NÝ BÓK

The Rayner-Slade Amalgamation

The Rayner-Slade Amalgamation er sakamálasaga eftir J. S. Fletcher.

Síðla kvölds fær Marshall Allerdyke áríðandi símskeyti frá James frænda sínum sem biður hann að hitta sig í Hull. Marshall leggur strax af stað og á leiðinni verður á vegi hans ung kona sem spyr til vegar og virðist vera á hraðferð frá Hull til Skotlands. Við komuna á hótelið í Hull finnur Marshall frænda sinn látinn í herbergi sínu. Á gólfinu finnur hann sylgju af kvenskó sem reynist tilheyra dularfullu konunni.

Joseph Smith Fletcher (1863-1935) var enskur rithöfundur og blaðamaður. Hann skrifaði yfir 230 bækur um ýmiss konar efni og var einn afkastamesti höfundur Englands á sviði sakamálasagna.

NÝ BÓK

The Wings of the Dove

Skáldsagan The Wings of the Dove kom fyrst út árið 1902. Hér segir frá Kate Croy sem lifir eins og blómi í eggi undir verndarvæng frænku sinnar. Hún er ástfangin af blaðamanninum Merton Densher, en frænkan er sambandinu mótfallin vegna þess að hann er fátækur. Þegar Kate kynnist Milly Theale, auðugri ungri konu sem haldin er lífshættulegum sjúkdómi, finnur hún upp á ráðabruggi ætluðu til að tryggja sjálfri sér og Merton fjárhagslegt öryggi í framtíðinni.

Bandaríski rithöfundurinn Henry James er af mörgum talinn einna fremstur meðal skáldsagnahöfunda sem skrifuðu á ensku. Verk hans brúa bilið á milli raunsæis og módernisma. Meðal þekktustu verka hans eru skáldsögurnar The Portrait of a Lady, The Ambassadors og The Wings of the Dove. Auk fjölda skáldsagna og smásagna skrifaði hann bókmenntagagnrýni, leikrit, ferðasögur, sjálfsævisögur o.fl. Hann var tilnefndur til bókmenntaverðlauna Nóbels árin 1911, 1912 og 1916.

NÝ BÓK

Góðhjartaði piparkökukarlinn

Góðhjartaði piparkökukarlinn er barnasaga eftir ókunnan höfund. Hér segir frá piparkökukarli sem vill umfram allt gleðja aðra.

 

 

 

NÝ BÓK

Little Women

Skáldsagan Little Women eftir bandaríska rithöfundinn Louisa May Alcott (1832–1888) var upphaflega gefin út í tveimur bindum árin 1868 og 1869. Um leið og fyrra bindi sögunnar kom út urðu lesendur jafnt sem gagnrýnendur afar hrifnir og vildu fá að vita meira um persónur sögunnar. Alcott lauk fljótt við annað bindið og hlaut það einnig góðar viðtökur. Skáldsagan var svo gefin út í einu lagi árið 1880. Sagan nýtur enn vinsælda og hefur oft verið kvikmynduð og sett á svið.

Little Women segir frá uppvexti systranna Meg, Jo, Beth og Amy, og er lauslega byggð á eigin lífi höfundar og systra hennar þriggja. Alcott skrifaði tvær sögur í viðbót um March-systurnar: Little Men (1871) og Jo's Boys (1886).

NÝ BÓK

The Innocence of Father Brown
eftir G. K. Chesterton

The Innocence of Father Brown er safn smásagna eftir G. K. Chesterton um rómversk-kaþólska prestinn séra Brown, sem nýtir innsæi sitt og skarpan skilning á mannlegu eðli til þess að leysa sakamál og ráðgátur samhliða prestsstarfinu. Chesterton skrifaði u.þ.b. 50 sögur um hinn lágvaxna og glögga guðsmann, og komu þær út á árunum 1910–1936. Sú fyrsta nefnist The Blue Cross og er einmitt fyrsta sagan í safninu sem hér birtist. Vinsælir sjónvarpsþættir hafa verið gerðir eftir sögunum um séra Brown, eins og margir munu eflaust kannast við.

NÝ BÓK

Gunnars saga Keldugnúpsfífls

Gunnars saga Keldugnúpsfífls er ein af Íslendingasögunum og talin hafa verið skrifuð á 15. eða 16. öld. Sagan er varðveitt í handriti frá 17. öld.

 

 

 

NÝ BÓK

Little Dorrit eftir Charles Dickens

Skáldsagan Little Dorrit eftir breska rithöfundinn Charles Dickens kom fyrst út á árunum 1855-1857. Dickens gagnrýnir hér ýmsa þætti bresks samfélags á þeim tíma, svo sem skrifræði, stéttaskiptingu og hin svokölluðu skuldafangelsi, en faðir hans sat í einu slíku um tíma.

 

 

NÝ BÓK

North and South eftir Elizabeth Gaskell

Skáldsagan North and South er eitt þriggja þekktustu verka breska rithöfundarins Elizabeth Gaskell (1810-1965), ásamt skáldsögunum Cranford og Wives and Daughters.

Hér segir frá Margaret Hale sem flytur 19 ára gömul ásamt foreldrum sínum til iðnaðarborgarinnar Milton í Norður-Englandi, þar sem iðnbyltingin er komin á skrið. Faðir hennar, fyrrum prestur, fer að vinna fyrir sér sem kennari og einn nemenda hans er John Thornton, forstjóri bómullarverksmiðju þar í bæ. Þegar Margaret hittir John Thornton hefst samband sem á eftir að verða stormasamt.

Sagan birtist fyrst sem framhaldssaga á árunum 1854-1855 í tímaritinu Household Worlds (sem Charles Dickens ritstýrði), en kom svo út á bók árið 1855. Texti sögunnar og endir breyttust töluvert á milli útgáfa og skrifaði Gaskell því stuttan formála að bókinni til skýringar.

NÝ BÓK

Vatnaspegill eftir Erlend Jónsson

Vatnaspegill er sjötta ljóðasafn Erlendar Jónssonar og hefur að geyma tuttugu og eitt ljóð.

Verk Erlendar eru persónuleg með sterk höfundareinkenni og tala sterkt inn í samtíðina. Vald hans á íslenskri tungu er mikið og blátt áfram stíllinn og einlægni í framsetningu ljær verkum hans einstakan hugblæ.

 

NÝ BÓK

The House Without a Key
eftir Earl Derr Biggers

The House Without a Key er fyrsta skáldsaga Biggers um rannsóknarlögreglumanninn Charlie Chan.

Sögusviðið er Hawaii á þriðja áratug 20. aldarinnar. Lesandinn er kynntur fyrir andrúmslofti eyjanna á þeim tíma frá sjónarhorni íbúa af ólíkum uppruna, sem og stéttaskiptingu og hefðum sem vart eru lengur við lýði á 21. öldinni.

Aðalsöguhetjan er ungur maður sem hafði komið til Hawaii til að reyna að telja frænku sína á að snúa aftur til Boston. Frænkan finnst svo látin og Charlie Chan kemur til aðstoðar við að rannsaka málið.

NÝ BÓK

The Invisible Man eftir H. G. Wells

The Invisible Man er stutt vísindaskáldsaga (nóvella) eftir breska rithöfundinn H. G. Wells. Hún kom fyrst út árið 1897. Dularfullan mann ber að garði í þorpi nokkru. Hann er fáskiptinn og undarlegur í útliti, og fer ekki út úr herbergi sínu nema í myrkri. Hann reynist vera vísindamaðurinn Griffin, sem hefur helgað sig rannsóknum á ljóseðlisfræði og fundið upp aðferð til að gera sjálfan sig ósýnilegan.

 

NÝ BÓK

Skytturnar þrjár: 2. bindi - Englandsförin

Í þessu öðru bindi af Skyttunum þremur eftir Alexandre Dumas fylgjumst við áfram með þeim félögum d'Artagnan, Athos, Portos og Aramis þar sem þeir reyna að verja heiður drottningarinnar Önnu af Austurríki, eiginkonu Lúðvíks þrettánda Frakkakonungs, en Richelieu kardínáli og leppar hans hafa reynt að leggja snörur fyrir hana. Í því skyni þarf d'Artagnan að taka sér ferð á hendur til Englands sem alls ekki er hættulaust, því Englendingar og Frakkar eiga í stríði.

NÝ BÓK

Anne of Avonlea eftir Lucy Maud Montgomery

Anne of Avonlea eftir kanadíska rithöfundinn L. M. Montgomery er önnur skáldsagan í röðinni um Anne Shirley. Nokkur ár eru nú liðin síðan Anne kom til Avonlea sem ellefu ára munaðarlaus stelpuhnáta. Á þessum árum hefur hún unnið sér sess í hjörtum þorpsbúa, og einnig orðspor fyrir að koma sér í vandræði. Nú er Anne orðin sextán ára og farin að kenna við barnaskóla þorpsins. Sem fyrri daginn er engin lognmolla í kringum þessa rauðhærðu og skapmiklu stúlku. Það fjölgar um tvo á Green Gables-heimilinu, Anne hittir konu sem hún lítur mjög upp til, og Gilbert Blythe heldur áfram að valda henni heilabrotum, svo eitthvað sé nefnt.

NÝ BÓK

The Conduct of Life eftir Ralph Waldo Emerson

Ritgerðasafnið The Conduct of Life eftir Ralph Waldo Emerson kom fyrst út árið 1860 og svo í endurskoðaðri útgáfu árið 1876. Emerson glímir hér við spurninguna um hvernig best sé að lifa. Ritgerðirnar í þessu safni eru níu talsins og hefst hver þeirra á ljóði. Þær eru að mestu leyti byggðar á fyrirlestrum sem Emerson hélt víða um Bandaríkin um miðja nítjándu öldina. Gagnrýnendur hafa ýmist talið The Conduct of Life besta eða sísta verk Emersons. Verkið naut þónokkurra vinsælda og hafði áhrif á aðra hugsuði og rithöfunda, þar á meðal Friedrich Nietzsche.

NÝ BÓK

Helsingjar eftir Stefán frá Hvítadal

Helsingjar var fjórða og síðasta ljóðabók Stefáns frá Hvítadal og kom fyrst út árið 1927. Ungt fólk hreifst mjög af ljóðum Stefáns eins og manninum sjálfum enda var hann hálfgildings förumaður, nýkominn heim eftir alllanga dvöl í framandi landi, fátækur og heilsulaus og þó enginn hversdagsmaður heldur höfðinglegur í allri sinni fátækt, öruggur í framgöngu og ágætlega til þess fallinn að verða persónuleg fyrirmynd hinnar ungu, óþreyjufullu skáldakynslóðar sem fagnaði nýjum skáldum í draumórakenndri hrifningu.

NÝ BÓK

Hard Times eftir Charles Dickens

Hard Times er tíunda skáldsaga Charles Dickens og kom fyrst út á prenti árið 1854. Hún er langstyst allra skáldsagna höfundar og sú eina sem ekki gerist að neinu leyti í London. Sögusviðið er þess í stað Coketown, ímyndaður iðnaðarbær í Norður-Englandi. Sagan er háðsádeila á aðstæður í ensku samfélagi á tímum iðnbyltingarinnar. Hún skiptist í þrjár bækur og nefnast þær Sowing, Reaping og Garnering.

 

NÝ BÓK

Dead Men's Money eftir J. S. Fletcher

Ekkert er sem sýnist í hinni sígildu glæpasögu Dead Men's Money eftir J. S. Fletcher. Hugh Moneylaws, ungur og saklaus aðstoðarmaður lögfræðings, rambar óvænt inn í morðmál þegar hann er beðinn um að færa manni nokkrum leynileg skilaboð á fáförnum stað um miðja nótt.

Joseph Smith Fletcher (1863-1935) var enskur rithöfundur og blaðamaður. Hann skrifaði yfir 230 bækur um ýmiss konar efni og var einn afkastamesti höfundur Englands á sviði sakamálasagna.

NÝ BÓK

Víga-Glúms saga

Víga-Glúms saga er talin með elstu Íslendingasögunum, sennilega skrifuð á fyrri hluta 13. aldar. Þetta er ævisaga hins ættgöfuga höfðingja, Glúms á Þverá í Eyjafirði á 10. öld. Hann er skáldmæltur og minnir að sumu leyti á sjálfan Egil Skalla-Grímsson. Glúmur fer ungur til Noregs til náfrænda sinna og ,,sannar sig'' þar, en heim kominn lendir hann í deilum við höfðingja í nágrenni sínu, jafnvel nána frændur. Glúmur er klókur bragðarefur og oft eru lýsingar á gerðum hans skoplegar og háði blandnar. Þegar á ævina líður sígur heldur á ógæfuhliðina fyrir honum, og hann missir að lokum föðurleifð sína. Ef til vill má líta svo á að honum hefnist fyrir óbilgirni sína. Hann deyr sjónlaus en hafði áður tekið kristni – og þannig hefur hann hugsanlega öðlast drottins náð!

NÝ BÓK

Anne of Green Gables eftir L. M. Montgomery

Anne of Green Gables eftir kanadíska rithöfundinn Lucy Maud Montgomery er fyrsta skáldsagan í röðinni um ævintýri munaðarlausu stúlkunnar Anne Shirley. Matthew og Marilla Cuthbert höfðu óskað eftir að ættleiða hljóðlátan dreng til að aðstoða þau við búverkin. Þau verða því aldeilis hissa þegar rauðhærð og fjörug ellefu ára stúlka birtist í staðinn. Cuthbert-systkinin hafa ekki brjóst í sér til að senda hana aftur á kaldranalegt munaðarleysingjahælið, svo hún fær að vera um kyrrt í Avonlea. Anne er fljót að koma sér í klandur, en smám saman vinnur þessi stelpuhnokki, með sitt líflega ímyndunarafl og málgleði, sér sess í hjörtum allra sem kynnast henni. Frá því að sagan kom fyrst út árið 1908 hefur hún verið geysilega vinsæl og þýdd á fjölmörg tungumál. Á íslensku heitir hún Anna í Grænuhlíð.

NÝ BÓK

The Green Rust eftir Edgar Wallace

The Green Rust er spennandi glæpasaga eftir enska rithöfundinn Edgar Wallace (1875-1932), en hann var einn afkastamesti rithöfundur 20. aldarinnar.

Milljónamæringurinn John Millinborn verður skyndilega veikur. Hann telur sig eiga skammt eftir ólifað og sendir því eftir lögfræðingi sínum til að biðja hann einnar bónar: að finna frænku hans og tilvonandi erfingja, Oliviu, sem hann hefur aldrei hitt, og hafa auga með henni í leyni. Stuttu síðar finnst hann myrtur.

Alveg grunlaus um þessa atburði starfar Olivia sem afgreiðslustúlka í verslun. Skyndilega er henni sagt upp án nokkurrar skýringar og ræður hún sig þá í vinnu hjá náunga að nafni Beale, sem ekki er allur þar sem hann er séður.

NÝ BÓK

Skytturnar þrjár I: Skyttulið konungs eftir Alexandre Dumas

Skytturnar þrjár er söguleg skáldsaga eftir Alexandre Dumas. Hún var fyrst gefin út sem framhaldssaga í dagblaðinu Le Siècle frá mars til júlí árið 1844. Sagan sem á að gerast á árunum 1625-1628 segir frá fjórum vinum, d'Artagnan, Atos, Portos og Aramis sem voru skyttuliðar í þjónustu Loðvíks þrettánda Frakkakonungs. Hún byggir m.a. á sögunni Minningar herra d'Artagnans eftir Gatien de Courtilz de Sandras sem hann byggði á ævi skyttunar Charles de Batz-Castelmore d'Artagnan (1611-1673).

Sagan kom fyrst út í íslenskri þýðingu Björns Blöndals og var þá í fjórum bindum. Skyttulið konungs er fyrsta bindið og kom út árið 1923. Sagan er stórskemmtileg og hefur verið þýdd á ótal tungumál en vert er að benda á að fólki gæti þótt þessi þýðing nokkuð forn, en sagan bætir fyllilega fyrir það.

NÝ BÓK

A Tale of Two Cities eftir Charles Dickens

A Tale of Two Cities er söguleg skáldsaga eftir Charles Dickens. Margir kannast við upphafsorðin: "It was the best of times, it was the worst of times..." Sagan kom fyrst út árið 1859 í tímaritinu All the Year Round sem Dickens gaf sjálfur út.

Sögusviðið er borgirnar London og París á tímum frönsku byltingarinnar. Hér segir frá franska lækninum Alexandre Manette, sem látinn er laus úr 18 ára varðhaldi í Bastillunni og kemst í samband við Lucie, dótturina sem hann hafði aldrei áður hitt. Einnig koma við sögu eiginmaður Lucie og vínkaupmennirnir herra og frú Defarge, ásamt fleirum. Bakgrunnur sögunnar er svo aðdragandi frönsku byltingarinnar og ógnarstjórnarinnar.

NÝ BÓK

The Scarlet Letter eftir Nathaniel Hawthorne

Hin sígilda skáldsaga The Scarlet Letter eftir bandaríska rithöfundinn Nathaniel Hawthorne (1804-1864) kom fyrst út árið 1850 og er af mörgum talin besta verk höfundar. Sögusviðið er Boston í Massachusetts-fylki um miðja 17. öld, á tíma hreintrúarstefnunnar. Hér segir frá Hester Prynne, ungri konu sem eignast barn utan hjónabands og er dæmd sek um framhjáhald. Sagan hefur mörgum sinnum verið kvikmynduð og sett á svið.

 

NÝ BÓK

Smásögur úr ýmsum áttum

Í þessu smásagnasafni má finna sögurnar Sjóferðin eftir Katherine Mansfield, Silkisokkaparið og Saga um klukkustund eftir Kate Chopin, Stúlkan sem vermdi mig eftir Maxim Gorki, Þegar neyðin er stærst eftir G. C. Ebet, Tvö líf milli heims og helju eftir G. H. S., og Nóttina fyrir innbrotið eftir Peter Cheyney.

 

 

NÝ BÓK

Kidnapped eftir Robert Louis Stevenson

Kidnapped er söguleg skáldsaga eftir skoska rithöfundinn Robert Louis Stevenson. Sagan var skrifuð sérstaklega fyrir drengi og fyrst gefin út í tímaritinu Young Folks árið 1886. Meðal þeirra sem lýst hafa yfir aðdáun sinni á skáldsögunni má nefna rithöfundana Henry James, Jorge Luis Borges og Hilary Mantel. Skáldsagan Catriona (1893) er framhald sögunnar Kidnapped.

Sagan er byggð á raunverulegum atburðum, hinum svokölluðu Appin-morðum, sem áttu sér stað í Skotlandi á 18. öld eftir uppreisnina 1745. Margar raunverulegar persónur koma fyrir í sögunni, þar á meðal ein aðalpersónan, Alan Breck Stewart. Einnig koma fram ólík sjónarhorn á hið pólitíska landslag þess tíma, auk þess sem skosku hálöndin eru birt í jákvæðu ljósi.

NÝ BÓK

Northanger Abbey eftir Jane Austen

Northanger Abbey var fyrsta skáldsagan sem Jane Austen lauk við, en hún var þó ekki gefin út fyrr en 1817, að höfundinum látnum. Hér gerir Austen m.a. gys að sögum sem voru vinsælar á þeim tíma og mætti flokka sem gotneskar hryllingssögur.

Söguhetjan, hin unga Catherine Morland, er afar upptekin af gotneskum skáldsögum og dreymir um að upplifa rómantísk ævintýri. Meðan á dvöl í Bath stendur fær hún í fyrsta sinn að kynnast samkvæmislífinu. Hún eignast nýja kunningja, þar á meðal systkinin Isabellu og Henry Tilney, sem bjóða henni heim til sín í hið mjög svo dularfulla Northanger Abbey. Þar fær ímyndunarafl Catherine lausan tauminn.

NÝ BÓK

Heilög kirkja

Heilög kirkja var þriðja ljóðabók Stefáns frá Hvítadal og kom fyrst út árið 1924, þremur árum eftir að Óður einyrkjans kom út. Ungt fólk hreifst mjög af ljóðum Stefáns eins og manninum sjálfum enda var hann hálfgildings förumaður, nýkominn heim eftir alllanga dvöl í framandi landi, fátækur og heilsulaus og þó enginn hversdagsmaður heldur höfðinglegur í allri sinni fátækt, öruggur í framgöngu og ágætlega til þess fallinn að verða persónuleg fyrirmynd hinnar ungu, óþreyjufullu skáldakynslóðar sem fagnaði nýjum skáldum í draumórakenndri hrifningu. Einlæg trúhneigð kemur fram í ljóðum Stefáns frá Hvítadal allt frá fyrstu bók og nokkrum árum eftir heimkomuna frá Noregi snerist hann til kaþólskrar trúar. Eftir það varð trúin og kirkjan honum kært yrkisefni og þeim málefnum helgaði hann ærinn hluta þeirra ljóða sem hann orti síðustu árin sem hann lifði.

NÝ BÓK

The Chestermarke Instinct
eftir J. S. Fletcher

The Chestermarke Instinct er sakamálasaga eftir J. S. Fletcher. Bankastjórinn John Hornbury mætir ekki til vinnu morgun einn og enginn veit hvar hann er niður kominn. Ýmsar gersemar hafa einnig horfið og eigendur bankans gruna Hornbury um þjófnað. Þessu neitar frænka hans, hin unga og ákveðna Betty Fosdyke, að trúa og hefst handa við að leysa gátuna. Til liðs við sig fær hún bankastarfsmanninn Wallington Neale og rannsóknarlögreglumanninn Starmidge frá Scotland Yard ásamt fleirum. En þegar lík manns finnst í nágrenninu flækist málið.

Joseph Smith Fletcher (1863-1935) var enskur rithöfundur og blaðamaður. Hann skrifaði yfir 230 bækur um ýmiss konar efni og var einn afkastamesti höfundur Englands á sviði sakamálasagna.

NÝ BÓK

The Adventures of Sherlock Holmes eftir Arthur Conan Doyle

The Adventures of Sherlock Holmes er safn fyrstu tólf smásagnanna um spæjarann snjalla, Sherlock Holmes. Sögurnar voru fyrst birtar í Strand Magazine á árunum 1891-1892. Sögurnar í þessu safni heita: A Scandal in Bohemia, The Red-Headed League, A Case of Identity, The Boscombe Valley Mystery, The Five Orange Pips, The Man with the Twisted Lip, The Adventure of the Blue Carbuncle, The Adventure of the Speckled Band, The Adventure of the Engineer's Thumb, The Adventure of the Noble Bachelor, The Adventure of the Beryl Coronet og The Adventure of the Copper Beeches.

NÝ BÓK

Hypatía eftir Charles Kingsley

Hypatía er skáldsaga eftir enska rithöfundinn Charles Kingsley. Hún kom fyrst út árið 1853 og er byggð á ævi heimspekingsins Hypatíu. Sagan hefst á frásögn af ungum munki að nafni Fílammon, sem ferðast til Alexandríu og dregst þar inn í pólitískar og trúarlegar erjur. Þó sagan hafi verið skrifuð til varnar kristinni hugmyndafræði ber hún með sér and-kaþólskan blæ, ásamt því að endurspegla fordóma höfundarins sjálfs gagnvart kynþáttum og trúarbrögðum, sem margir hverjir voru ráðandi viðhorf á 19. öldinni. Sagan var mikið lesin á sínum tíma og lengi vel talin ein af bestu skáldsögum Kingsleys.

NÝ BÓK

The Tenant of Wildfell Hall eftir Anne Brontë

The Tenant of Wildfell Hall er seinni skáldsagan af tveimur eftir enska rithöfundinn Anne Brontë. Hún kom fyrst út árið 1848 undir höfundarnafninu Acton Bell. Af öllum skáldsögum þeirra Brontë-systra olli þessi líklega mestu fjaðrafoki og naut strax mikillar velgengni, en eftir að Anne lést kom Charlotte systir hennar í veg fyrir að hún yrði endurútgefin.

Skáldsagan er sett upp sem safn bréfa frá Gilberti Markham til vinar síns og mágs. Dularfull ung ekkja tekur á leigu setrið Wildfell Hall, sem staðið hefur autt árum saman, og býr þar ásamt ungum syni sínum og gamalli þjónustukonu, án þess að eiga nokkurt samneyti við fólkið í nágrenninu. Ekkjan, sem kynnir sig sem Helen Graham, verður brátt að umtalsefni slúðurbera, en Gilbert Markham neitar að trúa sögusögnunum og vingast við Helen. Þá kemur ýmislegt úr fortíð hennar fram í dagsljósið.

Flestir gagnrýnendur í dag telja The Tenant of Wildfell Hall vera eina af fyrstu feminísku skáldsögum bókmenntanna.

NÝ BÓK

Færeyinga saga

Færeyinga saga er afar athyglisverð og reyndar bráðskemmtileg þó undirtónninn sé harmrænn á köflum. Menn hafa gjarnan flokkað þessa sögu með Íslendingasögum þótt atburðir hennar tengist ekki Íslandi eða Íslendingum; en líkt og Íslendingasögurnar er þar fjallað um bændur og bændahöfðingja (en ekki þjóðhöfðingja líkt og t.d. í Orkneyinga sögu). Sögusviðið er Færeyjar á 10. öld. En um ritunartíma er það að segja að fræðimenn greinir nokkuð á um hann; hefð er fyrir því að telja frumgerð Færeyinga sögu gamla, nánar tiltekið frá því fyrir 1220 en síðan hafa komið fram hugmyndir um að hún sé ekki skráð fyrr en seint á 13. öld.

Þrándur í Götu er áberandi persóna í sögunni, slóttugur í meira lagi og hugsar mest um eigin hag (sbr. orðtakið að vera einhverjum þrándur í götu), og minnir hann jafnvel á hinn viðsjála Óðin. En Þrándur í Götu er andvígur höfðingjum Noregs sem ásælast eyjarnar, og fær hann hugsanlega nokkra samúð lesandans af þeirri ástæðu. Gjörólíkur Þrándi er andstæðingur hans, Sigmundur Brestisson, glæsileg hetja sem ekki má vamm sitt vita og er hlynntur því að Færeyingar gangi höfðingjum Noregs á hönd. Sigmundur fellur ungur líkt og þeir fornu kappar sem eru honum sem andlega skyldir, Sigurður Fáfnisbani og Gunnar á Hlíðarenda.

Þótt sagan sé fremur illa varðveitt leynir sér ekki að hún er listilega samin og býr sannarlega yfir lifandi og eftirminnilegum mannlýsingum.

NÝ BÓK

Oliver Twist eftir Charles Dickens

Oliver Twist, or The Parish Boy's Progress, er önnur skáldsaga Dickens og kom fyrst út á prenti á árunum 1837-1839. Hér segir frá munaðarlausa drengnum Oliver Twist sem strýkur til London og kemst þar í kynni við hóp ungra vasaþjófa og leiðtoga þeirra, glæpamanninn Fagin. Í skáldsögunni kemur fram gagnrýni á ýmis samfélagsleg málefni á samtíma höfundar, svo sem barnaþrælkun og aðbúnað munaðarlausra barna í London um miðja 19. öld.

NÝ BÓK

Gullfararnir eftir Gabriel Ferry

Gullfararnir er ævintýrasaga eftir Gabriel Ferry, en franski rithöfundurinn Eugène Louis Gabriel Ferry de Bellemare og sonur hans skrifuðu báðir undir því höfundarnafni. Sagan gerist snemma á nítjándu öld og heitir á frummálinu Les Aventuriers du Val d'Or.

Sagan hefst á Spáni, þar sem ungabarn finnst hjá myrtri móður sinni, og færist svo til villta vestursins í Ameríku, þar sem hvítir menn og indíánar eigast við í blóðugum bardögum, og fégjarnir ævintýramenn leita gulls í miðri eyðimörkinni.

NÝ BÓK

The Paradise Mystery eftir J. S. Fletcher

The Paradise Mystery er spennandi sakamálasaga eftir enska rithöfundinn og blaðamanninn J. S. Fletcher.

Sögusviðið er enskur bær þar sem leyndarmál og gróusögur leynast undir kyrrlátu yfirborðinu. Mark Ransford er læknir þar í bæ og jafnframt forráðamaður Mary og Dick Bewery, en fortíð þeirra systkina er sveipuð dulúð. Dag einn hrapar maður nokkur til dauða úr dómkirkju bæjarins, stuttu eftir að hafa spurt eftir lækninum. Aðstoðarlæknirinn Pemberton Bryce - sem einnig er þrautseigur vonbiðill Mary í óþökk hennar og af þeim sökum nýlega orðinn atvinnulaus - er sannfærður um að Ransford sé viðriðinn dauða þessa ókunna manns og ákveður að rannsaka málið.

NÝ BÓK

Í samlögum: Ljóðmæli eftir Ólínu og Herdísi Andrésdætur

Tvíburasysturnar Ólína og Herdís fæddust í Flatey á Breiðafirði árið 1858. Fjögurra ára gamlar voru þær skildar að og sendar í fóstur hvor á sitt heimilið. Eftir það lágu leiðir þeirra lítt saman fyrr en þær voru komnar á efri ár en þá bjuggu þær báðar í Reykjavík og hittust nær daglega og gátu þá deilt hinu sameiginlega hugðarefni sínu, skáldskapnum. Að því kom að þær gáfu saman út bókina Ljóðmæli árið 1924.

Ljóð þeirra systra voru ort inn í samtímann í hefðbundnu formi en bera þó sterkan persónulegan svip þeirra sjálfra, þeirra þankagangs og lífsskoðana auk þess sem þau varpa ljósi á viðhorf og aðstöðu kvenna á þessum árum. Þá orti Ólína margar skemmtilegar þulur sem gott væri að lesa fyrir börn í dag.

Í þessari bók er að finna ljóð sem þær sömdu saman systurnar, en áður hafa birst hér á Lestu.is bækur með ljóðum hvorrar um sig.

NÝ BÓK

Kim eftir Rudyard Kipling

Kim er skáldsaga eftir breska Nóbelsverðlaunahöfundinn Rudyard Kipling. Sagan kom fyrst út á bók árið 1901. Hún er af mörgum talin á meðal bestu skáldverka enskra bókmennta.

Rudyard Kipling var stórvirkur rithöfundur og skrifaði bæði sögur fyrir fullorðna og börn auk þess sem hann var mikilsvirt ljóðskáld. Kipling sem fæddist á Indlandi var fyrsti Bretinn til að hljóta Nóbelsverðlaunin í bókmenntum og var það árið 1907. Í dag er hann einkum kunnur fyrir barnabækur sínar, The Jungle Book (1894) og Just So Stories (1902).

NÝ BÓK

Droplaugarsona saga

Droplaugarsona saga er talin vera með eldri Íslendingasögum, hugsanlega frá því fyrir eða um miðja 13. öld. Sögusviðið er Austurland, einkum svæðið beggja vegna Lagarfljóts. Eins og titill sögunnar bendir til segir þar frá bræðrunum Helga og Grími, sonum Droplaugar á Arneiðarstöðum í Fljótsdal. Helgi fór fyrir þeim bræðrum og var hann kappsfullur í meira lagi. Hann átti í langvinnum deilum við Helga Ásbjarnarson í Mjóanesi og síðar á Eiðum, friðsaman höfðingja. Þær deilur enduðu með falli Helga Droplaugarsonar. Það kom í hlut Gríms að hefna bróður síns. Lýsingarnar á þessum atvikum, þ.e. falli Helga Droplaugarsonar og síðar nafna hans Ásbjarnarsonar, eru með eftirminnilegri frásögnum í fornritum okkar. Í sögunni kynnumst við fleiri litríkum persónum, til dæmis nokkrum kvenskörungum sem hafa mikil áhrif á framvindu sögunnar. Nægir þar að nefna auk Droplaugar þær Gró á Eyvindará og Álfgerði lækni í Ekkjufelli. Þórdís todda, kona Helga Ábjarnarsonar, kemur einnig við sögu en hún gegnir stærra hlutverki í öðrum sögum af Austurlandi, t.d. í Gunnars þætti Þiðrandabana.

NÝ BÓK

Flappers and Philosophers
eftir F. Scott Fitzgerald

Flappers and Philosophers eftir F. Scott Fitzgerald var fyrsta smásagnasafn höfundar og kom út árið 1920. Það inniheldur átta sögur: "The Offshore Pirate", "The Ice Palace", "Head and Shoulders", "The Cut-Glass Bowl", "Bernice Bobs Her Hair", "Benediction", "Dalyrimple Goes Wrong" og "The Four Fists".

Francis Scott Key Fitzgerald var og er enn einn athyglisverðasti rithöfundur sem Bandaríkin hafa alið af sér. Eftir hann liggja 5 langar skáldsögur, 3 stuttar skáldsögur og fjöldinn allur af smásögum. Kunnasta verk hans er eflaust skáldsagan The Great Gatsby sem kom út árið 1925.

NÝ BÓK

Bláskógar I eftir Jón Magnússon

Jón Magnússon (1896-1944) fæddist í Fossakoti í Borgarfirði. Tvítugur fluttist hann til Reykjavíkur, lærði beykisiðn og stundaði hana þangað til hann eignaðist húsgagnaverslun sem hann rak þar til skömmu fyrir dauða sinn. Þó Jón hyrfi úr sveitinni til borgarinnar eins og svo margir um hans daga var hugur hans bundinn við dreifbýlið; því helgaði hann kvæði sín. Hann virti fastheldni þeirra sem heima sátu og héldu í gamla lifnaðarhætti en óttaðist það los sem vaxandi þéttbýlismyndun hafði í för með sér. Í skáldskapnum hélt hann sér við eldri bragarhætti í samræmi við þjóðleg viðhorf sín. Orðfæri hans er víða kjarnmikið og skýrt, náttúrulýsingar ágætar. Þegar Jóni tekst best til nær hann að tengja við hið fagra og góða í hverjum manni.

Jón Magnússon valdi fyrstu bók sinni heitið Bláskógar (1925). Er nafngiftin auðskilin þegar haft er í huga að hann ólst að nokkru leyti upp í Þingvallasveit — Bláskógavegur heitir einmitt leiðin milli Borgarfjarðar og Þingvalla. Allt ljóðasafn hans var svo gefið út í fjórum bókum árið 1945.

NÝ BÓK

The Adventures of Tom Sawyer eftir Mark Twain

The Adventures of Tom Sawyer er skáldsaga eftir bandaríska rithöfundinn og húmoristann Mark Twain, eða Samuel Langhorne Clemens eins og hann hét réttu nafni. Sagan kom fyrst út árið 1876 og segir frá ungum dreng sem elst upp á bökkum Mississippi-fljótsins.

 

 

NÝ BÓK

Háttprúða stúlkan eftir Louisa May Alcott

Skáldsagan Háttprúða stúlkan eftir Louisu May Alcott heitir á frummálinu An Old-Fashioned Girl. Hún birtist fyrst á prenti sem framhaldssaga í tímaritinu Merry's Museum Magazine árið 1869 og samanstóð þá af sex köflum, en Alcott bætti síðar við fleiri köflum.

Söguhetjan, sveitastúlkan Polly Milton, kemur til borgarinnar að heimsækja vinkonu sína, Fanny Shaw, og fjölskyldu hennar. Polly finnst hún ekki alveg tilheyra í þessum heimi ríka og fína fólksins í borginni, en góðvild hennar og háttprýði á þó eftir að hafa jákvæð áhrif á Shaw-fjölskylduna, eins og kemur í ljós.

Louisa May Alcott var bandarískur rithöfundur og skáld. Þekktust er hún fyrir skáldsöguna Little Women (1871).

NÝ BÓK

Persuasion eftir Jane Austen

Sagan Persuasion var síðasta fullkláraða skáldsaga Jane Austen og kom fyrst út árið 1817, hálfu ári eftir lát höfundar.

Þegar söguhetjan, Anne Elliot, var nítján ára tók hún bónorði hins unga sjóliðsforingja Frederick Wentworth. Fjölskyldu hennar þótti vonbiðillinn hins vegar vera fyrir neðan hennar virðingu og taldi Anne á að slíta sambandinu. Rúmum átta árum síðar hittast þau svo aftur, bæði ógift. Anne sér mjög eftir því að hafa farið að ráðum fjölskyldu sinnar, en Frederick, sem nú hefur náð miklum frama innan sjóhersins, hefur ekki fyrirgefið henni höfnunina. Svo kemur í ljós hvort ástin fái annað tækifæri.

NÝ BÓK

Ljóðmæli eftir Ólínu Andrésdóttur

Ljóðmæli Ólínu Andrésdóttur hafa að okkur vitandi ekki komið út áður í sérstakri bók. Ljóð hennar birtust fyrst í bók ásamt með ljóðum systur hennar Herdísar árið 1924.

Ólína fæddist í Flatey á Breiðafirði árið 1858. Hún átti tvíburasysturina Herdísi en þær systur voru skildar að þegar þær voru fjögurra ára gamlar, sendar í fóstur hvor á sitt heimilið. Eftir það lágu leiðir þeirra lítt saman fyrr en þær voru komnar á efri ár en þá bjuggu þær báðar í Reykjavík og hittust nær daglega og gátu þá deilt hinu sameiginlega hugðarefni sínu, skáldskapnum. Að því kom að þær gáfu saman út bókina Ljóðmæli árið 1924.

Ljóð Ólínu og þeirra systra voru ort inn í samtímann í hefðbundnu formi en bera þó sterkan persónulegan svip þeirra sjálfra, þeirra þankagangs og lífsskoðana auk þess sem þau varpa ljósi á viðhorf og aðstöðu kvenna á þessum árum. Þá orti Ólína margar skemmtilegar þulur sem gott væri að lesa fyrir börn í dag.

NÝ BÓK

Alice's Adventures in Wonderland eftir Lewis Carroll

Alice's Adventures in Wonderland (eða Lísa í Undralandi á íslensku) er skáldsaga eftir breska rithöfundinn og heimspekinginn Lewis Carroll. Sagan kom fyrst út árið 1865.

Bókin er sú fyrsta í bókaröð sem segir frá uppátækjum ungrar stúlku að nafni Alice, sem hefur ögn frjórra ímyndunarafl en flestir, og ferðum hennar í ímyndunarheim þar sem ýmsar furðuverur búa. Sagan er uppfull af þrautum, rökvillum, mótsögnum og öðrum heimspekilegum vangaveltum höfundarins.

Sagt er að sagan um Alice hafi verið sögð í fyrsta skipti um borð í árabát, en þar kepptist Carroll við að halda litlum frænkum sínum uppteknum með því að spinna söguna. Þegar sagan var svo skrifuð tók hún á sig nýjar víddir.

NÝ BÓK

Ljóðmæli eftir Herdísi Andrésdóttur

Ljóðmæli Herdísar Andrésdóttur hafa að okkur vitandi ekki komið út áður í sérstakri bók. Ljóð hennar birtust fyrst í bók ásamt með ljóðum systur hennar Ólínu árið 1924.

Herdís fæddist í Flatey á Breiðafirði árið 1858. Hún átti tvíburasysturina Ólínu en þær systur voru skildar að þegar þær voru fjögurra ára gamlar, sendar í fóstur hvor á sitt heimilið. Eftir það lágu leiðir þeirra lítt saman fyrr en þær voru komnar á efri ár en þá bjuggu þær báðar í Reykjavík og hittust nær daglega og gátu þá deilt hinu sameiginlega hugðarefni sínu, skáldskapnum. Að því kom að þær gáfu saman út bókina Ljóðmæli árið 1924.

Ljóð Herdísar og þeirra systra voru ort inn í samtímann í hefðbundnu formi en bera þó sterkan persónulegan svip þeirra sjálfra, þeirra þankagangs og lífsskoðana auk þess sem þau varpa ljósi á viðhorf og aðstöðu kvenna á þessum árum.

NÝ BÓK

Bleak House eftir Charles Dickens

Í dag sækjum við í smiðju Charles Dickens, eins fremsta rithöfundar sem heimurinn hefur átt. Skáldsagan Bleak House er af mörgum talin með bestu verkum hans. Hún kom fyrst út á árunum 1852-1853. Í sögunni birtist fjöldi litríkra persóna eins og Dickens einum er lagið. Hér segir frá Esther Summerson, laundóttur frú Dedlock, sem alin er upp hjá strangri frænku sinni. Eftir að frænkan deyr er Esther komið í umsjá hins þunglynda en vinalega herra Jarndyce sem býr í Bleak House.

 

NÝ BÓK

Ferðasögur Jóns Trausta

Guðmundur Magnússon (Jón Trausti) elskaði Ísland meira en flest annað. Hafði hann mikið yndi af því að ferðast um landið, hvort heldur á hestbaki eða fótgangandi, og gerði það hvenær sem færi gafst. Á ferðum sínum skráði hann allt hjá sér og teiknaði myndir af því sem fyrir augu bar og honum þótti áhugavert. Birti hann þessar ferðasögur í blöðum og tímaritum, en þær voru svo teknar saman og gefnar út á bók árið 1930, skömmu eftir dauða hans. Er mikill fengur að þessum ferðapistlum. Hér ferðast höfundur um staði eins og Snæfellsnes, Reykjanesskagann, Kaldadal, Akrafjall og Eiríksjökul, svo eitthvað sé nefnt.

NÝ BÓK

Far from the Madding Crowd eftir Thomas Hardy

Skáldsagan Far from the Madding Crowd eftir enska rithöfundinn og skáldið Thomas Hardy (1840-1928) er ein af þekktustu og bestu ástarsögum heimsbókmenntanna. Hún var fjórða skáldsaga höfundar og sú fyrsta eftir hann til að njóta mikillar velgengni. Sagan hefur margoft verið kvikmynduð og sett á svið.

Hér segir frá ungri konu að nafni Bathsheba Everdene og hinum þremur ólíku vonbiðlum hennar, bóndanum Gabriel Oak, óðalseigandanum William Boldwood og hermanninum Frank Troy.