Nóvellan A Christmas Carol eftir Charles Dickens kom fyrst út í London árið 1843. Varð hún strax gríðarlega vinsæl og gagnrýnendur kepptust um að dásama hana. Á þessum tíma voru Bretar í auknum mæli farnir að gera meira úr jólum en áður, farnir að leita uppi og elta gamla jólasiði og taka upp á því að senda jólakort og skreyta með jólatrjám. Sagan féll því í afar góðan jarðveg. Þar segir frá gömlum beiskum nirfli að nafni Ebenezer Scrooge sem hugsar um það helst og fremst að græða og safna auði; skítt með alla aðra. Svo er það eina nótt að hann fær heimsókn frá afturgöngu fyrrum viðskiptafélaga síns, Jacobs Marley og í kjölfarið frá fleiri afturgöngum. Verður þetta til þess að Ebenezer fær nýja og bjartari sýn á lífið og tilveruna almennt. Áhugavert þema sem passar inn í alla tíma og allir hafa bæði gagn og gaman af að lesa.