Charlotte Brontë

Charlotte Brontë fæddist í Thornton í Yorkshire á Englandi árið 1816. Var hún þriðja barn foreldra sinna, prestsins Patrick Brontë og konu hans Maríu. Síðar eignuðust þau hjón soninn Patrick (1817) og dæturnar Emily (1818) og Anne (1820), en þær síðasttöldu áttu einnig eftir að verða kunnar fyrir skrif sín. 

Þegar Charlotte var á fjórða ári (1820) flutti fjölskyldan á prestsetrið í Haworth. Fljótlega eftir það lést móðir Charlotte úr krabbameini og frænka hennar Elizabeth Branwell kom og tók við heimilinu. 

Þegar Charlotte var átta ára gömul hóf hún nám við sama barnaskólann og eldri systur hennar tvær, Maria og Elizabeth.  Níu mánuðum síðar voru báðar eldri systurnar teknar úr skólanum en þær höfðu þá veikst af berklum og dóu skömmu síðar. Í kjölfarið var ákveðið að Charlotte myndi fá menntun sína heima fyrir ásamt yngri systkinum sínum. Er ekki að efa að þessi missir hefur fengið mikið á Charlotte. 

Eftir því sem systkinin sögðu frá síðar var fjölskyldan mjög samhent og höfðu börnin öll til að bera frjótt ímyndunarafl sem þau notuðu óspart til að stytta sér stundir. Svo var það eitt að faðir þeirra færði þeim tálgaða tré(tin)dáta og þá hreinlega opnuðust flóðgáttir sköpunarinnar hjá þeim. Hermennirnir urðu brátt persónur í flóknum og stórbrotnum heimi sem börnin bjuggu til í sameiningu. Hófu þau að skrifa sögur og lýsingar og settu á fót ímyndaðan heim sem þau kölluðu Kingdom of Angria.  

Árið 1831, þegar Charlotte var á fimmtánda ári, hélt hún aftur í skóla sem kenndur var við ungfrú Wooler við Roe Head, en sú skólaganga stóð bara yfir eitt misseri, því þá tók hún að sér að kenna yngri systkinum sínum heima fyrir.  Hún átti þó eftir að koma við sögu skólans síðar, því hún gerðist kennari við skólann árið 1835. Launin sem hún hlaut fyrir það gerðu fjölskyldunni kleift að senda Branwell bróður hennar í listaskóla árið 1839. 

Eftir að Charlotte hætti við skólann starfaði hún á tveimur stöðum í stuttan tíma sem heimiliskennari hjá vel megandi fjölskyldum, en svo árið 1842 vendir hún kvæði sínu í kross og heldur ásamt systur sinni Emily til Belgíu að læra frönsku og þýsku við skóla sem rekinn var af manni sem hét Heger. Dvöldu þær þar um tíma, en þegar þær fréttu að frænka þeirra og fóstra, Elizabeth Branwell, væri látin sneru þær aftur heim. Charlotte sneri þó aftur til skólans í Brussel um tíma árið 1844 en stoppaði stutt. Sótti hún í þessa reynslu sína þegar hún skrifaði söguna Villette

Þegar hún sneri aftur til Haworth ákváð hún ásamt systrum sínum Emily og Anne að setja á fót eigin skóla, en þeim til sárra vonbrigða fengu þær engin viðbrögð þegar þær auglýstu skólann og féllu þau áform því um sjálf sig. 

Allan þennan tíma hafði Charlotte stundað skriftir, bæði ljóð og sögur. Þegar hún svo rekst á ljóð eftir systur sína Emily fer hún að huga að því að þær systur reyni að gefa eitthvað út. Var það úr árið 1846 að systurnar þrjár gáfu út ljóðakver og voru höfundarnir skráðir Currer, Ellis og Acton Bell. Þó svo að bókinni væri ekki sérlega vel tekið af almenningi létu þær ekki þar við sitja, því ári síðar komu út eftir þær þrjár skáldsögur. Eftir Emily kom út Wuthering Heights, eftir Anne sagan Agnes Grey og eftir Charlotte var það sagan Jane Eyre. Voru þær gefnar út undir sömu dulnefnum og þær höfðu áður notað í ljóðakverinu. 

Það er skemmst frá að segja að Jane Eyre var gríðarlega vel tekið bæði af almenningi og flestum gagnrýnendum. Ári eftir útkomu bókanna héldu Charlotte og Anne á fund útgefenda sinna og upplýstu þá um rétt nöfn höfundanna. 

Það sama ár dundi ógæfa yfir fjölskylduna því þá lést bróðir þeirra Branwell, en hann hafði verið langt leiddur af áfengisdrykkju og eiturlyfjaneyslu og skömmu síðar lést Emily úr berklum (des. 1848).  Og eins og það væri ekki nóg þá lést Anne um mitt árið 1849.  Nú var Charlotte orðin ein eftir af fjölskyldunni.  

Árið 1849 hélt hún til Lundúna og kynntist fleira bókmenntafólki, enda vildu allir hitta höfund bókarinnar Jane Eyre. Það sama ár kom út eftir hana sagan Shirley. Varð hún mjög vinsæl, en þó ekki eins og Jane Eyre. (Það er gaman að geta þess að aðalpersóna sögunnar er stúlka sem skírð er karlmannsnafninu Shirley af því að faðirinn hafði vonast eftir dreng. Varð þetta til þess að nafnið Shirley breyttist á Englandi og var síðan nánast einungis bundið við konur.)

Síðan liðu fjögur ár að næstu sögu sem var Villette. Kom hún út árið 1853 og var fyrsta sagan sem gefin var út undir hennar rétta nafni. 

Árið 1852 bað presturinn í Haworth, Arthur Bell Nicholls, Charlotte um að giftast sér, en hún hafnaði honum í fyrstu. En árið 1854 lét hún undan og giftist honum. Ekki varði hjónasælan þó lengi, því ári síðar veiktist Charlotte af lungnabólgu og dó 31. mars árið 1855. Gekk hún þá með barn þeirra hjóna.  

Eftir andlát Charlotte fundust fleiri skrif eftir hana sem ekki höfðu verið gefin út. Má þar söguna The Professor sem hún mun hafa skrifað árið 1846. Var hún gefin út að henni genginni árið 1857. 

Byrjað var að gefa bernskuverk hennar út löngu síðar eða árið 1925.