Bram Stoker

Bram Stoker var írskur rithöfundur sem í dag er helst kunnur fyrir sögu sína af vampírunni Drakúla greifa. Hann skrifaði þó mun fleiri sögur, og naut almennt nokkurra vinsælda á sínum tíma. Skrif voru þó ekki hans aðalstarf, en hann vann lengst af sem aðstoðarmaður hins kunna leikara Henry Irving og sá um rekstur Lyceum leikhúss hans.

Abraham "Bram" Stoker fæddist 8. nóvember árið 1847 í Dyflinni á Írlandi. Var hann þriðja barn foreldra sinna af sjö. Í æsku var hann heilsuveill og segir sagan að hann hafi verið nálega rúmfastur þangað til hann hóf skólagöngu 7 ára gamall. Vissu menn ekkert hvað amaði að honum. Taldi hann sjálfur að þessi tími hafi þroskað hann á annan hátt og gert hann íhugulli en ella.

Þegar hann svo hóf skólagöngu rjátluðust þessi veikindi af honum og í skóla átti hann eftir að verða afreksmaður í íþróttum. Í háskóla lagði hann svo stund á stærðfræði og útskrifaðist þaðan með fyrstu einkunn.

Á skólaárunum fékk Stoker mikinn áhuga á leikhúsi og fékk starf við að skrifa leikhúsgagnrýni við dagblaðið Dublin Evening Mail, sem var að hluta í eigu rithöfundarins Sheridan La Fenu sem skrifaði m. a. söguna Carmillu sem fjallaði um lesbíska vampíru (1871). Leikhúsgagnrýnendur voru í þá daga ekki hátt skrifaðir en Stoker vakti þó snemma athygli fyrir vel ígrundaðar skoðanir sínar á leiksýningum og leikhúsi og vönduð skrif. Í desember árið 1872 skrifaði hann einkar jákvæða krítík um leikritið Hamlet sem sýnt var í konunglega leikhúsinu með Henry Irving í aðalhlutverki. Varð það til þess að Irving bauð þessum unga gagnrýnanda í mat. Í kjölfarið tókst vinskapur með þeim sem entist alla ævi.

Á þessum tíma hóf Stoker einnig að skrifa skáldsögur. Fyrsta skáldsagan The Crystal Cup kom út árið 1872 og síðan komu fleiri sögur í kjölfarið. Þá hafði Stoker mikinn áhuga á öllu er viðkom teikningum og stofnaði Teiknifélag Dyflinnar árið 1874.

Árið 1878 giftist Stoker. Sú lukkulega hét Florence Balcombe og þótti mikið augnayndi og segir sagan að rithöfundurinn Oscar Wilde hafi rennt til hennar hýru auga um tíma. Stoker og Wilde, báðir Írar, þekktust frá námsárunum en Stoker hafði mælt með inngöngu Wildes í heimspekifélag skólans þegar hann var forseti þess félags. Héldu þeir sambandi síðan og heimsótti Stoker Wilde þegar hann dvaldi í sinni sjálfskipuðu útlegð í Frakklandi.

Stoker og kona hans fluttu til Lundúna þar sem Stoker tók við rekstri Lyceum leikhússins sem var í eigu vinar hans Henry Irvings. Starfaði hann þar næstu 27 árin. Árið 1879 eignuðust þau hjón dreng sem þau skírðu Irving Noel Thornley Stoker. Í gegnum Irving og starfið í leikhúsinu kynntist Stoker mörgum þekktum andans mönnum og rithöfundum á borð við Arthur Conan Doyle og Hall Caine þann sem skrifaði söguna The Bondman sem gerist á Íslandi. Varð Caine hans besti og traustasti vinur og honum tileinkaði Stoker söguna af Drakúla greifa.

Lyceum leikhúsið setti upp sýningar víða og ferðaðist Stoker með leikurunum, m. a. til Austur-Evrópu og Bandaríkjanna. Urðu þessi ferðalög honum gjarnan innblástur fyrir sögur. Samfara starfi sínu í leikhúsinu hélt Stoker áfram að skrifa sögur, einkum rómantískar hryllingssögur og sögur sem byggðu á dulrænum fyrirbærum. Nutu bækur hans töluverðra vinsælda. Hann kynntist ungverska rithöfundinum Ármin Vámbéry. Er talið að Vámbéry hafi hafi vakið áhuga Stokers á vampírum og öðrum þjóðsagnakenndum fyrirbærum.

Sagan Drakúla kom út árið 1897. Hún fjallar um vampíruna Drakúla greifa og tilraun hans til að flytja sig um set frá Transilvaníu til Englands að verða sér út um nýtt blóð til að geta breitt út bölvun vampírunnar. Drakúla fær aldeilis ekki frítt spil í þessari viðleitni sinni því hópur fólks undir stjórn prófessorsins Abraham Van Helsing kemst á snoðir um tilvist hans og áform hans og við tekur hatrömm barátta milli þeirra og vampírunnar. Varð sagan strax vinsæl og hafa þær vinsældir haldist síðan.

Stoker lést 20. apríl 1912.