Samuel Smiles

Samuel Smiles höfundur bókarinnar Hjálpaðu þér sjálfur (Self-help) var skoskur rithöfundur og umbótasinni. Hann fæddist í Haddington, East-Lothian í Skotlandi 23. desember 1812 þar sem hann   ólst upp í hópi 10 systkina.  Ráku foreldrar hans verslun sem seldi bækur og aðrar tengdar vörur. Samuel gekk í almennan skóla þar til hann var 14 ára er hann gerðist lærlingur hjá lækni einum, en það varð til þess að hann á endanum gat hafið nám í læknisfræði við Edinborgarháskóla.  Faðir Samuels lést í kólerufaraldri árið 1832 og við það versnaði hagur fjölskyldunnar töluvert, en móðir hans sem var mjög trúuð lagði þá bara enn harðar að sér til að koma börnum sínum til manns og styðja við þau.  Gat Samuel því haldið áfram að læra til læknis.  Hafði þessi afstaða og dugnaður móður hans alla tíð mikil áhrif á Samuel og minntist hann oft fórnfýsi móður sinnar. 

Description: http://img3.ranker.com/list_img/1/183383/full/samuel-smiles-books-and-stories-and-written-works.jpg?version=1291998245000Samuel fékk snemma áhuga á stjórnmálum og var mjög umhugað um almennar samfélagslegar umbætur. Skrifaði hann fjölda greina í blöð og tímarit samhliða náminu þar sem hann viðraði skoðanir sínar. Það leiddi til þess að árið 1938 var honum boðið að gerast ritstjóri blaðsins Leeds Times sem hann samþykkti.  Var hann ritstjóri þess í fjögur ár eða fram til 1842.  Þar gafst honum enn meiri tími til að viðra skoðanir sínar í stjórnmálum og gerði hann það óspart og fór auk þess að láta til sín taka í flokksbundnu stjórnmálastarfi.  Meðal mála sem hann barðist fyrir var almennur kosningarréttur allra einstaklinga yfir 21 árs óháð stöðu, almenn réttindi kvenna, leynilegar kosningar,  frjáls verslun og síðast en ekki síst bætt almenn menntun. 
Árið 1842 sagði hann lausu starfi sínu sem ritstjóri og gerðist stjórnarmaður hjá járnbrautarfélaginu Leeds Railway og síðar South Eastern Railway. 

Description: Episode image for The Grandfather of Self HelpHann kvæntist Söruh Ann Holmes Dixon 1843 og eignuðust þau þrjár dættur og tvo syni.  Smiles var alla tíð mjög umhugað um að auka þekkingu almennings og gera öllum kleift að mennta sig, ekki síst verkafólki sem hafði lítil sem engin tök á að kosta framhaldsnám.  Flutti hann erindi um það víða, en þau erindi urðu síðar grunnurinn að bókinni Hjálpaðu þér sjálfur (Self-help), verkinu sem hann er hvað kunnastur fyrir.  Það var hans einlæga trú að allir einstaklingar hefðu mikilvægu hlutverki að gegna í lífinu og ættu að hafa möguleika á að láta drauma sína og langanir verða að veruleika óháð fjárhag.
Árið 1855 hafði Smiles lokið við að skrifa bókina Hjálpaðu þér sjálfur og hóf að leita að útgefanda, en þar rakst hann á veggi og ekki varð af útgáfunni fyrr en fjórum árum seinna eða 1859 er hann ákvað að gefa hana út sjálfur.  Hafa einhverjir útgefendur eflaust nagað sig í handabökin yfir því, þar sem bókin seldist strax mjög vel og nam salan um 20 þúsund eintökum á fyrsta ári.  Seldist hún jafnt og þétt á næstu árum og áratugum og þegar Smiles lést árið 1904 hafði hún selst í yfir 250 þúsund eintökum en það þótti gríðarleg sala á þeim tíma. 

Með útkomu bókarinnar óx vegur Smiles til muna og skoðanir hans hlutu betri hljómgrunn.  Smiles hélt enda áfram umbótastarfi sínu og barðist alla tíð fyrir bættum kjörum þeirra sem minna máttu sín. Hann skrifaði fleiri bækur sem nutu töluverðra vinsælda þó honum tækist ekki að fylgja velgengni bókarinnar Hjálpaðu þér sjálfur eftir.