F. Scott Fitzgerald
Francis Scott Key Fitzgerald var og er enn einn athyglisverðasti rithöfundur sem Bandaríkin hafa alið af sér. Eftir hann liggja 5 langar skáldsögur, 3 stuttar skáldsögur og fjöldinn allur af smásögum. Kunnasta verk hans er eflaust skáldsagan The Great Gatsby sem kom út árið 1925. Saga sem náði að fanga þá gróskumikla umbrotatíma sem hún var skrifuð á, og býr yfir þessum óskilgreinda galdri sem allar frábærar sögur gera sem hægt að yfirfæra yfir á hvaða tíma sem er.
Fitzgerald fæddist í Saint Paul, Minnesota 24. september árið 1896. Foreldrar hans voru kaþólskt miðstéttarfólk, ágætlega efnum búin og gátu veitt honum gott uppeldi. Þegar hann var á öðru ári flutti fjölskyldan til Buffalo, New York vegna atvinnu föður hans. Þar dvöldu þau til ársins 1908 er faðir hans missti vinnuna. Fluttu þau þá aftur til Minnesota. Fitzgerald þótti afar vel gerður og greindur drengur og fékk snemma mikinn áhuga á bókenntum. Eftir farsæla skólagöngu fékk hann inngöngu í háskólann í Princetown í New York. Það var þar sem hann ákvað að gerast rithöfundur. Fljótlega áttu skrifin hug hans allan og bitnaði það á endanum á náminu og hann hrökklaðist úr skóla árið 1917.
Á þessum tíma skrifaði hann tvær skáldsögur sem hann reyndi að fá útgefnar, en þeim var báðum hafnað. Hann ákvað að reyna fyrir sér í hernum en það átti ekki við hann og hann hætti fljótt. Hann kynntist Zeldu Sayre sem átti eftir að verða stóra ástin í lífi hans og bað hennar, en hún vildi ekki giftast honum nema hann gæti örugglega séð sómasamlega fyrir henni. Eftir að hann hætti í hernum ákvað hann að reyna fyrir sér í auglýsingabransanum og skrifa sögur samhliða. Á endanum ákvað útgáfufyrirtækið Schribner's að gefa út skáldsögu hans This Side of Paradise. Kom hún út 26. mars árið 1921 og hlaut ágætar viðtökur og með vonartekjur upprennandi rihöfundar í farteskinu fékk hann Zeldu til að giftast sér.
Þaðan frá lifði hann eingöngu af skrifum og þau Zelda ferðuðust víða og fengu orð á sig fyrir frjálslegt og nokkuð taumlaust líferni. Til að fjármagna það skrifaði Fitzgerald fjöldann allan af smásögum sem hann seldi ýmsum tímaritum. Zelda kona hans átti lengi við andleg veikindi að stríða og mótaði það stormasamt líf þeirra.
Þó svo að Fitzgerald sé í dag helst kunnur fyrir sögurnar The Great Gatsby og The Beautiful and Damned hlutu þær sögur ekki viðlíka móttökur og fyrsta skáldsaga hans This Side of Paradise hafði fengið. Var það honum til mikilla vonbrigða og með tímanum varð sífellt erfiðaðra að viðhalda kostnaðarsömum lífstíl þeirra hjóna.
Þá átti Fitzgerald við drykkjuvandamál að stríða og almennt heilsuleysi. Á endanum slitu þau Zelda samvistum.
Fitzgerald lést úr hjartaáfalli 21. desember árið 1940, einungis 44 ára gamall.