Arthur Conan Doyle

Arthur Conan Doyle var breskur rithöfundur og læknir sem helst er kunnur fyrir sögur sínar af einkaspæjaranum Sherlock Holmes og aðstoðarmanni hans Watson lækni. Brutu þær sögur blað í ritun sakamálasagna og nutu mjög mikilla vinsælda strax þegar þær komu út og hafa gert alla tíð síðan. En Conan Doyle skrifaði ekki bara þær sögur heldur mun fleiri sem margar urðu afar vinsælar á sínum tíma þó líftími þeirra hafi ekki orðið jafn langur.

Doyle fæddist 22. maí árið 1859 í Edinborg í Skotlandi. Var hann skírður Arthur Ignatius Conan Doyle. Faðir hans, Charles Altamont Doyle, var enskur en móðir hans írsk. Höfðu þau gifst fjórum árum fyrr, 1855. Árið 1864 þegar Arthur var fimm ára leystist fjölskyldan upp og honum og systkinum hans var komið í fóstur víðsvegar um borgina. Ástæðan fyrir þessu mun hafa verið drykkja og alkohólismi föður hans. Þremur árum síðar var fjölskyldan sameinuð á ný, en bjó alla tíð við erfið kjör. Það varð Arthur til happs að hann átti efnuð ættmenni sem gerðu sér far um að styrkja börnin og sáu til þess að þau fengu ágæta menntun.

Á árunum 1876-1881 nam Arthur læknisfræði við Háskólann í Edinborg. Það var þá sem hann hóf að skrifa smásögur. Sendi hann þessar sögur í blöð og tímarit, en það var ekki fyrr en árið 1879 að hann fékk söguna The Mystery of Sasassa Valley birta. Sama ár fékk hann fyrstu fræðigrein sína birta í virtu læknariti. Fjallaði sú grein um eitur og töldu margir að rannsókn Doyles á því gæti komið að góðum notum við lögreglurannsóknir í framtíðinni.

Árið 1880 réð Doyle sig sem læknir um borð í hvalskip sem stundaði veiðar við Grænland og árið 1881 eftir að hann útskrifaðist gerðist hann læknir um borð í skipi sem sigldi til Afríku. Hann virðist hafa verið óhræddur við að prófa nýja hluti og ævintýraþráin verið skammt undan.

Eftir að hann kom heim jók hann við nám sitt í læknisfræðinni og setti upp læknastofu ásamt með öðrum manni. Sú samvinna gekk ekki upp og Doyle kom á fót sjálfstæðri læknastofu. Gekk honum í fyrstu illa að fá kúnna og til að stytta sér stundir meðan hann beið eftir viðskiptavinum fór hann að skrifa skáldsögur.

Árið 1890 hélt Doyle til Vínar að læra augnlækningar. Í kjölfarið setti hann upp læknastofu í London og auglýsti augnlækningar sem sérsvið.

Doyle reyndi að fá einhvern til að gefa út sögur sínar, en það ætlaði ekki að ganga þrautalaust. Það var fyrst árið 1886 að útgáfufyrirtækið Ward Lock & Co keypti af honum söguna A Study in Scarlet með öllum réttindum fyrir 25 pund. Birtist hún í jólatímariti á þeirra vegum það sama ár og hlaut prýðilega dóma. Þótti aðalpersónan Sherlock Holmes sem Doyle byggði á fyrrum kennara sínum, Joseph Bell, afar áhugaverður og nýstárleg nálgun hans við að leysa sakamál stórskemmtileg og frumleg. Svo mjög virðist Doyle hafa byggt persónu Holmes á Bell að margir lesendur sem þekktu til Bell áttuðu sig strax á því, eins og hinn kunni rithöfundur Robert Louis Stevenson sem las söguna á heimili sínu á eynni Samoa. Í bréfi til Doyles segir hann á einum stað: "Til hamingju með hugvitssamlegu og áhugaverðu ævintýrin um Sherlock Holmes.... Getur þetta verið minn gamli vinur, Joe Bell?" Þrátt fyrir ágæta gagnrýni leið nokkur tími áður en almenningur uppgötvaði söguna.

Næsta skáldsaga um Sherlock Holmes, The Sign of the Four, kom út árið 1890 og birtist í tímaritinu Lippincott´s Monthly Magazine. Í kjölfarið skipti Doyle um útgefanda og næstu sögur um Holmes birtust í tímaritinu The Strand eins og frægt er orðið.

Þrátt fyrir gríðarlegar vinsældir sagnanna um Sherlock Holmes varð Doyle brátt leiður á þessu hugarfóstri sínu. Í bréfi til móður sinnar árið 1891 skrifar hann: "Ég er að hugsa um að láta Sherlock Holmes deyja og binda þannig enda á þennan sagnabálk. Hann á orðið hug minn allan og ég fæ ekki sinnt öðru sem skyldi." Móðir hans var þó ekki á því að hann léti verða af þessari ætlan sinni og svaraði: "Þú gerir það ekki! Þú getur ekki gert það! Þú mátt það ekki! Þar við bættist mikill þrýstingur frá útgefendum.

Í kjölfarið fór Doyle að krefjast óheyrilegra upphæða fyrir fleiri sögur um Holmes í þeirri von að því yrði hafnað, en allt kom fyrir ekki. Útgefendur voru tilbúnir að greiða hvað sem var fyrir nýjar sögur af hinum slynga og sérvitra einkaspæjara.

En árið 1893 langaði Doyle að snúa sér að sögulegum skáldsögum og ákvað að nú væri nóg komið og skrifaði söguna The Final Problem þar sem Holmes og Moriarty falla í Reichenbach fossa og láta lífið. Almenningur var alls ekki sáttur við þessi málalok og á endanum varð þrýstingurinn svo mikill að Doyle fann sig knúinn að skrifa fleiri sögur um Holmes. Sagan The Hound of the Baskervilles kom út árið 1901 og smásagan The Adventure of the Empty House kom út árið 1903 og þar kom það fram að einungis Moiarty hefði fallið í Reichenbach fossa, ekki Holmes.

Allt í allt skrifaði Doyle 56 smásögur um Sherlock Holmes og fjórar skáldsögur. Síðasta sagan birtist árið 1927.

En Doyle skrifaði margt annað en sögurnar um Holmes. Fyrsta skáldsaga Doyles sem þó var ekki gefin út fyrr en árið 1888 nefndist The Mystery of Cloomber. Á árunum frá 1888-1906 skrifaði Doyle sex sögulegar skáldsögur sem bæði hann og ýmsir gagnrýnendur telja hans bestu verk. Árið 1912 skrifaði hann svo fyrstu söguna af mörgum, The Lost World, um vísindaprófessorinn Challenger sem nutu töluverðra vinsælda. Þá skrifaði hann margar sögur sem gerðust á tímum Napóleonsstyrjaldanna þar sem aðalpersónan var franski hermaðurinn Gerard.

Doyle hafði alla tíð mikinn áhuga á íþróttum og lék um árabil sem markvörður með áhugamannaliðinu Portsmouth Association Football Club. Þá var hann mikill krikket áhugamaður og lék þar í efstu deildum. Um tíma lék hann krikket með áhugmannaliðinu Allahakbarries en í því liði léku einnig rithöfundarnir J. M. Barrie og A. A. Milne.

Árið 1885 kvæntist Doyle Mary Louise Hawkins. Hún fékk berkla og lést árið 1906. Ári síðar kvæntist hann Jean Elizabeth Leckie sem hann kynntist árið 1897 og varð strax ástfanginn af. Samband þeirra var þó einungis platónskt þar til Mary Louise lést, því hann vildi alls ekki halda framhjá henni. Jean Elizabeth lifði mann sinn. Eignaðist hann tvö börn með fyrri konu sinni og þrjú með seinni.

Doyle var alla tíða mikill Breti og trúði einlæglega á heimsvaldastefnu stjórnarinnar. Átti hann það til að skrifa harðar greinar gegn þeim sem vildu draga úr íhlutun Breta víðs vegar um heiminn. Þá var hann mikill unnandi réttlætis almennt og taldi að bæta þyrfti dómskerfið breska. Hann t. a. m. rannsakaði tvö glæpamál sjálfur sem leiddi til þess að tveir menn sem höfðu verið ákærðir voru sýknaðir.

Doyle var alla tíð mjög leitandi í trúmálum. Höfðu foreldrar hans verið kaþólikkar, en hann sjálfur hafði gengið af kaþólskri trú er hann var fullorðinn. Fékk hann mikinn áhuga á dulrænum fyrirbærum og trúði á aðra tilvist handan efnisheimsins. Hellti hann sér af miklum þunga út í rannsóknir á því eftir að sonur hans Kingsley lést úr lungnabólgu í kjölfar sára sem hann hlaut í orrustunni við Somme árið 1916. Voru þessi fræði öll mjög umdeild og varð Doyle fyrir töluverðri gagnrýni fyrir að vera að vasast í þeim. Um tíma var Doyle mikill vinur bandaríska sjónhverfingamannsins Harry Houdinis. Var það á margan hátt sérstakt einkum í ljósi þess að Houdini ólíkt Doyle hafði enga þolinmæði fyrir miðlum sem hann taldi vera loddara upp til hópa. Doyle vildi meina að þrátt fyrir gagnrýni Houdinis væri hann sjálfur með mikla andlega hæfileika. Á endanum varð skoðanaágreiningur þeirra til þess að þeir slitu vinskapnum. Var Doyle trúr sinni sannfæringu í þessum málum allt fram í andlátið þrátt fyrir að margir þeir miðlar sem hann trúði á væru opinberaðir sem svikarar.

Doyle lést af völdum hjartaáfalls 7. júlí árið árið 1930. Var hann þá 70 ára gamall. Síðustu orð hans í þessum heimi beindi hann til konu sinnar og þau voru einföld skilaboð. "Þú ert dásamleg", sagði hann. Eftir að hann var dáinn varð uppi nokkur rekistefna um hinstu hvílu hans, enda var Doyle ekki kristinn maður heldur leit á sig sem andatrúarmann. Í fyrstu var hann jarðaður í rósagarðinum í Windlesham, en seinna var gröf hans færð og sett við hlið konu hans í Minstead kirkjugarðinum í New Forest, Hampshire.