Benedikt
Sveinbjarnarson
Gröndal

Þrátt fyrir að nafn Benedikts Gröndal sé ekki sveipað sama ljóma og samtíðarmanna hans, þeirra Matthíasar Jochumssonar og Steingríms Thorsteinssonar, var Benedikt á sínum tíma ámóta virtur og vinsæll sem skáld og þeir. Einhverra hluta vegna hefur tíminn ekki verið honum jafn hliðhollur og bæði nafn hans og verk hulin einhverju mistri fortíðar og ekki gefinn mikill gaumur.  Er það miður, því mörg ritverka hans eru stórmerk og með því besta á sínu sviði sem skrifað hefur verið á íslensku.  Nægir þar að nefna sjálfsævisögu hans Dægradvöl, sem er hrein og tær snilld á köflum, svo og söguna Heljarslóðarorrustu, sem á sér varla hliðstæðu í íslenskri bókmenntasögu.  

Benedikt fæddist á hinu kunna menningarsetri Bessastöðum á Álftanesi.  Foreldrar hans voru Sveinbjörn Egilsson, rektor Lærða skólans og kona hans Helga Gröndal.  Héldu þau mikið menningarheimili, fyrst á Bessastöðum og síðan á Eyvindarstöðum á Álftanesi.  Voru bæði Helga og Sveinbjörn mjög listhneigð og þó að Sveinbjörn sé kunnari vegna þýðinga sinna og annarra starfa, virðist Helga hafa átt mikinn þátt í öllu hans starfi.  Hefur verið haft eftir heimilismanni á Eyvindarstöðum að Sveinbjörn hafi lesið allt sem hann skrifaði fyrir konu sína á kvöldin og borið það undir hennar dóm.  Benedikt hefur ekki farið varhluta af þessari menningu og þrátt fyrir að hann segði það síðar að hann hefði aldrei tengst foreldrum sínum sterkum böndum hefur þessi áhugi þeirra á listum og menningu smitast í hann.

Benedikt hóf nám við Bessastaðaskóla er hann hafði aldur til og stóð sig með ágætum.  Að því loknu hélt hann utan til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði nám í náttúrufræði og bókmenntum.  Ekki festi hann þó hugann við háskólanámið í Kaupmannahöfn, þó svo að hann hafi viðað að sér alls kyns fróðleik og þekkingu sem átti eftir að koma sér vel síðar.  Í Kaupmannahöfn fór hann að yrkja af meiri ástríðu en hann hafði áður gert og las ákaft verk fremstu skáldjöfra Evrópu. 

Eftir fjögurra ára dvöl í Kaupmannahöfn sneri Benedikt aftur heim til Íslands árið 1850, próflaus og eignalaus.  Hafði hann þar að litlu að hverfa, enda erfitt um vik að fá vinnu fyrir próflausan mann.  Fékkst hann einkum við lausamennsku, svo sem þingskriftir.  Sveinbjörn faðir hans lést tveimur árum síðar og móðir hans þremur árum eftir það.  Dvaldi Benedikt í Reykjavík um sjö ára skeið, frá 1850-1857, en á þessum árum skrifaði hann nokkuð, m.a. ljóðabálkinn Örvar-Oddsdrápu, sem jafnframt var fyrsta bókin sem kom út eftir hann (1851).  Árið eftir gaf hann út bókina Sögur úr þúsund og einni nótt.  Þá gaf hann út tvö lítil ljóðasöfn auk þess sem hann tók við að snúa Ódysseifskviðu og Ilionskviðu í ljóð.  Hélt hann þar áfram þar sem faðir hans hafði skilið við.

Eftir sjö ár í Reykjavík þar sem Benedikt virtist kominn í öngstræti ákváðu nokkrir velunnarar að styðja hann til Kaupmannahafnarfarar í von um að hann lyki þar einhverju prófi.  Hverjar svo sem fyrirætlanir Benedikts hafa verið runnu öll námsáform í sandinn fyrsta kastið eftir komuna til Hafnar.  Var hann hálf umkomulaus þennan vetur í Kaupmannahöfn, en úr rættist er hann fyrir tilstilli frænda síns kynntist vorið 1858 rússneskum manni af aðalsættum sem kallaður var Djúnki af Íslendingum.  Sá var erindreki kaþólsku kirkjunnar og hafði það verk með höndum að efla kaþólska trú á Norðurlöndum.  Benedikt gekk í hans þjónustu og hélt svo til náms í kaþólskum fræðum í klaustur í Þýskalandi.  Eftir dvöl þar hélt Benedikt til Belgíu þar sem hann dvaldi um hríð við kaþólskan háskóla. 

Virðist hann hafa haft töluverðan tíma aflögu þar, því þar mun hann hafa byrjað að skrifa Heljarslóðarorrustu, auk þess sem hann orti töluvert af ljóðum.  Leið honum vel þennan tíma er hann var undir handarjaðri kaþólsku kirkjunnar. 

Hann sneri svo aftur til Hafnar 1859 og var allur annar bragur á honum en þegar hann hélt þaðan árinu fyrr.  Fljótlega eftir komuna til Hafnar fékk hann vinnu hjá Norræna fornfræðafélaginu sem þá var stjórnað af Carl Christian Rafn.  Rafn þessi hvatti hann til að ljúka meistaraprófi í norrænu sem hann og gerði 1864.  Á þessum Kaupmannahafnarárum fékkst Benedikt töluvert við skáldskap og gaf t.a.m. út kvæðasafnið Svava ásamt Gísla Brynjúlfssyni og Steingrími Thorsteinssyni árið 1860, Heljarslóðarorrustu árið 1861, Gandreiðina 1866, kvæðasafnið Ragnarökkur 1868 og fleira. 

Haustið 1864 andaðist Rafn og Benedikt missti starf sitt við Fornfræðafélagið og var þá erfiðara fyrir hann verða sér úti um tekjur.  Hann lifði þá á lausamennsku og útvegaði Jón Sigurðsson honum stundum verkefni.

Það er svo árið 1867 að Benedikt kynnist tilvonandi konu sinni Ingigerði Zoega.  Var hún um 20 árum yngri en hann.  Í fyrstu var reynt að stía þeim í sundur því mörgum þótti aldursmunurinn allt of mikill.  En þau voru ástfangin og létu mótbárur annarra ekkert á sig frá.  Útlitið fyrir þau var þó allt annað en bjart, því bæði voru fátæk og höfðu engin efni til að stofna til hjúskapar. 

En árið 1870 hóf Benedikt útgáfu á tímariti sem hann kallaði Gefn og hlaut til þess styrk frá stjórninni.  Þá hlaut hann einnig styrk til að safna heimildum um þjóðmenningarsögu Norðurlanda.  Þar með var síðasta hindrunin úr vegi fyrir ráðahagnum og þau gengu í hjónaband 1871. 

Blaðinu Gefn hélt Benedikt úti fram til ársins 1874.  Var það um margt merkilegt rit og Benedikt skrifaði þar um allt sem hugur hans stóð til, hvort heldur var skáldskapur, fræðigreinar eða stjórnmál.  Árið 1873 fæddist svo fyrsta barna þeirra hjóna, Magdalena Þuríður. 

Svo er það að kennaraembætti losnar við lærða skólann í Reykjavík og Benedikt fær stöðuna.  Fluttu þau við svo búið heim til Íslands.  Var Benedikt þá 48 ára gamall.  Skömmu síðar eignast þau aðra dóttur sem hlaut nafnið Helga. 

Í fyrstu lagði Benedikt sig fram við kennsluna og var almennt vel þokkaður af nemendum.  Samdi hann sjálfur hluta af námsefninu sem hann kenndi, þar sem honum þótti skorta á að námsefnið sem þá var notað væri nógu gott. 

Árið 1876 urðu þau hjónin fyrir því áfalli að Magdalena, elsta dóttir þeirra lést og einnig misstu þau aðra dóttur nokkurra mánaða gamla sem fæddist árið 1879.  Tveimur árum síðar lést svo kona Benedikts einungis 36 ára að aldri. 

Þetta var of mikið áfall til að Benedikt gæti staðið undir því og hann lagðist í alvarlegt þunglyndi, gerðist óreglusamur og hætti að sinna kennslustörfunum sem skyldi.  Var honum á endanum vikið úr starfi árið 1883.  Á næstu árum vann hann við ýmislegt til að hafa í sig og á, en stundaði enga fasta vinnu. 

Benedikt hafði alla tíð haft mikinn áhuga á náttúrufræði og hafði meðan hann kenndi við lærða skólann safnað alls kyns dýrum sem hann svo teiknaði og litaði, en hann þótti mjög drátthagur.  Hélt hann þessu áfram þrátt fyrir að hann væri hættur að kenna. 

Árið 1889 var svo Hið íslenska náttúrufræðifélag stofnað í því skyni m.a. að koma upp náttúrugripasafni og lá beinast við að ráða hann sem forstöðumann sem var og gert.  Hélt hann þeim starfa fram til ársins 1901, er hann hætti fyrir aldurs sakir. 

Fékk hann styrk frá Alþingi hin síðari ár til að vinna að dýramyndum og teikningum og dugði það honum til lífsviðurværis.  Allt undir það síðasta hélt Benedikt áfram að skrifa bæði sögur, ljóð og greinar.  Seint á níunda áratug aldarinnar skrifaði hann kjarnmiklar greinar þar sem hann mótmælti vesturferðum Íslendinga og lenti í miklum ritdeilum út af því.  Þá gaf hann út Þórðar sögu Geirmundssonar árið 1892 og árið 1900 kom út eftir hann ljóðabók sem hafði að geyma flest ljóða hans fram að þeim tíma.  Þegar hann var áttræður kom svo út lítið ljóðakver sem hét Dagrún.  

Á þessum árum var hann einnig að skrifa sjálfsævisögu sína Dægradvöl, sem margir telja hans meistarastykki. Hún kom ekki út fyrr en 16 árum eftir lát hans, en hann lést 2. ágúst 1907. 

Segja má að Benedikt hafi verið nokkuð fjölþreifinn í skrifum sínum og kannski það hafi orðið til þess að það besta af verkum hans hafi ekki skilað sér áfram sem skyldi.  Benedikt var vel lesinn og sótti stílbrigði, orðaforða og efnistök gjarnan til fortíðarinnar og gæti það átt þátt í því hve eftirlifandi kynslóðir hafa sinnt honum lítið.  Sögur eins og Heljarslóðarorrusta eiga sér nánast enga hliðstæðu í íslenskri bókmenntasögu og þó hún sé skrifuð í anda riddarasagna er persónan Benedikt Gröndal mjög fyrirferðamikil í sögunni.  Þá má líka halda því fram að verk hann séu skrifuð mjög sterkt inn í samtíma höfundarins og erfiðara sé að heimfæra þau upp á aðra tíma.  Það er helst að sjálfsævisaga Benedikts, Dægradvöl, hafi verið lesin og skal engan undra, því enn þann dag í dag stendur hún með því besta sem skrifað hefur verið á því sviði. 

Stundum er það svo að höfundar falla í gleymsku um tíma en rísa svo sterkar upp aftur þegar umhverfið býður upp á það.  Kannski það verði raunin með Benedikt Gröndal, en nú virðist sem menn séu aftur að gefa sumum verka hans meiri gaum og er ekki seinna vænna.