Jules Verne

MyndEinn þekktasti rithöfundur Frakka og reyndar alls heimsins um miðja 19. öld var Jules Verne, en ásamt með enska höfundinum H. G. Wells var hann upphafsmaður vísindaskáldsögunnar, eins og við þekkjum hana í dag.  Þó svo að sögur Verne´s séu nú einkum lesnar af börnum og unglingum voru þær upphaflega skrifaðar fyrir mun stærri lesendahóp, og náðu jafnt til allra aldurshópa.  Var Verne mjög uppfinningasamur í ritum sínum og gerði sér far um að endurspegla allt það nýjasta í tækni og vísindum sinnar samtíðar, þannig að fólki fannst það fræðast jafn mikið við lesturinn eins og það skemmti sér yfir ævintýralegri atburðarás.  Í sögum sínum kom Verne víða við og í sögunni A Journey to the Center of the Earth, ferðuðust lesendur m.a. með honum til Íslands.  Þekktasta saga Jules Verne er samt án efa Umhverfis jörðina á áttatíu dögum (1873). 

Jules Verne fæddist í hafnarborginni Nantes í Frakklandi 8. febrúar árið 1828.  Var faðir hans  stöndugur lögfræðingur þar og ólst Jules við ágæt efni.  Lá beint við að Jules myndi feta í fótspor föður síns og því var hann, er hann hafði aldur til, sendur til Parísar að nema lögfræði. 

En í París kynntist hann nýjum heimi ef svo má að orði komast.  Þar komst hann í kynni við menn eins og Victor Hugo (Vesalingarnir)  og Alexandre Dumas (Skytturnar þrjár) og kynntist verkum þeirra sem nutu mikilla vinsælda.  Fljótlega náði skrifbakterían tökum á honum sjálfum og hann byrjaði að skrifa leikrit í anda áðurnefndra höfunda  samhliða laganáminu og tókst honum að fá einþáttung, Brotnu stráin, færðan á leiksvið árið 1850 þegar hann var 22 ára.  Þrátt fyrir að skrifa skáldverk jöfnum höndum alltaf þegar hann hafði tóm til, sló hann ekki slöku við námið og útskrifaðist sem lögfræðingur.

Árið 1854 sneri Charles Baudelaire verkum bandaríska höfundarins Edgar Allan Poe´s yfir á frönsku.   Verne féll strax kylliflatur fyrir þessum bandaríska kollega sínum og skrifaði í kjölfarið fyrstu vísindaskáldsögu sína „Ferð í loftbelg“ (1851).  Seinna átti Verne svo eftir að skrifa sitt eigið framhald á sögu Poe´s „Sagan af George Pym“. 

En þrátt fyrir mikinn áhuga var ekki auðhlaupið að draga fram lífið á skriftum og því varð Verne að leita annarra leiða til að hafa ofan í sig og á.  Gerðist hann verðbréfamiðlari og starfaði við það allt fram til ársins 1863, þegar sagan „Fimm vikur í loftbelg“ náði hylli almennings og jók honum vinsældir svo að hann gat farið að lifa af því að skrifa. 

Þessi nýfengna hylli var fyrst og fremst einum manni að þakka, Pierre Jules Hetzel.  Verne hafði kynnst honum árið áður og eftir að Hetzel hafði lesið verk hans af athygli kom hann með ýmsar breytingatillögur sem Verna ákvað að fylgja..  Stóð samvinna þeirra óslitið fram að því að Verne dó.

Það leið ekki á löngu uns bækur Verne´s náðu vinsældum út um allan heim.  Verne tók hlutverk sitt alvarlega og lagði sig í líma við að kynna sér nýjustu tækni og vísindi til að bækur hans yrðu sannferðugar.  Voru flestar þær hugmyndir sem hann setti fram í bókum sínum byggðar á raunverulegri tækni, en þó bregður stundum fyrir spámannslegum fyrirbærum. 

Þó svo að Verne hafi skrifað hin ótrúlegustu ævintýri lifði hann ósköp hversdagslegu lífi að öllu jöfnu og ferðaðist tiltölulega lítið.  Hann giftist ekkjunni  Honorine de Viane þegar hann var 28 ára gamall og tók að sér tvö börn hennar.  Frá 1971 bjó hann í Amiens.  Hlaut hann margar vegtyllur um ævina og blessaði m.a. Leó páfi XIII. bækur hans.  Allt í allt skrifaði Verne 65 skáldsögur, um tuttugu smásögur og fjölda ritgerða um hin ýmsu mál.  Þá skrifaði hann þrjátíu leikrit, rit um landafræði og einnig texta við óperettur. 

Jules Verne lést í Amiens 24. mars árið 1905.