfundur, leikritaskáld og læknir. Naut hann gríðarlega vinsælda í Rússlandi meðan hann lifði og er enn í dag litið á hann sem eitt af stóru nöfnunum í rússneskum bókmenntum og þó víðar væri leitað. Hefur still hans og efnistök leynt og ljóst haft áhrif á marga kunna rithöfunda. Má þar nefna höfunda á borð við James Joyce, Virginiu Woolf, Katherine Mansfield, George Bernard Shaw og Ernest Hemingway. Vilja margir meina að Chekov sé einn fremsti smásagnahöfundur sem uppi hafi verið þó slíkar staðhæfingar telji venjulegast lítið. Sjálfur sagði Chekov að verk hans yrðu einungis lesin í sjö ár frá dauða hans. Eftir það myndu þau gleymast. Þar reyndist hann ekki sannspár. Stíll hans er oftast látlaus, en styrkur hans felst einkum í því sem hann velur að segja og kannski enn frekar í þögnunum og því sem hann velur að segja ekki. Sögurnar í þessu fyrsta bindi eru: The Witch, Peasant Wives, The Post, The New Villa, Dreams, The Pipe, Agafya, At Christmas Time og Gusev.

NÝ BÓK

Vornætur á Elgsheiðum eftir Jóhann Magnús Bjarnason

Í dag bjóðum við upp á bókina Vornætur á Elgsheiðum sem er safn af samhangandi sögum eftir vesturíslenska rithöfundinn Jóhann Magnús Bjarnason. Eins og saga hans um Eirík Hansson endurspeglar hún vel hlutskipti og tilveru innflytjenda í Kanada á síðari hluta nítjándu aldar enda skrifar hann af reynslu. Jóhann sjálfur flutti til Kanada árið 1875 einugis níu ára gamall. Hann lærði til kennara og varð kennsla hans ævistarf og þótti hann góður kennari. Samhliða kennslunni var hann afkastamikill og fjölhæfur rithöfundur. Af öðrum þekktum verkum eftir Jóhann má nefna sögurnar Brasilíufararnir, Eiríkur Hansson og kvæðin Litla stúlkan með ljósu flétturnar tvær og Grímur frá Grund. Nýlega var bókin þýdd á ensku undir heitinu Errand Boy in the Mooseland Hills og hlaut afar jákvæða dóma.

NÝ BÓK

The Hound of the Baskervilles eftir Arthur Conan Doyle

Glæpasögur eru alltaf vinsælar og í dag bjóðum við upp á eina af þeim bestu og frægustu en það er skáldsagan The Hound of the Baskervilles eftir Arthur Conan Doyle. Var hún þriðja skáldsagan sem Doyle skrifaði um þá félaga Sherlock Holmes og Watson lækni. Hún kom fyrst út sem framhaldssaga í tímaritinu The Strand á árunum 1901-1902. Doyle, sem hafði þá ekki skrifað neitt um Holmes í átta ár og látið hann deyja í í bókinni The Final Problem, hóf að skrifa söguna þegar hann kom heim til Englands eftir að hafa starfað sem læknir í sjálfboðavinnu í Suður-Afríku á tímum Búastríðsins. Lætur hann söguna gerast fyrir dauða Holmes, en hann átti síðar eftir að vekja Holmes til lífsins og skýra dauða hans í The Final Problem með því að Holmes hafi þar sviðsett eigin dauða.

Sagan byggir á gamalli þjóðtrú um djöfulóðan hund og ríkan óðalsbónda sem álög hvíldu á. Er hún gríðarlega spennandi og myrkari en fyrri sögur Doyles um Holmes. Sérfræðingar í Holmes sögum telja söguna þá bestu í flokknum um Holmes. Í könnum sem BBC gerði árið 2003 var hún valin í 128. sæti yfir þær bækur sem mest eru lesnar og elskaðar af enskum lesendum.

NÝ BÓK

Við tjaldskör tímans: Ritstýrð sagnfræði eftir Matthías Johannessen

Það er okkur mikil ánægja að bjóða upp glænýja bók eftir Matthías Johannessen. Nefnist hún Við tjaldskör tímans: Ritstýrð sagnfræði og samanstendur af samhangandi frásögnum, hugleiðingum og ljóðum um lífið, tilveruna þar sem sérstök áhersla er tenging við bókmenntaarfinn og hinar fornu hetjur þjóðveldisins. Gerir Matthías þetta listavel enda hefur hann lifað og hrærst í þessum gömlu textum í langan tíma og auk þess verið í lykilstöðu til að rýna í samtímann. Allir þeir sem hafa gaman af sögu og samtíð þessa lands ættu að lesa þessa bók. Matthías býr yfir þeim fágæta eiginleika að sjá undir yfirborð hlutanna og gefa okkur nýja sýn á hluti sem áður virtust ósköp einfaldir og lítt áhugaverðir. Það er fáum gefið.

NÝ BÓK

The Prince and the Pauper

Í dag bjóðum við ykkur upp á sannkallað meistaraverk, en það er skáldsagan The Prince and the Pauper (í íslenskri þýðingu: Prinsinn og betlarinn) eftir Mark Twain eða Samuel Langhorn Clemens eins og hann hét réttu nafni. Kom sagan fyrst út árið 1881 í Kanada og ári síðar í Bandaríkjunum. Var hún fyrsta sögulega skáldsaga höfundar. Sögusviðið er Lundúnaborg árið 1547. Þar segir frá tveimur ungum mönnum sem eru nauðalíkir í útliti; annar þeirra Tom Canty er sárfátækur og býr hjá föður sem fer illa með hann en hinn er Edward pins sonur Hinriks konungs áttunda. Söguþráðurinn er nokkuð ævintýralegur en stórskemmtilegur og þá er ádeilan aldrei langt undan.

NÝ BÓK

Aungull í tímann eftir Jóhann Hjálmarsson

Í dag bjóðum við upp á hina stórkostlegu fyrstu ljóðabók Jóhanns Hjálmarssonar Aungull í tímann sem kom út árið 1956 þegar hann var einungis sautján ára gamall, en síðan þá telja ljóðabækur hans hátt á annan tug. Þegar Jóhann kvaddi sér fyrst hljóðs stóð ljóðið á miklum tímamótum. Atómskáldin svokölluðu höfðu þá andæft hefðbundnum skáldskap og rutt veginn fyrir nýjum stefnum og nýjum aðferðum. Nýja formið var ónumið land og spennandi og það bauð upp á nýja hugsun og ný viðhorf. Þetta nýja ljóð átti líka meiri samsvörun í því sem var að gerast úti í hinum stóra heimi. Jóhann, ásamt með öðrum skáldum þess tíma, færði okkur nýja strauma að utan, eins og t.a.m. súrrealisma og opna ljóðið. En þrátt fyrir að sækja á ný mið í ljóðagerð, eru ljóð hans sprottin upp úr íslenskum veruleika og það er þetta skemmtilega samspil sem gerir ljóð hans svo sterk og sérstök.

NÝ BÓK

Mansfield Park

Í dag bjóðum við upp á söguna Mansfield Park eftir Jane Austen. Þó svo að hún hafi ekki alltaf notið sannmælis þegar fjallað er um bókmenntir verður seint litið framhjá áhrifum hennar og hefur tíminn gengið þar í lið með henni því enn eru bækur hennar mikið lesnar og sögur hennar stöðugt notaðar í kvikmyndir og sjónvarpsþætti.

Austen hóf að skrifa söguna Mansfield Park árið 1811, en hún kom út á bók árið 1814. Þar segir frá stúlkunni Fanny Price, sem segja má að sé nokkurs konar Öskubuska, en hún elst upp á fátæku heimili, en gefst svo það óvænta tækifæri að flytja til ríkra skyldmenna sinna sem búa á Mansfield Park setrinu. Söguhetjan Fanny ber uppruna sínum merki, en nær þó að fóta sig í heimi hinna betur megandi, þó eftir nokkur feilspor. Í sögunni leggur Austen mikið upp úr mannlegri breytni útfrá siðfræði, pólitík og trú. Viðhorfin til þeirra þátta eru á margan hátt íhaldssamari en í öðrum sögum hennar.

NÝ BÓK

Landnámabók (Sturlubók)

Við höldum áfram að tína inn fornritin okkar í þægilegum búningi. Nú er komið að Landnámabók, þeirri útgáfu sem kennd er við Sturlu Þórðarson. Landnámabók eða einfaldlega Landnáma er elsta ritaða heimildin um landnám Íslands. Hún hefur að geyma upptalningu landnámsmanna Íslands og oft stuttar frásagnir af þeim. Rekur hún ættir landnámsmanna og í henni er að finna 3000 eiginnöfn og 1400 örnefni. Hún er upprunalega talin hafa verið rituð á fyrri hluta 12. aldar en það eintak er glatað. Til eru fimm uppskrifanir á henni, Sturlubók, Hauksbók, Melabók, Skarðsárbók og Þórðarbók.

Sturlubók sem þið hafið hér er endurskrift frá 17. öld rituð af Jóni Erlendssyni upp úr aldagömlum skinnhandritum eftir Sturlu Þórðarson sem urðu eldinum að bráð í Kaupmannahöfn árið 1728.

NÝ BÓK

Great Expectations

Í dag bjóðum við ykkur upp á hina frábæru skáldsögu Great Expectations eftir Charles Dickens. Var hún þettánda skáldsaga hans og jafnframt önnur skáldsaga hans eftir David Copperfield sem hann skrifar alfarið í fyrstu persónu. Sagan kom fyrst út sem framhaldssaga í tímaritinu All the Year Round frá desember 1860 – ágúst 1861. Í október það ár kom svo út á bók í þremur bindum. Varð sagan strax gríðarlega vinsæl og hefur verið það alla tíð síðan.

Sögusviðið er Kent og London á fyrri hluta 19. aldar. Aðalpersónan er munaðarleysinginn Pip sem elst upp hjá eldri systur sinni og manninum hennar og býr þar ekki við gott atlæti. Örlögin hátta því þannig að ókunnur aðili býðst óvænt til að styrkja hann til mennta og koma undir honum fótunum í lífinu. Í kjölfarið spinnur Dickens ótrúlegan en um leið afar spennandi og áhrifaríkan söguþráð sem í meðhöndlun hans gengur upp og er hreint frábær lesning. Sagan þykir listavel skrifuð og hefur að geyma margar af minnistæðustu lýsingum Dickens, ekki síst lýsingin í upphafi sögunnar þegar sögupersónan Pip hittir sakamanninn Abel Magwitch, en sú sena er hreint út sagt stórbrotin.

Hér er svo hægt að nálgast stutt æviágrip Dickens.

NÝ BÓK

Þrjár sögur

Í dag bjóðum við upp á þrjár sögur eftir snillinginn Benedikt Gröndal. Eru það Þórðar saga Geirmundssonar, Írafells-Móri og Brúðardraugurinn. Eru þetta allt skemmtilegar og áhugaverðar sögur þó ólíkar séu um margt. Þórðar saga er gamansaga þar sem samtíðin er hártoguð á sviði fortíðarinnar, Írafells-Móri byggir á samnefndri þjóðsögu og Brúðardraugurinn er þýðing Benedikts á sögu Washingtons Irvings The Spectre Bridegroom sem birtist fyrst í tímaritinu Nýrri sumargjöf árið 1860 en sú saga mun hafa verið kveikjan að sögunni Úngfrúin góða og húsið eftir Halldór Laxness.

Benedikt Gröndal var mikill listamaður. Í skrifum sínum kom hann víða við en allt sem hann skrifaði var vandað og hafði yfir sér ákveðna fágun. Var hann vel lesinn og sótti stílbrigði, orðaforða og efnistök gjarnan til fortíðarinnar og gæti það átt þátt í því hve eftirlifandi kynslóðir hafa sinnt honum lítið.

NÝ BÓK

Pride and Prejudice

Nýlega buðum við ykkur upp á skáldsöguna Sense and Sensibility eftir Jane Austen og mæltist það vel fyrir. Nú er komið að næstu sögu þessa frábæra höfundar, en það er skáldsagan Pride and Prejudice. Árið 1796, þegar Austen var 21 árs, skrifaði hún sögu sem hún nefndi First Impressions og eins og með Sense and Sensibility endurskrifaði hún hana síðar og kom hún fyrst út árið 1813 undir nafninu Pride and Prejudice (Hroki og hleypidómar). Er hún sennilega hennar þekktasta og, að margra mati, besta saga. Helstu persónurnar í þeirri sögu eru Elizabeth Bennet og Fitzwilliam Darcy. Í sögunni etur Austen saman hleypidómum Elísabetar gegn aðlinum og hroka eða stolti aðalsmannsins Darcy. Stéttarvitundin reynir að hafa hemil á tilfinningunum en á endanum sættast andstæðurnar og tilfinningarnar taka völdin.

NÝ BÓK

Hvíldarlaus ferð inní drauminn

Þetta smásagnasafn Matthíasar Johannessens hefur að geyma 22 sögur sem áður komu út árið 1995. Flestar eru sögurnar stuttar og hnitmiðaðar lýsingar sem fanga forvitnileg augnablik eða hugsun, nema fyrsta sagan, Hvar er nú fóturinn minn, þar sem segir af hvunndagshetjunni Absalon. Mætti heldur flokka hana sem hálfgildings nóvellu.

Sögur Matthíasar hafa sterk höfundareinkenni. Þær eru afar persónulegar en um leið svo almennar að þær skírskota til sameiginlegrar reynslu okkar allra. Mikið er um trúarlegar vísanir og þær endurspegla tíðarandann svo vel að það er eins og við þekkjum flestar persónurnar sem þar birtast. Frábærar sögur sem allir geta haft gaman að.

NÝ BÓK

The Strange Case of Dr. Jekyll and Mr. Hyde

Við erum ávallt að vinna í því að bjóða ykkur upp á það besta og skemmtilegasta úr heimi bókmenntanna og í dag kynnum við ykkur fyrir einni slíkri en það er skáldsagan eða nóvellan (The) Strange Case of Dr. Jekyll and Mr. Hyde eftir Robert Louis Stevenson kom fyrst út árið 1886. Var hún þriðja útgefna skáldsaga hins skoska rithöfundar sem áður hafði sent frá sér skáldsögurnar Treasure Island (Gulleyjan) og Prince Otto. Varð sagan eins og hinar fyrri strax gríðarlega vinsæl og hafa þær vinsældir á margan hátt haldist síðan.

Stevenson lætur Gabriel John Utterson lögfræðing segja söguna, en hún fjallar fyrst og fremst um tvo gjörólíka menn sem virðast á einhvern óskiljanlegan hátt deila kjörum, þ.e. gæðamaðurinn Henry Jekyll læknir annars vegar og hinn illi Edward Hyde hins vegar. Á sögumaður erfitt með að skilja samband þessara tveggja manna en svo skýrast þau tengsl er líður á söguna.

Samkvæmt Stevenson er þetta táknsaga og hafa margir leitast við að túlka hana. Flestir hallast að því að sagan endurspegli spennuna á milli stétta í ensku samfélagi þess tíma, en aðrir trúa að sagan einblíni á tilvistarkreppu einstaklinga almennt, þ.e. þessa stöðugu baráttu sem á sér stað innra með hverjum einstaklingi.

Stevenson mun hafa gengið með söguna nokkuð lengi í maganum áður en hann færði hana í letur, en samkvæmt fóstursyni hans skrifaði hann fyrsta uppkast sögunnar er hann lá í veikindum á einungis þremur dögum sem verður að teljast ansi áhrifamikið þótt hann hafi síðan eytt töluverðum tíma í að fínpússa hana.

Munum við á næstunni bjóða upp á fleiri bækur eftir þennan merkilega rithöfund og hvetjum ykkur til að lesa stutt æviágrip hans hér á síðunni. Þá fáið þið betri innsýn inn í þennan snilling.

NÝ BÓK

Farseðlar til Argentínu

Í dag bjóðum við ykkur upp á einstaklega skemmtilegt smásagnasafn eftir rithöfundinn, kennarann og gagnrýnandann Erlend Jónsson. Nefnist það Farseðlar til Argentínu og var fyrra smásagnasafn Erlendar af tveimur og kom út árið 1987. Áður hafði komið út eftir hann fjórar ljóðabækur, ein skáldsaga, fjögur útvarpsleikrit og handbækurnar Íslensk bókmenntasaga 1550-1950 og Íslensk skáldsagnaritun 1940-1970. Helstu viðfangsefnin í sögunum í þessari bók eru kynslóðabil, hugsjónir og gildi samfélagsins.

Verk Erlendar eru persónuleg með sterk höfundareinkenni og tala sterkt inn í samtíðina. Erlendur upplifði miklar breytingar á íslensku samlífi og merkjum við stóra atburði, eins og t.a.m. hernámið, fólksflutning frá sveit í borg og annað, náið í ljóðum hans og verkum. Það er eins og við skynjum tímann í verkum hans. Vald hans á íslenskri tungu er mikið og blátt áfram stíllinn og einlægni í framsetningu ljær verkum hans einstakan hugblæ.

NÝ BÓK

Sense and Sensibility

Í dag bjóðum við ykkur upp á skáldsöguna Sense and Sensibility eftir Jane Austen sem er ein af þessum sígrænu sögum sem virðast höfða til fólks óháð tíma og stað. Var hún fyrsta skáldsagan sem kom út eftir Austen. Í fyrsta uppkasti sögunnar sem skrifað var árið 1795 er sagan kölluð einfaldlega Elinor and Marianne. Austen endurskrifaði skrifaði hana tveimur árum síðar og þá var titillinn Sense and Sensibility kominn á handritið. Sagan var þó ekki gefin út fyrr en árið 1811. Sagan fjallar eins og áður sagði um tvær systur og gerir Austen út á að sýna andstæður þeirra. Elinor er hin skynsama og ráðdeildarsama stúlka (sense), en Marianne lætur hins vegar stjórnast af viðkæmni og tilfinningum (sensibility). Eftir alls kyns uppákomur og ævintýri er það skynsemin sem stendur upp úr. Það sem þó hvað helst einkennir söguna er áherslan sem Austen leggur á hve mannleg samskipti geta verið flókin og nauðsyn þess að íhuga vel allar ákvarðanir.

NÝ BÓK

Vatnsdæla saga

Vatnsdæla saga er ein af yngri Íslendingasögunum. Hún býr yfir miklum töfrum og hefur að geyma ótalmargt sem einkennir góða sögu.

Þetta er sagan um fjölskyldu Ingimundar gamla; greint er frá fjórum ættliðum sem tengjast Hofi í Vatndsdal og sagt frá fólki á bæjum þar í dalnum og nálægum byggðum.

En fyrst er getið um ættmenn Ingimundar í Noregi og á Gautlandi. Þetta var göfugt fólk; móðir Ingimundar var jarlsdóttir af Gautlandi.

Ingimundur nemur land í Vatnsdal, reisir þar hof og sest að á Hofi. Sagan er um það hvernig Ingimundur og afkomendur hans halda völdum og styrkja sig í sessi, og sjá til þess að fólkið í byggðinni fái að lifa í friði fyrir galdramönnum og þrjótum, þetta er ættarsaga fjögurra ættliða í nýju landi; hún hefst í heiðni og endar í kristni. Það myndast spenna milli Hofverja sjálfra en þeir bera gæfu til að leysa úr henni enda var það þeim sjálfum og byggðinni fyrir bestu; og inn í þetta fléttast ástir, afbrýðisemi og leynifundir.

NÝ BÓK

To the Lighthouse

Í dag bjóðum við upp á hina stórmerkilegu skáldsögu To the Lighthouse eftir Virginu Woolf. Kom hún út í íslenskri þýðingu árið 2013 en hér er hún á ensku. Sagan kom fyrst út árið 1927 og var fimmta skáldsaga Virginu Woolf. Hún gerist á tveimur dögum sem aðskildir eru tíu árum og snýst um tilhlökkun Ramsay fjölskyldunnar um ferð út í vita og minningar frá fyrri ferð þangað. Undir niðri er svo ákveðin spenna innan fjölskyldunnar. Eitt af meginþemum bókarinnar er barátta listmálarans Lily Briscoe við að halda í sköpunarkraft sinn í spennuþrungnum aðstæðum. Þá tekur sagan einnig á því hvernig fólk upplifir stríðstíma og hvernig tíminn breytir bæði fólki og minningum. Síðast en ekki síst fjallar sagan um togstreitu kynjanna og hvernig samfélagsmyndin gerir körlum kleift að nýta sér tilfinningar kvenna sér til framdráttar. Sagan brýtur upp form hinnar hefðbundnu skáldsögu þar sem tími, sjónarhorn og raunveruleikinn eru skoðuð með öðrum hætti. Hefur sagan verið talin meðal 100 bestu skáldsagna sem komið hafa út á ensku.

NÝ BÓK

Bjarnar saga Hítdælakappa

Björn Hítdælakappi er ein litríkasta hetja Íslendingasagna og gott skáld. Björn er afkomandi Skalla-Gríms og hann var um tíma í æsku á ættarsetrinu Borg á Mýrum og ekki ólikur ömmubróður sínum Agli Skalla-Grímssyni. Hann trúlofaðist ungur Oddnýju eykyndli en hélt síðan utan og vann frækileg afrek í austurvegi. Hann kynntist Ólafi konungi Haraldssyni og þáði af honum góðar gjafir. En Björn átti sér öfundarmann sem sveik af honum unnustuna. Sagan snýst einkum um átök þessara tveggja kappa og gengur þar á ýmsu. Oddný eykyndill er alltaf nálæg, og ástarneistinn lifir á milli hennar og Björns.

Bjarnar saga Hítdælakappa var áður talin ein elsta Íslendingasagan en nú telst hún meðal hinna yngri. Hún er illa varðveitt en býr yfir miklum krafti og dulúð.

NÝ BÓK

Brewster's Millions

Milljónaævintýrið (Brewster's Millions) eftir George Barr McCutcheon kom fyrst út árið 1902. Varð sagan strax gríðarlega vinsæl og fjórum árum eftir útkomu hennar var sagan færð í leikbúning og sýnd við góðan orðstír. Til marks um vinsældir sögunnar, þá hefur hún verið kvikmynduð í ýmsum staðfæringum um tíu sinnum. 

Sagan segir frá ungum manni, Montgomery Brewster, sem erfir milljón dollara eftir afa sinn. Skömmu síðar deyr sérvitur frændi Brewsters sem hataði afa hans. Þessi frændi arfleiðir hinn unga Brewster að sjö milljónum dollara en einungis með því skilyrði að hann eyði öllum arfinum frá afa sínum á innan við einu ári. Í ofanálag setur hann ákveðin skilyrði fyrir því hvernig peningunum skuli eytt. Brewster þarf í kjölfarið að ákveða hvort hann láti einu milljónina duga eða reyni við sjö milljónirnar og gæti þá staðið uppi auralaus að ári liðnu. Inn í þetta spilast svo ástarmál unga mannsins og alls kyns uppákomur sem gaman er að fylgjast með. 

Sagan er einstaklega skemmtileg og hefur stundum verið líkt við söguna Milljónaseðilinn eftir Mark Twain. Viðfangsefnið má líka færa upp á hvaða tíma sem er og á fullt eins mikið erindi við lesendur í dag eins og þegar sagan kom út.

NÝ BÓK

Söngvar förumannsins

Í dag bjóðum við ykkur upp á sannkallaða ljóðaveislu en það er bókin Söngvar förumannsins eftir Stefán frá Hvítadal. Var hún fyrsta bók höfundar og kom út árið 1918. Stefán var orðinn rösklega þrítugur þegar bókin kom út en bókin þótti óvenju heilsteypt miðað við að hér var um fyrstu bók höfundar að ræða. Stíllinn var nokkuð perónulegur og ólíkur þeim sem fólk átti að venjast hér heima. Hafði Stefán kynnst þessum stíl í Noregi þar sem hann dvaldist um tíma. Bókin er á margan hátt byggð upp eins og þroskasaga og varð strax gríðarlega vinsæl. Ungt fólk hreifst mjög af hinum létta stíl og ljúfsáru yrkisefnum. Og ekki spillti það fyrir að höfundurinn var sjálfur hálfgildings förumaður, nýkominn heim eftir alllanga dvöl í framandi landi, fátækur og heilsulaus og þó enginn hversdagsmaður heldur höfðinglegur í allri sinni fátækt, öruggur í framgöngu og ágætlega til þess fallinn að verða persónuleg fyrirmynd hinnar ungu, óþreyjufullu skáldakynslóðar sem fagnaði nýjum skáldum í draumórakenndri hrifningu. Og næsta áratuginn kom út fjöldi bóka sem báru með sér svipuð einkenni og Söngvar förumannsins.

Einnig viljum við minna á bókina Jólasögur úr ýmsum áttum, um leið og við óskum ykkur gleðilegrar hátíðar.

NÝ BÓK

Goðsögur frá ýmsum stöðum

Í dag bjóðum við ykkur upp á nýja bók, Goðsögur frá ýmsum stöðum, sem hefur að geyma valdar goðsögur sem eiga erindi til okkar í dag. Er það Baldur Hafstað sem hefur haft veg og vanda að útgáfunni. Goðsögur eru líkar ævintýrum og þjóðsögum að því leyti að þær höfða mjög til ímyndunaraflsins . Þá eru þær einkar vel til þess fallnar að skapa umræðu sem eflir gagnrýna hugsun. Oft greina goðsögur frá einhvers konar sköpun (svo sem tilurð þokunnar, sbr. grænlensku söguna Hvernig þokan myndaðist). En mjög gjarnan er viðfangsefnið maðurinn sjálfur og vandi hans í tilverunni. Slíkar sögur eru óþrjótandi uppspretta umræðu og geta verið ómetanlegar fólki sem þarf stöðugt að fóta sig í ótryggri tilveru.

Í sögunum í þessari bók má lesa margt milli línanna. Þær birta okkur ýmis sannindi um manninn og umhverfi hans, styrk hans og veikleika, vonbrigði og þrár. Sögusviðið nær yfir hálfan heiminn, allt frá Asíu og Miðjarðarhafslöndum til Grænlands, með viðkomu í Ásgarði.

NÝ BÓK

A Study in Scarlet eftir Arthur Conan Doyle

Það fylgir jólunum að lesa skemmtilega glæpasögu og við fylgjum þeirri hefð og bjóðum í dag upp á eina fyrstu nútímaglæpasöguna. Er það sagan A Study in Scarlet eftir Arthur Conan Doyle.

A Study in Scarlet var fyrsta skáldsagan sem fjallaði um þá félaga Sherlock Holmes og Watson lækni. Áttu fæstir von á því er hún kom út að þessir tveir menn ættu eftrir að verða með þekktustu sögupersónum bókmenntanna fyrr og síðar.

Doyle skrifaði söguna árið 1886 og hún kom út árið eftir. Var hann þá 27 ára gamall og sagði hann síðar að hann hefði skrifað söguna á innan við þremur vikum. Hafði hann leitað til margra útgefenda til að fá söguna gefna út en var alls staðsr hafnað. Sagan sem fékk ágæta dóma vakti í byrjun litla athygli en það átti aldeilis eftir að breytast. Til gamans má geta þess að þetta er í fyrsta sinn sem stækkunargler var notað sem rannsóknartæki í sakamálasögum.

Allt í allt skrifaði Doyle 56 smásögur um Sherlock Holmes og fjórar skáldsögur. Síðasta sagan birtist árið 1927, fjörtíu árum eftir að fyrsta sagan leit dagsins ljós.

Stutt æviágrip höfundar fylgir.

NÝ BÓK

The Thirty-Nine Steps

Í dag bjóðum við upp á söguna The Thirty-Nine Steps eftir John Buchan, eina bestu njósna- og spennusögu allra tíma, allavega að mati okkar á Lestu.is. Sagan birtist fyrst sem framhaldssaga í Blackwood tímaritinu í ágúst og september 1915, en var svo gefin út í bók í október það ár. Er þetta fyrsta sagan af fimm þar sem Richard Hannay er í aðalhlutverki. Næstu tvær bækurnar um Hannay sem gerðust einnig í fyrri heimstyrjöldinni voru Greenmantle og Mr. Standfast. Síðustu tvær bækurnar með Hannay voru meira í ætt við almennar glæpasögur og gerðust eftir stríðið. Þær hétu The Three Hostages og The Island of Sheep.

Buchan skrifaði söguna er hann lá veikur á hjúkrunarheimili. Sagðist hann mest hafa skrifað hana sér til gamans frekar en að hann ætti von á að hún yrði gefin út og hvað þá að hún yrði jafn vinsæl og raun bar vitni. Sonur Buchans sagði síðar að nafnið Þrjátíu og níu þrep hefði komið til þannig að dóttir Buchans hefði talið þrep sem lágu niður á ströndina á hjúkrunarheimilinu þar sem faðir hennar lá. Var hún sex ára og nýbúin að læra að telja svo hátt. Hún hefði tilkynnt öllum hátíðlega að þrepin væru þrjátíu og níu og faðir hennar hefði gripið þetta á lofti.

Sagan er ein af fyrstu sögunum sem fjalla um einstakling á flótta, en slíkar sögur hafa alla tíð síðan notið mikilla vinsælda. Varð hún strax mjög vinsæl, ekki síst meðal hermanna í skotgröfunum. Einn hermaður skrifaði Buchan og sagði að sagan næði að lyfta hermönnum upp úr þunglyndi aðstæðnanna og létta þeim dvölina á þessum skelfilega stað í þessum hræðilegu aðstæðum. Geri aðrir betur.

Stutt æviágrip höfundar fylgir og hvetjum við ykkur til að lesa það, en maðurinn var mjög áhugaverður.

NÝ BÓK

Brasilíufararnir eftir Jóhann Magnús Bjarnason

Í dag bjóðum við upp á hina stórskemmtilegu sögu Jóhanns Magnúsar Bjarnasonar Brasilíufararnir. Naut hún geysilegra vinsælda er hún kom út. Um er að ræða spennu- og ástarsögu sem segir frá ævintýrum Íslendinga á framandi slóðum og hefur hún vissa skírskotun til nútímans, en hópur fólks fluttist í raun búferlum til Brasilíu á seinni hluta nítjándu aldar í von um betra líf þegar illa áraði á Íslandi. Birtist hún fyrst sem framhaldssaga í blaðinu Lögbergi 1905-1908, en hefur verið endurútgefin með öðru efni Jóhanns árið 1942 og 1970.

Jóhann Magnús Bjarnason fæddist að Meðalnesi í Fellum á Fljótsdalshéraði 24. maí árið 1866. Níu ára gamall fluttist hann vestur um haf, þar sem foreldrar hans námu land í fylkinu Nova Scotia í Kanada. Jóhann gekk í skóla í Winnipeg og útskrifaðist sem kennari árið 1900. Varð kennslan hans ævistarf og þótti hann góður kennari. Samhliða kennslunni var Jóhann afkastamikill og fjölhæfur rithöfundur, en eftir hann liggja fjölmörg kvæði, greinar um bókmenntir og menningarmál, yfir 20 leikrit, þrjár langar skáldsögur, fjöldi smásagna og um eitt hundrað ævintýri.

Á höfundarsíðu Jóhanns Magnúsar má nálgast stutt æviágrip hans.

NÝ BÓK

A Christmas Carol eftir Charles Dickens

Jólin nálgast og gott að byrja þessa vikuna á því að koma sér í smá jólastemningu með einni frægustu jólasögu allra tíma. Nóvellan A Christmas Carol eftir Charles Dickens kom fyrst út í London árið 1843. Varð hún strax gríðarlega vinsæl og gagnrýnendur kepptust um að dásama hana. Á þessum tíma voru Bretar í auknum mæli farnir að gera meira úr jólum en áður, farnir að leita uppi og elta gamla jólasiði og taka upp á því að senda jólakort og skreyta með jólatrjám. Sagan féll því í afar góðan jarðveg. Þar segir frá gömlum beiskum nirfli að nafni Ebenezer Scrooge sem hugsar um það helst og fremst að græða og safna auði; skítt með alla aðra. Svo er það eina nótt að hann fær heimsókn frá afturgöngu fyrrum viðskiptafélaga síns, Jacobs Marley og í kjölfarið frá fleiri afturgöngum. Verður þetta til þess að Ebenezer fær nýja og bjartari sýn á lífið og tilveruna almennt. Áhugavert þema sem passar inn í alla tíma og allir hafa bæði gagn og gaman af að lesa.

Á höfundarsíðu Charles Dickens má nálgast stutt æviágrip hans.

NÝ BÓK

Ívar hlújárn eftir Walter Scott

Í dag bjóðum við upp á hina stórskemmtilegu sögu Walter Scotts, Ívar hlújárn, en Scott er af mörgum sagður vera guðfaðir þess konar bókmennta. Ívar hlújárn (Ivanhoe) er söguleg skáldsaga eftir skoska rithöfundinn Sir Walter Scott sem kom út árið 1820 í þremur bindum. Varð hún á augabragði afar vinsæl og áttu þær vinsældir eftir að lifa lengi. Er það trú margra fræðimanna að sagan hafi brotið blað hvað varðar áhuga almennings á miðöldum og sögulegum staðreyndum fyrri alda.

Er þetta stórbrotin örlagasaga sem gerist á 12. öld, rúmri öld eftir að Normannar náðu völdum á Englandi og saxneskar fjölskyldur eiga mjög undir högg að sækja. Aðal hetja sögunnar er ungur saxneskur hefðarmaður, Wilfred, sem í óþökk föður síns Cedrics sver Normanna konunginum Ríkharði ljónshjarta hollustu sína. Margar eftirtektarverðar persónur koma fyrir í sögunni, s.s. Hrói höttur, hirðfíflið Vambi og gyðingurinn Ísak frá Jórvík og dóttir hans Rebekka, en sagan er einmitt skrifuð á þeim tíma þegar verið var að setja ný lög á Englandi í þeim tilgangi að auka réttindi Gyðinga sem höfðu í árhundruð verið þar annars flokks borgarar.

Þó svo að sagan sé skáldsaga er hún skrifuð inn í raunverulegt sögusvið og þótti Scott hafa tekist vel að setja sig inn í sögutímann og flétta atburði sögunnar inn í raunverulega atburði.

NÝ BÓK

The Time Machine eftir H. G. Wells

Þessa vikuna bjóðum við upp á fyrstu skáldsöguna sem tekur fyrir tímaflakk. Er það sagan The Time Machine eftir H. G. Wells. Tímavélin kom út árið 1895 og var jafnframt fyrsta skáldsaga Wells. Wells sjálfur hafði um skeið hugleitt þetta efni og skrifaði sjö árum áður smásöguna The Chronic Argonauts þar sem sama hugmynd var kynnt en ekki farið eins langt með hana.

Söguhetjan er enskur vísindamaður af góðum ættum. Eitt sinn býður hann nokkrum gestum til kvöldverðar þar sem hann kynnir fyrir þeim vél sem hann hefur hannað og gerir mönnum kleift að ferðast um í tíma. Viku síðar býður hann sömu einstaklingum í mat og rekur fyrir þeim fyrstu ferð sína inn í framtíðina. Lendir hann í ýmsum ævintýrum sem ekki skulu upplýst hér. Hafa margar kvikmyndir verið gerðar eftir sögunni sem enn lifir góðu lífi og er skyldulesning allra þeirra sem hafa áhuga á vísindaskáldskap og skemmtilegum ævintýrum.

Á bókarsíðu er svo að finna stutt æviágrip höfundar. Góða skemmtun!

NÝ BÓK

Ljóðmæli Jónasar Hallgrímssonar

Dagur íslenskrar tungu var ákveðinn 16. nóvember vegna þess að Jónas Hallgrímsson fæddist þann dag. Í tilefni þess ákváðum við að bjóða ykkur upp á ljóðmæli hans núna svo þið gætuð verið búin að lesa ykkur svolítið til áður en stóri dagurinn rennur upp. Mörg ljóða Jónasar lifa góðu lífi með þjóðinni og má segja að hann sé tákngervingur fyrir allt hið fagra í íslenskri ljóðlist auk þess sem hann lagði grunninn að nýrri hugsun í bókmenntum þjóðarinnar á sinni stuttu ævi á víðtækan hátt. Hann var t.a.m. einn fyrsti alvöru bókmenntagagnrýnandinn, sbr. árás hans á rímurnar. Sagan Grasaferðin er að mörgum talin fyrsta nútímasmásagan á íslensku og þá telja sumir að með verkum eins og Gamanbréfið um ferð Englandsdrottningar á fund Frakkakonungs, Klauflaxinn, sögubrot um bandingjana á Þingvöllum og Fífill og hunangsfluga hafi Jónas hafið nýtt landnám í íslenskum bókmenntum sem við búum að enn í dag.

NÝ BÓK

Dracula eftir Bram Stoker

Í dag bjóðum við ykkur upp á sígilda og stórskemmtilega sögu á ensku, en það er Dracula eftir írska höfundinn Bram Stoker. Kom hún fyrst út árið 1897 og fjallar um vampíruna Drakúla greifa og tilraun hans til að flytja sig um set frá Transilvaníu til Englands að verða sér út um nýtt blóð til að geta breitt út bölvun vampírunnar. Drakúla fær aldeilis ekki frítt spil í þessari viðleitni sinni því hópur fólks undir stjórn prófessorsins Abraham Van Helsing kemst á snoðir um tilvist hans og áform hans og við tekur hatrömm barátta milli þeirra og vampírunnar. Varð sagan strax vinsæl og hafa þær vinsældir haldist síðan. Þó svo að sagan af Drakúla sé án nokkurs vafa kunnasta vampíru sagan var hún ekki fyrsta skáldsagan um vampírur. Joseph Thomas Sheridan Le Fanu sem einnig var írskur hafði skrifað fjöldann allan af dulrænum sögum og saga hans um lesbísku vampíruna Carmillu kom út aldarfjórðungi fyrr eða árið 1871. Til gamans má geta þess að Stoker tileinkaði söguna rithöfundinum og besta vini sínum Hall Caine en sá skrifaði söguna The Bondman sem gerist á Íslandi.

NÝ BÓK

Harðar saga og Hólmverja

Íslendingasögurnar eru okkur hugleiknar og í dag bjóðum við ykkur upp á Harðar sögu og Hólmverja. Harðar saga og Hólmverja telst til svokallaðra útlagasaga eins og Grettis saga og Gísla saga Súrssonar þó hún sé um margt frábrugðin þeim. Hún gerist á 10. öld og segir sögu Harðar Grímkelssonar, sem ungur heldur utan og hlýtur þar vegsemdir, fær Helgu jarlsdóttur af Gautlandi, en þegar hann kemur aftur heim til Íslands lendir hann í vígsmálum og er dæmdur til útlegðar. Gerist hann foringi fyrir stigamannaflokki, sem býr um sig í Geirshólma í Hvalfirði uns á endanum að hann er veginn. Ekkjan, Helga Jarlsdóttir, syndir síðan til lands með syni þeirra tvo fjögurra og átta ára og komast þau undan. Styrmir fróði Kárason (d. 1245) hefur verið nefndur sem höfundur frumgerðar sögunnar en það eru þó bara getgátur. Sagan þykir á margan hátt endurspegla rósturtíma Sturlungaaldar og hafa margir séð ákveðin líkindi með Herði og Sturlu Sighvatssyni.

NÝ BÓK

The Great Gatsby eftir F. Scott Fitzgerald

Í dag bjóðum við upp á hina frábæru skáldsögu The Great Gatsby eftir Francis Scott Fitzgerald. Fitzgerald var og er einn athyglisverðasti rithöfundur sem Bandaríkin hafa alið af sér. Eftir hann liggja 5 langar skáldsögur, 3 stuttar skáldsögur og fjöldinn allur af smásögum. Kunnasta verk hans er eflaust skáldsagan The Great Gatsby sem kom út árið 1925. Saga sem náði að fanga þá gróskumikla umbrotatíma sem hún var skrifuð á, og býr yfir þessum óskilgreinda galdri sem allar frábærar sögur gera sem hægt að yfirfæra yfir á hvaða tíma sem er. Þó svo að sagan hafi fengið rýra dóma og lélegar viðtökur þegar hún kom út hefur vegur hennar vaxið jöfnum höndum og í dag þykir hún ein af lykilbókum bandarískra bókmennta og er skyldulesning allra sem vilja vera teknir alvarlega í bókmenntaumræðu.

NÝ BÓK

Gamalt og nýtt eftir Þorgils gjallandi

Fyrir nokkru gáfum við út bókina Upp við fossa eftir Þorgils gjallanda eða Jón Stefánsson eins og hann hét réttu nafni.  Jón var var bóndi alla tíð í Þingeyjarsýslu og  kvaddi sér fyrst hljóðs sem rithöfundur árið 1892 með bók sinni Ofan úr sveitum sem innihélt þrjár stuttar sögur og eina lengri sögu, Gamalt og nýtt. Var hann þá orðinn rúmlega fertugur að aldri. Þrátt fyrir að Þorgils væri ekki að skrifa inn í langa og ríka smásagnahefð hér á landi var öllum ljóst við lestur bókarinnar að hér var enginn venjulegur rithöfundur á ferð og ekki maður sem batt bagga sína sömu hnútum og aðrir á ritvellinum. Sögur hans hneyksluðu og kölluðu fram sterk viðbrögð, enda réðst hann í þeim gegn ríkjandi viðhorfum og skinhelgi hvað varðaði grundvallarstofnanir samfélagsins, s. s. hjónaband en það er einmitt viðfangsefni sögunnar Gamalt og nýtt. Nú er bara að sjá hvort sagan kalli fram jafn mikil viðbrögð hjá lesendum í dag.

NÝ BÓK

Ævisaga Sigurðar Ingjaldssonar frá Balaskarði

Það er okkur mikið ánægjuefni að bjóða upp á það sem undirritaður vill meina að sé ein athyglisverðasta sjálfsævisaga sem komið hefur út eftir Íslending frá því Íslendingar yfirleitt hófu að skrifa sögur af sjálfum sér. Er það sjálfsæfisaga Sigurðar Ingjaldssonar frá Balaskarði sem hann skrifaði í Gimli í Nýja-Íslandi árið 1911. Á Íslandi kom hún út þremur árum síðar árið 1914. Einhverra hluta vegna hefur sögunni ekki verið hampað jafn mikið og öðrum slíkum sögum frá svipuðum tíma og er það mikil synd því hún yrði mörgum án efa mun áhugaverðari og skemmtilegri lestur en þær. Sigurður hafði nefnilega það sem marga sjálfsæfisöguritara vantar sem er í fyrsta lagi óbeisluð og fölskvalaus frásagnargleði í bland við ,,temmilega" skort á ritskoðun. Hann trúði augljóslega á eigið ágæti og tók sjálfan sig ekki of hátíðlega og síðast en ekki síst þá selur hann ekki frásögn sína undir ok tilbúinna gilda einhverra vafasamra hefða. Einlægni Sigurðar gerir söguna tímalausa því um leið og hún gefur glögga mynd af samtíma höfundar er hún lýsing á mannlegu eðli sem stendur óhaggað þrátt fyrir sveiflur tímans.

NÝ BÓK

Sögur frá Skaftáreldi: Sigur lífsins eftir Jón Trausta

Fyrir nokkru gáfum við á Lestu.is út fyrri bókina af tveimur í fyrstu sögulegu skáldsögu Jóns Trausta (Guðmundar Magnússonar) sem hann kallaði Sögur frá Skaftáreldi.  Undirtitill fyrri bókarinnar var Holt og Skál.  Nú er komið að síðari hlutanum í þessum frábæra sagnabálki sem allir unnendur íslenskra bókmennta verða hreinlega að lesa.  Sögurnar komu fyrst út á árunum 1912 -1913. Þessi síðari hluti nefnist Sigur lífsins og gefur hann fyrri hlutanum lítið eftir.  Um söguna skrifaði Steingrímur Matthíasson í blaðið Norðurland: ,,Þessi bók Jóns Trausta hafði sömu þægilegu áhrifin á mig eins og allar hans fyrri sögur, að ég las hana með ánægju frá upphafi til endis." Og satt að segja þekki ég ekki neinn ákjósanlegri kost neinnar sögubókar en þann, að efnið sé svo fjölskrúðugt og aðlaðandi, að maður geti flett hverri blaðsíðunni og lesið hvern kaflann á fætur öðrum með stöðugri forvitni og vaxandi fróðleiksfýsn." Þessi orð Steingríms segja allt sem segja þarf því þetta er frábært bókmenntaverk sem því miður hefur farið framhjá alltof mörgum.

NÝ BÓK

Maður og kona eftir Jón Thoroddsen

Það er skammt stórra högga á milli í bókmenntunum hér á Lestu.is.  Í dag bjóðum við upp á hina stórbrotnu ástarsögu, Maður og kona eftir  Jón Thoroddsen sem hefur verið nefndur faðir íslensku skáldsögunnar.  Kom hún fyrst út árið 1876, átta árum eftir lát Jóns og tuttugu og sex árum eftir útkomu fyrstu íslensku skáldsögunnar, Pilts og stúlku.  Sagan er á margan hátt svipuð og Piltur og stúlka, en þó má merkja að sá sem stýrir pennanum býr yfir meiri þroska.  Þrátt fyrir að Jón hafi ekki haft margar íslenskar fyrirmyndir til að byggja sögur sínar á, tókst honum ágætlega upp í þessum sögum.  Hann nær að draga upp ágætis mynd af bændasamfélagi sinnar samtíðar, en það hefur helst verið fundið að því hvað aðalpersónurnar í sögunum séu daufar og skorti líf.  Hann bætir það þó upp með ýmsum aukapersónum.  Jóni tókst ekki að ljúka við Mann og konu en sagan stendur þó ágætlega fyrir sínu og er skyldulesning fyrir alla sem unna íslenskum bókmenntum.

NÝ BÓK

Fóstbræðra saga

Það er komið að því að kynna til sögunnar hina frábæru Fóstbræðrasögu úr flokki Íslendingasagna.  Fjallar hún einkum um þá fóstbræður Þormóð Bersason, sem kallaður var Kolbrúnarskáld og Þorgeir Hávarsson. Þó að þeir bindist vinarböndum og eigi samleið í uppivöðslusemi þegar þeir eru ungir eru þeir ólíkir um flesta hluti. Þorgeir er fyrst og fremst vígamaður sem virðist ættaður aftan úr heiðni; hugmyndaheimur hans á margan hátt úr takt við samtímamenn hans, en Þormóður er fjölbreyttari maður, kvennamaður og skáld sem getur lagað sig að breyttum aðstæðum, s.s. tileinkað sér nýja trú o.þ.h. Er sagan ólík öðrum Íslendingasögum, ekki síst fyrir afstöðu höfundar. Í flestum Íslendingasögum er höfundurinn nánast ósýnilegur í bakgrunni og lætur söguþráðinn líða áfram án þess að taka beina afstöðu, en því er hins vegar öðruvísi farið í Fóstbræðrasögu. Þar talar höfundurinn til okkar nánast með beinum hætti. Hefur sagan heillað marga vegna skemmtilegra lýsinga og sérstæðs stíls og t.a.m. byggði Halldór Kiljan Laxness sögu sína „Gerplu“ á Fóstbræðrasögu.

NÝ BÓK

Arfleifð frumskógarins eftir Sigurð Róbertsson

Sagan sem við bjóðum upp á þessa vikuna er ekki af verri endanum en hún nefnist Arfleifð frumskógarins og er eftir Sigurð Róbertsson.  Sagan kom  fyrst út árið 1972 og hlaut góðar viðtökur og þótti þá ágætt innlegg í þann tíma, en í kynningartexta sem fylgdi bókinni má finna eftirfarandi lýsingu:  ,,Arfleifð frumskógarins fjallar um nútímamanninn í umróti tuttugustu aldar og viðleitni hans til að fylgjast með hamskiptum tímans.“ Sigurður var kunnur rithöfundur á sínum tíma og hlaut ýmsar viðurkenningar á löngum ritferli, ekki síst fyrir leikrit sín, en af þekktum leikritum hans má nefna Uppskera óttans (1955) og Mold (1966). Arfleifð frumskógarins var fimmta skáldsaga Sigurðar en áður höfðu komið út sögurnar, Augu mannanna (1946), Vegur allra vega (1949), Bóndinn í Bráðagerði (1954) og Gróðavegurinn (1956).  Sigurður lést árið 1996.

NÝ BÓK

Rit um jarðelda á Íslandi eftir Markús Loptsson

Þessa vikuna bjóðum við upp á sérlega skemmtilegt og áhugavert fræðirit sem ber vott um hvers margir Íslendingar voru megnugir á erfiðum tímum við erfið skilyrði.  Er hér um að ræða Rit um jarðelda á Íslandi eftir Markús bónda Loptsson í Hjörleifshöfða sem kom fyrst fyrir almenningssjónir árið 1880.  Þótti það tímamótaverk á þeim tíma og náði mikilli hylli út um allt land, enda sniðið að þörfum alþýðufólks og einstaklega vel og skemmtilega skrifað.  Ritið var svo endurútgefið af syni Markúsar árið 1930 með viðaukum og nýju efni. Hér er þó einungis fyrri bókin frá 1880.  Uppistaðan í bókinni eru frásagnir af Kötluhlaupum og Heklugosum frá því að land byggðist og fram til 1880.  Er hér um stórmerka heimild að ræða og hreint með ólíkindum hvað höfundi hefur tekist að safna saman miklum upplýsingum og skapa úr þeim heildstætt verk.

NÝ BÓK

Gullöldin - Menn og skuggar í Morgunblaðshöll

Það er okkur sérstök ánægja nú þegar skammt er til jóla að gleðja ykkur áskrifendur góðir með glænýrri bók eftir Erlend Jónsson þar sem hann rifjar upp liðna tíð.  Ber hún heitið Gullöldin.  Erlendur Jónsson starfaði lengi sem bókmenntagagnrýnandi á Morgunblaðinu á þeim árum þegar blaðið var leiðandi í allri menningarumræðu hér á landi.  Í þessum endurminningum hans segir hann frá ýmsu sem á daga hans dreif á þessum árum bæði mönnum og málefnum.  Frásögnin er látlaus en þó afar persónuleg og stíllinn bæði fágaður og skemmtilegur.   Gullöldin er þriðja endurminningabók Erlendar, en áður hafa komið út bækurnar Svipmót og manngerð og Að kvöldi dags.     

NÝ BÓK

Sögur frá Skaftáreldi: Holt og Skál eftir Jón Trausta

Hún er ekki amaleg jólabókin sem við færum ykkur í ár, en það er fyrri hluti bókmenntaverksins Sögur af Skaftáreldi eftir Jón Trausta (Guðmund Magnússon).  Sögur frá Skaftáreldi I–II komu út á árunum 1912 -1913. Voru það fyrstu sögulegu skáldsögur Jóns Trausta (Guðmundar Magnússonar), en þar notar hann Skaftárelda sem umhverfi fyrir dramatíska atburðarás. Fyrri hlutinn ber heitið Holt og skál, en sá seinni Sigur lífsins. Um söguna skrifaði Steingrímur Matthíasson í blaðið Norðurland: ,,Þessi bók Jóns Trausta hafði sömu þægilegu áhrifin á mig eins og allar hans fyrri sögur, að ég las hana með ánægju frá upphafi til endis." Og satt að segja þekki ég ekki neinn ákjósanlegri kost neinnar sögubókar en þann, að efnið sé svo fjölskrúðugt og aðlaðandi, að maður geti flett hverri blaðsíðunni og lesið hvern kaflann á fætur öðrum með stöðugri forvitni og vaxandi fróðleiksfýsn." Þessi orð Steingríms segja allt sem segja þarf því þetta er frábært bókmenntaverk sem því miður hefur farið framhjá alltof mörgum.

NÝ BÓK

Skraddarinn í Jórvík

Bók vikunnar að þessu sinni er barnabókin Skraddarinn í Jórvík. Skraddarinn gamli situr frá morgni til kvölds, með krosslagða fætur í glugga lítillar saumastofu. Allan daginn, á meðan birtu nýtur við, saumar hann og klipptir hin dýrustu klæði. Já, hann saumaar flíkur úr fínasta silki fyrir ríka nágranna sína, en sjálfur er hann mjög fátækur. Þetta var lítill gamall maður með
gleraugu og hrukkótt andlit.

 

Við hjá LESTU.is viljum líka benda á Jólasögur úr ýmsum áttum sem kom út í fyrir jólin í fyrra. Þar er að finna sögur sem tengjast jólunum eftir íslenska og erlenda höfunda. Flestar þessar sögur er einnig hægt að nálgast á HLUSTA.is og á hljóðdiskum sem fást munu í mörgum verslunum nú fyrir jólin og eru tilvaldir í skóinn.

 

 

NÝ BÓK

Fox leiðangurinn árið 1860 yfir Færeyjar, Ísland og Grænland eftir T. H. Zeilau

Bók vikunnar er ekki af verri endanum. Það er ferðasaga T. H. Zeilau um Ísland, Færeyjar og Grænland árið 1860. Á síðari hluta 19. aldar höfðu orðið töluverðar framfarir í fjarskiptum milli landa og menn og fyrirtæki börðust við að verða fyrstir til að höndla þann sannleika. Ítalski uppfinningamaðurinn Guglielmo Marconi var einn af þeim sem hafði þróað nýja tækni í fjarskiptum. Þó svo að tækni hans hafi ekki orðið ofan á hér á landi töluðu sumir hennar máli og ferðasagan sem hér kemur í fyrsta sinn út á íslensku segir frá ferðalagi nokkurra manna til að kanna hvort mögulegt væri að innleiða tækni Marconis á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum. Það er þó fyrst og fremst ferðasaga höfundar á Íslandi, Færeyjum og á Grænlandi sem vekur athygli okkar í dag. Höfundurinn segir skemmtilega frá og hefur mikinn áhuga á umhverfi og fólki og er frásögnin í senn einlæg og laus við þá fordóma sem margar sögur erlendra ferðamanna á þessum tíma voru uppfullar af. Glöggt auga höfundarins gefur okkur góða innsýn í líf og menningu fólksins í viðkomandi löndum. Baldur Böðvarsson þýddi bókina.

NÝ BÓK

Borgir eftir Jón Trausta

Rithöfundurinn Jón Trausti er okkur hér á Lestu.is mjög hugleikinn en trú þess sem þetta ritar að hann sé í hópi bestu rithöfunda okkar Íslendingar. Þessa vikuna færum við ykkur söguna Borgir eftir þennan mikla ritsnilling, en hana skrifaði hann haustið 1907 ári eftir smellinn Höllu. Sagan Borgir endurspeglar vel þær breytingar sem íslenskt samfélag gekk í gegnum á þeim árum. Ólíkt t. a. m. sögunni um Höllu er sjónarhornið í Borgum tengt sjónum og þeim uppgangi sem átti sér stað í sjávarútvegnum. Vilja þeir sem gerst til þekkja meina að sögusviðið í Borgum sé Seyðisfjörður og nágrenni, en Guðmundur bjó um tíma á Austfjörðum, starfaði m. a. eitt og hálft ár við sjómennsku í Mjóafirði áður en hann hóf að nema prentiðn undir handarjaðri Skafta Jósefssonar ritstjóra Austra á Seyðisfirði. Þrátt fyrir að sagan Borgir sé kannski ekki eins kunn og sögur á borð við Höllu og Önnu frá Stóruborg, gefur hún þeim ekkert eftir og er nauðsynleg lesning fyrir alla áhugamenn um íslenskar bókmenntir.

NÝ BÓK

Eiríkur Hansson - 3. þáttur - Þráin eftir Jóhann Magnús Bjarnason

Þráin nefnist þriðji og síðasti hluti sögunnar um Eirík Hansson eftir Jóhann Magnús Bjarnason. Hún tekur upp þráðinn þar sem öðrum hlutanum lýkur og við fylgjumst með Eiríki þar sem hann er að halda inn í heim fullorðinna. Margir hafa bent á að sagan sé að mörgu leyti ævisaga höfundar, alla vega notast hann við mjög margt úr eigin ævi. Sagan er einlæg og falleg og persónulegur stíll Jóhanns Magnúsar er eins og sniðinn að sögu sem þessari. Þá má líka segja að sagan hafi töluvert heimildagildi um það hvernig var fyrir Íslendinga að hefja líf í Vesturheimi á síðari hluta 19. aldar.

NÝ BÓK

Smásögur 2 eftir Matthías Johannessen

Fyrir nokkru gáfum við út fyrsta bindið af smásögum Matthíasar Johannessens og nú er komið að öðru bindinu. Telur það þrjátíu sögur sem fyrst komu út í bókinni Konungur af Aragon árið 1986. Þó svo að sögurnar séu um margt líkar sögunum í fyrsta bindinu er stíllinn þroskaðri og sögurnar sjálfar áleitnari jafnvel persónulegri. Það er eins og höfundurinn sé meðvitaðri um hvað hann vill segja í sögunum og öruggari í forminu. Í sögunum veltir Matthías fyrir sér fólki og viðbrögðum þess við umhverfinu og þar af leiðandi verða sögurnar óháðari tímanum en margar aðrar sögur því mannfólkið er jú alltaf samt við sig.

NÝ BÓK

Barnabók: Kanínurnar í garðinum

Skemmtileg barnabók með verkefnum um nokkrar kanínur sem komast í kálgarð og borða grænmetið sem þar er ræktað.

 

 

 

 

NÝ BÓK

Upp við fossa eftir Þorgils gjallanda

Í dag bjóðum við upp á skáldsöguna Upp við fossa eftir alþýðusnillinginn Þorgils gjallandi eða Jón Stefánsson eins og hann hét réttu nafni. Sagan kom út árið 1902 og voru þá tíu ár liðin frá því að fyrsta bók hans, Ofan úr sveitum, kom út. Í henni má merkja áhrif frá norrænum raunsæisrithöfundum og natúralistum og Þorgils ræðst af offorsi gegn lífslyginni í samfélaginu og ríkjandi gildum. Þá er hann berorðari en áður og gerir sér allt far um að hneyksla, bæði með hispurslausum lýsingum og skoðunum. Viðtökurnar voru eins og við mátti búast, og þeir voru fáir sem reyndu eitthvað að verja höfundinn. Það segir þó sitt að sagan lifir enn ágætu lífi nú rúmlega hundrað árum frá því hún kom fyrst út og hefur lifað margar sögur er hlutu betri dóma þá. Álitamálin og afstaðan sem sagan fól í sér á sínum tíma lyfta engum brúnum í dag og helst að menn hafi gaman af að rýna í þetta forpokaða samfélag sem sagan var skrifuð inn í. Þrátt fyrir viðtökurnar á Upp við fossa hélt Þorgils áfram að skrifa, en sögur hans eftir þetta voru mildari og ádeiluhitinn virðist hafa kulnað lítið eitt. Kannski var það bara að Þorgils varð sáttari við eigið samfélag með árunum.

NÝ BÓK

Eiríkur Hansson - 2. þáttur - Baráttan eftir Jóhann Magnús Bjarnason

Baráttan er annar hluti sögunnar um Eirík Hansson eftir Vestur-íslenska rithöfundinn Jóhann Magnús Bjarnason. Skrifaði hann söguna á árunum 1893-1897, en Oddur Björnsson hóf útgáfu hennar á Íslandi árið 1899. Í þessum öðrum hluta fylgjumst við áfram með söguhetju okkar Eiríki Hanssyni og baráttu hans við að fóta sig í nýju landi. Er hér á ferðinni skemmtileg saga sem allir unnendur góðra bóka, hvort heldur er börn eða fullorðnir geta haft bæði gagn og gaman af að heyra.

NÝ BÓK

Grettis saga

Í dag bjóðum við upp á eina af stóru Íslendingasögunum ef svo mætti að orði komast, en það er Grettis saga Ásmundarsonar. Grettis saga eða Grettla eins og hún er stundum kölluð hefur löngum verið ein af ástsælustu Íslendingasögunum. Hún fjallar um Gretti Ásmundarson frá Bjargi í Miðfirði, sem gekk undir nafninu Grettir sterki, enda var maðurinn ógnarsterkur og lét ekki bugast þótt við forynjur væri að etja. Í sögunni er greint frá æsku og uppvexti Grettis, brekum hans og óláni, sem olli því að hann varð á endanum útlagi. Var hann í útlegð í mörg ár og kom víða víða við á landinu en að lokum náðist hann í Drangey á Skagafirði og var veginn þar eftir hetjulega baráttu. Skemmtileg saga sem allir Íslendingar ættu að kunna.

NÝ BÓK

Barnabók: Hundurinn og haninn

Skemmtileg barnabók með verkefnum um tvo vini, hund og hana, sem fara út í skóg og hitta refinn, sem ætlar sér að éta þá báða.

 

 

 

 

NÝ BÓK

Brynjólfur biskup Sveinsson eftir Torfhildi Hólm

Efni vikunnar er ekki af verri endanum þótt alltof fáir þekki til þess. Það er sagan Brynjólfur biskup Sveinsson eftir Torfhildi Hólm sem kom fyrst út árið 1882. Torfhildur Hólm var stórmerk kona sem ruddi brautina fyrir kynsystur sínar og aðra, því ekki einasta var hún fyrst íslenskra kvenna til að gefa út skáldsögu, heldur var hún fyrsta konan sem hafði atvinnu af ritstörfum almennt. Sagan af Brynjólfi var fyrsta bókin hennar, en í kjölfarið kom svo sagan Elding, sem gerist á landnámsöldinni, og sögurnar af biskupunum Jóni Vídalín og Jóni Arasyni. Í sögunni fylgir Torfhildur æfi Brynjólfs af trúmennsku en skáldar í eyðurnar eins og tíðkast í dag. Brynjólfur var biskup frá 1639 og til 1674. Var hann kunnur fyrir gáfur og fræðistörf. Hann lærði við Kaupmannahafnarháskóla 1624-1629 og varð konrektor við Hróarskelduháskóla 1632-1638. Var ævi hans viðburðarík og full af átökum sem Torfhildur gerir góð skil í þessari frábæru sögu.

NÝ BÓK

Eiríkur Hansson - 1. þáttur - Bernskan eftir Jóhann Magnús Bjarnason

Bók vikunnar að þessu sinni er fyrsti hluti sögunnar um Eirík Hansson og nefnist hann Bernskan. Sagan skiptist í þrjá þætti. Jóhann Magnús Bjarnason skrifaði söguna Eirík Hansson á árunum 1893-1897, en fyrsti hluti hennar var gefinn út á Íslandi af Oddi Björnssyni árið 1899. Hlaut sagan góðar viðtökur bæði meðal Íslendinga í Vesturheimi og á Íslandi. Sagan hefst á Íslandi og rekur sögu drengsins Eiríks Hanssonar sem flyst sjö ára gamall til Vesturheims ásamt ömmu sinni og afa. Þar tekur við hörð lífsbarátta í nýju landi. Frábær saga sem gefur okkur innsýn inn í landnám Íslendinga í Vesturheimi á síðari hluta 19. aldar.

NÝ BÓK

Illgresi eftir Örn Arnarson / Magnús Stefánsson

Fyrstu ljóð Magnúsar (Örn Arnarson) birtust í Eimreiðinni árið 1920. Hlutu þau afar jákvæðar viðtökur og fjórum árum síðar kom út ljóðabókin Illgresi. Hefur hún oft verið endurútgefin og þá breytt og bætt eins og gengur. Útgáfan sem hér birtist er frá árinu 1927 (þriðja útgáfa). Illgresi fékk strax ágæta dóma og seldist upp á skömmum tíma. Eins og í Eimreiðinni kvittaði Magnús ekki fyrir ljóðin með eigin nafni heldur dulnefninu Örn Arnarson. Ekki er vitað af hverju hann kaus að gera það, en eflaust hefur honum þótt erfitt að leggja Magnús Stefánsson í dóm allra; að bera sál sína milliliðalaust fyrir hverjum sem var.
Ljóðasafn Magnúsar er ekki stórt að vöxtum, en magn hefur heldur ekkert með gæði að gera. Ljóð hans eru mjög persónuleg; stundum opnar sig alveg inn að kviku og má vera að það skýri að hluta af hverju hann notaði dulnefni. Ljóð Magnúsar eru líka mjög fjölbreytt og engin leið að ætla að fella hann undir einhverja ákveðna stefnu. Í gegnum ljóðin skynjar maður flókinn persónuleika en þó heilsteyptan mann sem er ekki í neinum skáldaleik eins og margir kollegar hans, heldur yrkir af innri þörf og af því að ljóðið býr í honum. Þekktustu ljóð Magnúsar eru eflaust Stjáni blái og Íslands Hrafnistumenn, en síðara ljóðið varð innblásturinn að Hrafnistu, dvalarheimili aldraðra sjómanna. Annars er ljóðasafn Magnúsar mjög heilsteypt og má einu gilda hvar gripið er niður í það.

NÝ BÓK

Barnabók: Gráðuga kisa

Gráðuga kisa er skemmtileg saga fyrir börnin.


 

 

 

 

NÝ BÓK

Leysing eftir Jón Trausta

Við höldum áfram að tína inn sögur Jóns Trausta (Guðmundar Magnússonar) enda verður enginn svikinn af því að lesa þær. Þó svo að sagan Leysing sé kannski ekki með hans kunnustu sögum er hún af sumum talin tímamótaverk í íslenskri bókmenntasögu. Sagan sem skrifuð var haustið 1907 og fylgdi í kjölfar sögunnar Höllu frá árinu áður, lýsir af óvenjumiklum þrótti og skilningi þeim breytingum á sviði þjóðlífsins sem áttu sér stað á Íslandi á þessum árum. Dr. Stefán Einarsson hélt því til að mynda fram að í ritgerð um höfundinn að í Leysingu sé í fyrsta sinn í íslenskri skáldsögu lýst þjóðfélagslegri hreyfingu, baráttu gamalla og nýrra verslunarhátta.

NÝ BÓK

Þyrnar

Við ætlum nú í vetur að reyna að auka ljóðabækur á vefnum okkar. Af því tilefni bjóðum við ykkur nú upp á hina frábæru bók Þyrnar sem hefur að geyma ljóðasafn Þorsteins Erlingssonar. Fyrsta útgáfa Þyrna kom út árið 1897 og var það í fyrsta sinn að ljóð Þorsteins voru birt á bók. Síðan þá hefur bókin komið út nokkrum sinnum og ný ljóð bæst við í hvert sinn. Framan af voru ljóð Þorsteins hefðbundin í stíl og umgerð, og hann sótti yrkisefnin í sveitina og landið. Áhrif frá Steingrími Thorsteinssyni og Benedikt Gröndal leyndu sér ekki. Í Kaupmannahöfn kynntist Þorsteinn sósíalisma sem hann tók fagnandi og afneitaði af sömu ákefð kristinni trú. Uppfrá því fór hann að sækja í önnur yrkisefni og ljóð hans urðu beinskeyttari og full af skoðunum á samfélaginu í kringum sig.

NÝ BÓK

Eyrbyggja saga

Þessa vikuna bjóðum við upp á eina Íslendingasögu, en það er Eyrbyggja saga. Þrátt fyrir að Eyrbyggja hafi aldrei notið jafn mikilla vinsælda og sögur eins og Njála, Egla og Laxdæla og standi þeim sögum töluvert að baki hvað varðar listfengi og byggingu, er hún samt ein af þessum stóru sögum sem allir áhugamenn um Íslendingasögur þurfa að kunna skil á. Persónur sögunnar skarast töluvert við bæði Njáls sögu og Laxdælu og svo þykir hún forvitnileg í sagnfræðilegu og þjóðfræðilegu tilliti. Sagan er á margan hátt frábrugðin öðrum Íslendingasögum og á það ekki síst rætur að rekja til aðalpersónu sögunnar, Snorra goða, sem er ólíkur þeim hetjum sem við eigum að venjast annars staðar frá. Má jafnvel halda því fram að Snorri sé nútímanlegri hetja en menn eins og Gunnar á Hlíðarenda og Egill Skallagrímsson og tali því betur inn í nútímann en þeir.

NÝ BÓK

Smásögur á ensku

Þess vikuna bjóðum við upp á fyrsta safnið í nýrri ritröð sem ber yfirheitið Short Stories in English. Í því einbeitum við okkur fyrst og fremst að breskum og bandarískum höfundum, sem margir hverjir áttu stóran þátt í að móta smásöguformið og skilgreina það betur. Hér má finna stórkostlegar sögur eftir höfunda á borð við O. Henry, Edgar Allan Poe, Kate Chopin, Katherine Mansfield og fleiri. Eins og alltaf þegar velja þarf sögur í takmarkað pláss verður smekkur þeirra sem velja að ráða og víst að mörgum kann að þykja einhverju ofaukið og annað vanta. Er rétt að árétta að hér er einungis um fyrsta heftið að ræða og munum við bæta fleiri höfundum við í næsta safn. Rétt er að taka það fram að bókin gæti hentað vel sem kennslubók í ensku fyrir framhaldsskóla, enda unnin með það í huga. Verður hægt að nálgast orðskýringar og verkefni með sögunum á framhaldsskoli.is.

NÝ BÓK

Barnabók: Leikfélaginn

Leikfélaginn er saga um prinsessu sem er leið yfir því að eiga engan leikfélaga og kisuna sem finnur ráð við því. Stutt verkefni fylgja.

 

 

 

NÝ BÓK

Söngva-Borga eftir Jón Trausta

Við höldum áfram að tína inn bækur Jóns Trausta og má öllum vera ljóst að við munum ekki linna látum fyrr en allt hans efni er komið á Lestu.is en maðurinn er í miklu uppáhaldi undirritaðs. Í dag fáið þið söguna Söngva-Borga. Er hún ein af þremur sögulegu skáldsögum Jóns Trausta (Guðmundar Magnússonar) þar sem hann sækir efniviðinn í sömu íslensku ættina. Hinar sögurnar eru Veislan á Grund og Hækkandi stjarna. Sögurnar eru þó allar sjálfstæðar og gerast á mismunandi tímum. Er Söngva-Borga styst af þessum sögum en þó engu síðri en hinar. Jón Trausti (Guðmundur Magnússon) hóf ritferil sinn á kveðskap og hér nýtir hann þá gáfu sína vel og skreytir söguna með ljóðum. Já, hér enn ein fjöðurin í hatt þessa íslenska skáldarisa.

NÝ BÓK

Bárðar saga Snæfellsáss

Þessa vikuna bjóðum við upp á Bárðar sögu Snæfellsáss. Telst hún til Íslendingasagna, talin rituð á fyrri hluta 14. aldar og því með yngri sögum í þeim flokki, enda má jafnvel segja að hún sé meir í ætt við riddarasögur og fornaldarsögur Norðurlanda. Hún segir frá Bárði Dumbssyni af ætt bergbúa, sem flýr Noreg og sest að undir Snæfellsjökli á Íslandi. Lendir hann í ýmsum ævintýrum en á endanum hverfur hann inn í jökulinn og gerist einn af landvættum Íslands. Sagan er sögð í ýkjustíl, en höfundi hennar tekst þó ótrúlega vel að halda í ákveðinn trúverðugleika og úr verður hin skemmtilegasta lesning.

NÝ BÓK

Fjórar bækur á ensku
eftir Fergus Hume

Það er komið að því að kynna til sögunnar nýjan höfund í ensku bókadeildinni okkar. Þar með eru höfundarnir í þeirri deild orðnir þrír. Við reynum að hafa þetta á léttu nótunum yfir sumarmánuðina og einblínum þessa stundina á vinsæla sakamálahöfunda frá fyrri tíð. Síðast var það Catherine Louisa Pirkis sem margir segja að hafi skapað fyrsta alvöru kvenspæjarann, Loveday Brooke, en nú er komið að Fergus Hume sem var gríðarlega vinsæll höfundur við lok 19. aldar. Fyrsta bókin sem hann skrifaði var The Mystery of a Hansom Cab sem sumir vilja meina að hafi verið mest selda sakamálasagan sem gefin var út á öllum Viktoríutímanum. Við höfum valið fjórar bækur eftir Hume, en þær eru:

  • Hagar of the Pawn-Shop
  • The Mystery of a Hansom Cab
  • The Secret Passage
  • The Silent House

NÝ BÓK

Barnabók: Geiturnar þrjár

Við bjóðum nú upp á hina þekktur og skemmtilegu sögu um geitafjölskylduna sem vill borða safaríka grasið hinum megin við brúna og tröllið sem býr undir brúnni.

 

 

 

NÝ BÓK

Kynjalyfið eftir Walter Scott

Þessa vikuna bjóðum við upp á söguna Kynjalyfið eftir Walter Scott, en hún er spennandi ævintýrasaga frá tímum krossferðanna. Þýðandi þessarar útgáfu sögunnar er ókunnur, en hún birtist í Nýjum Kvöldvökum árið 1918 og verður að segjast eins og er að þýðingin er nokkuð forn. Það rýrir þó á engan hátt skemmtanagildi hennar og gerir hana kannski bara enn skemmtilegri. Því hefur hefur verið haldið fram að skoski lögfræðingurinn Walter Scott hafi verið fyrsti rithöfundurinn sem naut alþjóðlegrar hylli meðan hann lifði. Náðu vinsældir hans út um allan hinn enskumælandi heim, auk þess sem sögur hans nutu mikilla vinsælda í mörgum löndum Evrópu. Þá hefur honum verið eignaður heiðurinn af því að vera fyrsti sögulegi rithöfundurinn. Þekktastur er hann fyrir sögurnar Ivar Hlújárn (Ivanhoe), Rob Roy, The Lady of the Lake, Waverley og Kynjalyfið.

NÝ BÓK

Vopnfirðinga saga

Við höldum áfram að tína inn Íslendingasögurnar. Nú höldum við til Austfjarða og skoðum Vopnfirðingasögu. Vopnfirðingasaga gerist einkum í Vopnafirði og spannar tímabilið frá landnámi og fram yfir kristnitöku árið 1000. Þar segir af baráttu Hofverja og Krossvíkinga um völd í héraði. Lykilpersónur sögunnar eru þeir Brodd-Helgi á Hofi og Geitir Lýtingsson í Krossavík. Voru þeir goðorðsmenn og miklir fyrir sér. Þá segir einnig af sonum þeirra, þeim Víga-Bjarna og Þorkatli Geitissyni. Þó svo að sagan hafi ekki notið jafn mikilla vinsælda og aðrar kunnari sögur hefur hún að geyma frábæra kafla sem gefa því besta úr þeim sögum ekkert eftir. Sérstaklega þykja mannlýsingar sterkar í sögunni og þá er eftirtektarvert hve stóran sess konur skipa.

NÝ BÓK

Áhugaverðar sakamálasögur fyrir sumarið: The Experiences of Loveday Brooke, Lady Detective eftir Catherine Louisa Pirkis

Í síðasta mánuði buðum við í fyrsta sinn upp á enskar bækur og munum gera það reglulega í framtíðinni. Þá kynntum við írska rithöfundinn Oscar Wilde og nokkur lykilverk eftir hann. Næsti höfundurinn sem við kynnum til sögunnar er Catherine Louisa Pirkis, en sögur hennar um kvenspæjarann Loveday Brooke þykja um margt tímamótasögur í þeim geira því hún var fyrst allra til að skrifa um kvenspæjara af einhverri list. Þeir sem gerst til þekkja vilja líka meina að ákveðinn skyldleika megi finna með Loveday Brooke og Sherlock Holmes. Þó svo að Arthur Conan Doyle hafi kynnt Holmes til sögunnar 1897, eða sex árum fyrr en Pirkis sendi frá sér fyrstu söguna um Loveday hallast sumir að því að Doyle hafi í nokkrum tilvikum leitað í smiðju Pirkis í sögum sínum. Hvað sem því líður þá bjóðum við í dag upp á sjö spennandi sögur um fyrsta alvöru kvenspæjarann.

NÝ BÓK

Barnabók: Pétur kanína

Þessa vikuna bjóðum við upp á skemmtilega barnasögu sem nefnist Pétur kanína. Sögunni fylgja stutt verkefni.

 

 

 

NÝ BÓK

Sögur herlæknisins III: Eldur og vatn
eftir Zacharias Topelius

Það er komið að þriðju sögunni af átjan í hinum stóra sagnabálki finnska skáldrisans Zachariasar Topeliusar sem hann kallaði Sögur herlæknisins. Nefnist þessi þriðja bók Eldur og vatn, en áður voru komnar Hringurinn konungsnautur og Sverðið og plógurinn. Hér er á ferðinni stórbrotin örlaga- og fjölskyldusaga sem spannar sögu Svía og Finna í tvær aldir eða frá því Gústaf Adólf kemst til valda allt fram á daga Gústafs þriðja. Meginþráður sögunnar er hringur einn sem býr yfir ákveðnum töframætti og minnir það um margt á Hringadróttinssögu Tolkiens. Umgjörð sögunnar er mjög hugvitssamleg, en Topelius lætur gamlan herlækni segja söguna og er aðkoma hans skemmtileg saga inni í sögunni sem gefur höfundinum ákveðið frelsi til að koma með utanaðkomandi skýringar og skoðanir inn í meginsöguna. Sniðugt stílbragð sem gengur fyllilega upp í höndum Topeliusar. Í þessari þriðju sögu fylgjumst við áfram með ævintýrum Bertels og Regínu og verður forvitnilegt að sjá hvernig allt fer fyrir þeim. Fyrir þá sem ekki vita það þá var allur sagnabálkurinn þýddur af Matthíasi Jochumssyni og er óhætt að segja að honum hafi tekist vel upp.

NÝ BÓK

Reisubók séra Ólafs Egilssonar

Í dag sækjum við töluvert langt aftur til fortíðar, því nú bjóðum við upp á Reisubók séra Ólafs Egilssonar. Séra Ólafur Egilsson var prestur að Ofanleiti í Vestmannaeyjum er Tyrkir komu þangað og var hertekinn ásamt konu sinni og tveimur börnum. Þá fæddist þeim hjónum eitt barn í hafi stuttu eftir herleiðinguna. Örlögin höguðu því þannig að Ólafur sneri aftur úr herleiðingunni ári síðar og hafði þá ferðast um Algeirsborg í Afríku um Ítalíu og Frakkland sunnanvert og þaðan sjóleiðis til Hollands. Á endanum komst hann til Danmerkur og þaðan til Íslands. Ferð þessi hefur verið mikið þrekvirki; Ólafur bæði lítt talandi á erlendum tungum, auralaus og illa búinn til slíkrar farar. Þá bætti ekki úr að Þrjátíu ára stríðið var í algleymingi á þesum tíma, en inn í það drógust flestar þjóðir Evrópu með einhverjum hætti. Var Ólafi ætlað að koma af stað söfnun til að kaupa laust herleitt fólk. Gekk sú söfnun illa Í kjölfarið skrifaði Ólafur reisubók sem varð mjög vinsæl og er ein helsta heimild um þennan atburð.

NÝ BÓK

Eiríks saga rauða

Þessa vikuna ferðumst við alla leið til Grænlands í Eiríks sögu rauða. Segir hún frá landnámi norrænna manna á Grænlandi og landafundum í Vesturheimi. Sagan mun skráð snemma á 13. öld og er höfundur hennar ókunnur. Í flestum megindráttum mun Eiríks saga vera skáldskapur en byggir þó á sönnum atburðum, er eiginlega ofin inn í atburði sem áttu sér stað í raunveruleikanum. Þó svo að nafn sögunnar gefi til kynna að hún fjalli í megindráttum um Eirík Þorvaldsson hinn rauða, er því öðruvísi farið í sjálfri sögunni. Honum eru eiginlega ekki gerð mikil og góð skil nema í tveimur köflum. Ef miða ætti við rými og hlutdeild persónanna í sögunni mætti frekar segja að aðalpersóna sögunnar sé Guðríður Þorbjarnardóttir Vífilssonar, þess sem kom með Auði djúpúðgu til Íslands.

NÝ BÓK

Nýtt: Bækur á ensku - Oscar Wilde

Við á Lestu erum alltaf að reyna að bæta þjónustuna og í dag byrjum við á því að bjóða upp á bækur á ensku. Stefnum við að því að kynna a.m.k. einn höfund í hverjum mánuði. Fyrsti höfundurinn sem við kynnum er hinn litríki og stórskemmtilegi Oscar Wilde. Fæddist hann í Dyflinni á Írlandi 16. október árið 1854 en lést einungis 46 ára gamall í París 30. nóvember árið 1900. Er hann helst þekktur fyrir frábær leikrit, ljóð, smásögur og eina skáldsögu, The Picture of Dorian Gray. Wilde var einn skeleggasti fulltrúi fagurfræðinnar en megininntak hennar er ,,listin listarinnar vegna". En það voru ekki bara ritstörfin sem héldu nafni Wildes á lofti. Han var alla tíð mjög umdeildur, ekki síst fyrir líferni sitt. Var hann t.a.m. dæmdur og settur í fangelsi fyrir samkynhneigð sem þá var bönnuð á Englandi. Það segir sitt um hæfileika Wildes að verk hans lifa góðu lífi enn þann dag í dag og nú getið þið nálgast helstu verkhans hér á Lestu.is, en þau eru:

  • The Happy Prince and Other Tales
  • The Picture of Dorian Gray
  • The Importance of Being Earnest
  • Lord Arthur Savile's Crime and Other Stories

NÝ BÓK

Barnabók:
Kalli litli

Þessa vikuna bjóðum við upp á skemmtilega barnasögu frá Hollandi sem nefnist Kalli litli. Sögunni fylgja spurningar til umhugsunar og stutt verkefni.

 

 

 

NÝ BÓK

Kjalnesinga saga

Kjalnesinga saga er talin rituð um eða eftir aldamótin 1300. Þá er raunsæið farið að víkja fyrir reyfarakenndari atburðum og við merkjum aukinn skyldleika við þjóðsögur og riddarasögur. Ólíkt mörgum eldri sögum leggur höfundur meiri áherslu á að hreyfa við ímyndunarafli lesandans heldur en teygja einhvern sannleika til eða frá. Og það tekst höfundi Kjalnesinga sögu ágætlega. Sagan er bæði skemmtileg og vel upp byggð og höfundur hefur greinilega metnað að skrifa eitthvað meira en einhverja innihaldsrýra áfloga- og ástarsögu. Hann hefur líka skoðanir sem hann vill að lesandinn fái þef af.

NÝ BÓK

Sögur herlæknisins II:
Sverðið og plógurinn
eftir Zacharias Topelius

Sagan Sverðið og plógurinn er önnur í röðinni af átjan í hinum stóra sagnabálki finnska skáldrisans Zachariasar Topeliusar sem hann kallaði Sögur herlæknisins. Er þetta stórbrotin örlaga- og fjölskyldusaga sem spannar sögu Svía og Finna í tvær aldir eða frá því Gústaf Adólf kemst til valda allt fram á daga Gústafs þriðja. Meginþráður sögunnar er hringur einn sem býr yfir ákveðnum töframætti og minnir það um margt á Hringadróttinssögu Tolkiens. Umgjörð sögunnar er mjög hugvitssamleg, en Topelius lætur gamlan herlækni segja söguna og er lýsingin á því skemmtileg saga inni í sögunni sem gefur höfundinum ákveðið frelsi til að koma með utanaðkomandi skýringar og skoðanir inn í meginsöguna. Sniðugt stílbragð sem gengur fyllilega upp í höndum Topeliusar.

NÝ BÓK

Ævintýri I
eftir H. C. Andersen

Ævintýri H. C. Andersens hafa löngum verið okkur Íslendingum nákomin og höfum við á Lestu.is ákveðið að bjóðu upp á þau í nokkrum bindum. Í dag er komið að því fyrsta. Eru þetta ellefu ævintýri og var reynt að blanda saman ævintýrum sem flestir þekkja við önnur sem færri þekkja, en eru þó engu síðri. Af þekktum ævintýrum má nefna Eldfærin, Hans klaufa og Óla lokbrá; en ævintýri á borð við Förunautinn, Skuggann og Vonda kónginn þekkja færri. Það er ekki allra að skrifa fyrir börn. En það var í ævintýrunum sem Andersen fann sér farveg fyrir þann skáldskap sem bjó í honum og hann þurfti að koma frá sér. Frásagnarmátinn hentaði honum einstaklega vel og í honum tryggði hann sér það listræna frelsi sem honum var eðlislægt. Þar fær einlægnin að njóta sín og barnið í honum, en um leið skilar hann sínum boðskap til lesandans á fumlausan hátt, boðskap sem á ekki síður erindi til fullorðinna og er tímalaus í eðli sínu.

NÝ BÓK

Dagbók vesturfara (1. bindi)
eftir Jóhann Magnús Bjarnason

Hér birtist dagbók vestur-íslenska rithöfundarins Jóhanns Magnúsar Bjarnasonar (1866-1945) - fyrsta bindið af þremur og nær það yfir árin 1902-1918. Dagbókin varpar ómetanlegu ljósi á líf og starf eins af okkar merkustu höfundum en lýsir jafnframt einstöku samfélagi Vestur-Íslendinga á sléttunum miklu í Norður-Ameríku. Jóhann Magnús Bjarnason varð metsöluhöfundur á árunum upp ur 1900 með hinum töfrandi frásögnum af Eiríki Hanssyni og Brasilíuförunum.

NÝ BÓK

Snorra-Edda I

Í dag bjóðum við upp á eina af helstu perlum íslenskra fornbókmennta, en það er fyrri hluti Snorra-Eddu sem hefur að geyma Prologus og Gylfaginningu. Mun það vera ritað af Snorra Sturlusyni einhvern tíma á bilinu 1220-1230. Snorra-Edda hefst á Prologus (formála) þar sem lýst er sköpun heims, upphafi trúarbragða og tilurð hinna fornu ása. Meginmálið skiptist svo í þrjá hluta þar sem fremst fer Gylfaginning, þá Skáldskaparmál og loks Háttatal. Gylfaginning er öðrum þræði frásögn og kennslubók í goðafræði. Er hún okkar helsta heimild um norrænan goðsagnaheim. Skáldskaparmál segja frá upphafi skáldskaparins. Þar er kenningum og heitum lýst með dæmum. Einnig er þar að finna fjölmargar goðsögur og hetjusögur sem sagðar eru til að lýsa uppruna kenninga. Þriðji hlutinn er kvæðið Háttatal ásamt bragfræðiskýringum. Það er hundrað og tvær vísur og sýnir þá bragarhætti og afbrigði þeirra sem Snorri þekkti.

NÝ BÓK

Sögur Fjallkonunnar II

Fyrir nokkru buðum við upp á fyrra bindið af Sögum Fjallkonunnar og í dag fáið þið svo síðara bindið. Tímaritið Fjallkonan kom út á árunum 1884-1911 og naut lengstum mikilla vinsælda. Fyrsti ritstjóri þess og eigandi var Valdimar Ásmundsson og eftir að hann lést tók kona hans Bríet Bjarnhéðinsdóttir við blaðinu um hríð. Auk þess sem blaðið var vettvangur almennrar þjóðmálaumræðu lagði ritstjóri þess mikla áherslu á að blaðið væri gluggi út í hinn stóra heim og þýddi Valdimar sjálfur sögur eftir marga öndvegishöfunda. Við höfum tekið saman brot af því besta úr þessum þýðingum og sett saman í tvö bindi. Í þessu síðara bindi má finna sögur eftir höfunda eins og Mark Twain, J. Ricard, Henry Cantell og fleiri. Eru sögurnar bæði stórskemmtilegar og áhugaverðar.

NÝ BÓK

Kvæði
eftir Eggert Ólafsson

Þessa vikuna bjóðum við upp á forvitnilega bók úr fortíðinni, en það er Kvæðasafn Eggerts Ólafssonar sem lest árið 1768. Eggert orti töluvert um æfina þó svo að hann teljist ekki til stórskálda. Fjölnismenn hömpuðu honum og hafði hann mikil áhrif á þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson. Eggert var þó á engan hátt jafn mikið skáld og hann var fræðimaður og baráttumaður, og voru kvæði hans flest því marki brennd að vera farvegur fyrir skoðanir hans og baráttumál í lífinu. Þrátt fyrir að kvæði hans verði seint talinn haglega eða vel ort fá þau mikinn kraft úr eldmóðinum sem á stundum hrífur lesandann svo með sér að hann gleymir öllu öðru.

NÝ BÓK

Sálmar á atómöld
eftir Matthías Johannessen

Í dag erum við í hátíðarskapi og bjóðum upp á hina frábæru bók Sálmar á atómöld eftir Matthías Johannessen.  Sálmarnir  komu fyrst út sem hluti af bókinni Fagur er dalur árið 1966. Voru þeir þá 49, en aldarfjórðungi síðar (1991) voru þeir gefnir út í sér bók með því nafni og hafði þeim þá fjölgað og voru orðnir 65.  Sálmarnir hans Matthíasar eru ólíkir venjulegum sálmum, en hafa samt sterk trúarleg tengsl og skírskotanir.  Alveg eins og Kristur fann trú sinni farveg í einföldum hvunndagshetjum, finnur Matthías trúarleit sinni stað í hversdagsleikanum.  Hann upphefur hversdagsleikann og skoðar lykilhugtök trúarinnar í honum.  Trú hans er ekki trú tyllidaga og hátíðleika, heldur trú hins venjubundna dags með öllum sínum blæbrigðum. 

NÝ BÓK

Piltur og stúlka

Eins og svo oft áður bjóðum við upp á tímamótaverk á síðum okkar í dag. Er það skáldsagan Piltur og stúlka eftir Jón Thoroddsen sem kom út árið 1850 og telst vera fyrsta íslenska skáldsagan sem gefin var út á Íslandi. Jafnframt því að vera fyrsta skáldsagan setti hún tóninn fyrir þá höfunda sem á eftir komu. Sagan hefur löngum verið talin falla undir mælistiku raunsæis, enda lýsir hún íslenskum samtíma nokkuð vel og trúverðuglega. Ef litið er á byggingu sögunnar, persónusköpun og fléttu verður hún þó seint talin til raunsæis. Þar svífur rómantíkin yfir vötnum. En hvað sem öllum flokkunum líður er sagan mikilvæg í sögulegu tilliti og þá er ekki verra að hún líka bráðskemmtileg aflestrar.

NÝ BÓK

Egils saga Skallagrímssonar

Þessa vikuna bjóðum við ykkur upp á sjálfa Egils sögu Skallagrímssonar. Sú saga er og verður okkur Íslendingum ávallt hugleikin, enda ein af stóru sögunum og talin skrifuð af Snorra Sturlusyni. Er þetta ættarsaga sem stundum er skipt í tvo hluta, sá fyrri (kaflar 1-27) segir sögu Kveld-Úlfs Bjálfasonar; sona hans Skalla-Gríms og Þórólfs og baráttu þeirra við norska konungsvaldið. Sá síðari segir svo sögu Egils sjálfs, af skáldinu, vígamanninum og bóndanum sem býður erlendu valdi byrginn og hefur sigur að lokum. Já, það er ekki bara í dag að Íslendingar halda í útrás og koma sér í vandræði.

NÝ BÓK

Benjamín Franklín
Ævisaga

Í dag bjóðum við upp á bók sem lengi hefur verið ófáanleg. Er það ævisaga Benjamíns Franklíns í þýðingu Jóns Sigurðssonar. Er hún eftir mann að nafni Jørgen Wilhelm Marckmann og kom fyrst út í Danmörku árið 1837. Varð bókin strax afar vinsæl og hefur Jóni þótt mikið til hennar koma því hann hóf strax að þýða hana á íslensku. Var hún gefin út af Hinu íslenska bókmenntafélagi árið 1839. Bókin er um margt mjög merkileg. Í fyrsta lagi er gaman að kynna sér ævi þessa merka manns og þá er boðskapur bókarinnar sígildur og á jafn vel við í dag og þegar bókin var skrifuð. Benjamín Franklín var holdgervingur heilbrigðrar hugsunar og bara við það að lesa um manninn er eins og maður eignist hlutdeild í þeim góðu eiginleikum sem prýddu þetta stórmenni. Það sem þó gerir þessa bók ekki síður forvitnilega fyrir okkur Íslendinga er sú staðreynd að þýðingin er unnin af Jóni Sigurðssyni.

NÝ BÓK

Sögur herlæknisins I
eftir Zacharias Topelius

Í dag bjóðum við upp á sannkallaða perlu úr fortíðinni. Er það fyrsta sagan af fimmtán í sagnabálkinum Sögur herlæknisins eftir finnska höfundinn Zacharias Topelius. Er hér um að ræða örlaga- og fjölskyldusaga sem spannar sögu Svía og Finna í tvær aldir eða frá því Gústaf Adólf kemst til valda allt fram á daga Gústafs þriðja. Meginþráður sögunnar er hringur einn sem býr yfir ákveðnum töframætti og minnir það um margt á Hringadróttinssögu Tolkiens. Umgjörð sögunnar er mjög hugvitssamleg, en Topelius lætur gamlan herlækni segja söguna og er lýsingin á því skemmtileg saga inn í sögunni sem gefur höfundinum ákveðið frelsi til að koma með utanaðakomandi skýringar og skoðanir inn í meginsöguna. Sniðugt stílbragð sem gengur fyllilega upp í höndum Topeliusar. Við hvetjum ykkur til að lesa þessa fyrstu sögu og byggja þannig upp fjölda ánægjustunda í framtíðinni.

NÝ BÓK

Reykjavík um aldamótin 1900
eftir Benedikt Gröndal

Í dag er það Ritgerð Benedikts Sveinbjarnarsonar Gröndal um Reykjavík árið 1900 er bæði ómetanleg heimild um lífið á þessum mótunarárum höfuðstaðarins og skemmtileg frásögn þar sem skáldið og rithöfundurinn fer á kostum og skemmtir okkur með leiftrandi lýsingum á mannlífi og menningu þess tíma. Ritgerðin gefur hinni sígildu sjálfsævisögu Benedikts, dægradvöl ekkert eftir og er í raun eins og skemmtilegur viðauki við hana. Sagan á erindi til allra sem unna góðri alþýðusagnfræði og frábærum stíl.

NÝ BÓK

Söknuður
eftir Jóhann Jónsson

Í dag bjóðum við upp á sannakallaðan gimstein í bókmenntun okkar Íslendinga. Er það ljóð og laust mál Jóhanns Jónssonar, skáldsins sem færði okkur ljóðið Söknuð. Söknuður er eitt fallegasta ljóð sem ort hefur verið á íslenska tungu, og þó svo að liðin séu um áttatíu ár síðan það kom út hefur snilld þess hvergi fölnað og stendur það enn á jafntraustum grunni og þegar það var ort. Ljóðið er einnig merkilegt fyrir það að ásamt með ljóðinu Sorg eftir Jóhann Sigurjónsson er það talið marka upphaf nútíma ljóðagerðar. Nýtt og ferskt form þess olli straumhvörfum í íslenskri ljóðagerð. Jóhann varð ekki langs lífs auðið, en hann fæddist 12. September árið 1896 og lést 1. september árið 1932 stuttu fyrir þrítugasta og sjötta afmælisdag sinn, úr berklum. Þessi bók hefur að geyma ljóð og laust mál Jóhanns, auk vandaðra ritgerða um manninn og verk hans eftir þá Gunnar Má Hauksson og Inga Boga Bogason.

NÝ BÓK

Jakob Ærlegur
eftir Frederick Marryat

Í dag bjóðum við upp á eina af perlum heimsbókmenntanna. Er það sagan Jakob Ærlegur eftir Frederick Marryat. Er vandfundin saga sem endurspeglar jafn mikla frásagnagleði og veitir lesandanum jafn mikla ánægju. Hún fjallar fyrst og fremst um drenginn Jakob sem verður fyrir því óláni að missa foreldra sína ungur og stendur í kjölfarið uppi munaðarlaus. Hafði hann þá alið allan sinn stutta aldur með foreldrum sínum á flutningabát á ánni Thames og vissi ekkert um lífið utan þess sem sneri að því. Fylgjumst við með honum takast á við nýjan og framandi veruleika allt fram á fullorðinsár. Auk aðalpersónunnar kynnumst við mörgum öðrum áhugaverðum persónum í bókinni sem seint hverfa úr minni. Sagan kom fyrst út árið 1834 og varð strax mjög vinsæl. Þá var hún lesin af öllum aldurshópum, en af einhverjum undarlegum ástæðum hefur hún að undanförnu verið flokkuð sem barna- og unglingabók, sem er synd. Jakob Ærlegur er saga sem allir geta haft ánægju af að lesa.