Georgiy Apollonovich Gapon
Georgiy Apollonovich Gapon (1870–1906) var rússneskur rétttrúnaðarprestur og vinsæll verkamannaleiðtogi fyrir rússnesku byltinguna. Eftir að það uppgötvaðist að hann var tvöfaldur í roðinu og starfaði öðrum þræði með yfirvöldum var hann drepinn af byltingarmönnum.
Georgiy Apollonovich Gapon fæddist 17. febrúar 1870 í þorpinu Beliki í Úkraínu sem þá var hluti af rússneska heimsveldinu. Var hann fyrsta barn foreldra sinna en faðir var hans kósakki og móðir hans almúgakona.
Faðir hans hafði hlotið einhverja menntun sem þá var fátítt og var af þeim sökum sjálfkjörinn í þorpsráðið og sem sýsluskrifari í héraðinu. Móðir hans var ólæs og óskrifandi en bjó yfir miklum trúarstyrk og ól son sinn upp í anda rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar.
Gapon þótti standa sig vel í barnaskóla og var ákveðið að hann fengi styrk til að fara í framhaldsskóla og síðar að læra til prests. Í gegnum einn kennarann kynntist hann ritum Tolstoys og heimspekikenningum hans. Sérstaklega fannst Gapon mikið til samfélagslegra skoðana Tolstoys koma; það að hlúa betur að verkafólki og fátækum almennt en þær skoðanir samræmdust ekki alveg stefnu kirkjuyfirvalda.
Komst hann vegna þessara skoðana sinna, sem hann fór ekki leynt með, í óþökk skólayfirvalda sem hótuðu að hætta að styrkja hann til náms. Gapon brást við þessu með því að afneita öllum styrkjum og freistaði þess að kosta nám sitt sjálfur með einkakennslu.
Þegar hann var 23 ára fékk hann taugaveiki, sem gerði það að verkum að hann varð að hætta einkakennslunni og þá datt hann út úr náminu. Hann ákvað í kjölfarið að hætta að reyna að læra til prests og sótti um í læknisfræði í háskólann í Tomsk. Þannig gæti hann orðið þeim fátæku meira að liði. En honum var neitað um skólavist þar vegna skoðana sinna.
Í kjölfarið fékk hann starf sem skrifari ásamt því að sinna einkakennslu. Fékk hann m.a. starf við að kenna ungri kaupmannsdóttur og urðu þau ástfangin. Gapon bað um hönd hennar en var hafnað sökum þess að framtíðarhorfur hans voru ekki nógu traustar. Þá ákvað hann að freista þess að reyna aftur við prestsnámið til að tryggja framtíð sína. Leitaði hann á náðir Ilarions biskups sem hann þekkti frá fornu fari og baðst afsökunar á fyrra framferði sínu. Auk þess sem hann lofaði að fylgja stefnu rétttrúnaðarkirkjunnar í einu og öllu ef hann fengi að halda námi sínu áfram. Það varð úr og við svo komið var ungu hjónaleysunum leyft að eigast.
Gapon lauk nú náminu og hóf að starfa sem aðstoðarpresturí Pltava héraðinu og var snemma kunnur fyrir óvenjulega nálgun til starfans. Varð hann fljótt vinsæll meðal alþýðu fólks sem tók hann fram yfir aðra presta. Það fór illa í þá og kvörtuðu þeir undan honum en biskupinn hélt samt verndarhendi yfir honum.
Gapon og kona hans eignuðust tvö börn með stuttu millibili, en kona hans veiktist í fæðingu seinna barnsins og lést af völdum þess.
Þá ákvað Gapon að færa sig um set og flutti til Pétursborgar. Þar stundaði hann framhaldsnám. Var það árið 1898.
Á fyrsta ári sínu í Pétursborg tók Gapon þátt í trúboðsstarfi sem fólst meðal annars í því að hann bauð upp á samræðufundi um trúna meðal verkamanna í verksmiðjum og annarra vinnustaða. En sú vinna samfara erfiðu háskólanámi gekk nærri heilsu hans og hann tók sér árs leyfi og hélt til Krímskagans til þess að ná heilsu.
Á Krím dvaldi hann einkum í klaustrum og þar urðu áhangendur Tolstoys aftur á vegi hans sem voru nú orðnir mjög opinskáir í gagnrýni sinni á rússnesku kirkjuna. Hvöttu þessir skoðanabræður hans hann til að slíta öll tengsl við kirkjuna en Gapon vildi ekki gera það. Hann taldi sig geta gert meira sem prestur fyrir fátæka.
Hann sneri aftur til Pétursborgar (1899) og hóf að kenna munaðarlausum börnum kristindóm, auk þess sem hann reyndi af öllum mætti að aðstoða og liðsinna fátækum atvinnuleysingjum.
Á þessum árum var mikil ólga í rússnesku þjóðfélagi og margir vildu koma á breytingum. Keisarinn og lið hans óttuðust þessi byltingaröfl og reyndu að stemma stigu við þeim með öllum ráðum. Því var það að umbótastarf Gapons vakti athygli bæði þeirra sem vildu bylta samfélaginu og keisarans. Vildu báðir flokkar fá Gapon til að vinna fyrir og þá einkum að veita þeim upplýsingar. Var það úr að hann gerði það og reyndi að fara bil beggja. Samkvæmt eigin frásögn vildi hann helst sjá miklar breytingar án þess þó að bylta samfélaginu.
Þann 22. janúar fór Gapon fyrir kröfugöngu verkamanna með bænaskrár til fundar við keisarann í Pétursborg. Keisarinn var ekki í höll sinni og endaði þetta með því að hermenn hans réðust gegn verkafólkinu og strádrap marga. Gapon slapp með naumindum úr þeim hildarleik. Framganga hans þennan dag gerði hann mjög frægan og þessi atburður varð einnig til þess að Gapon tengdi sig meir við byltingarmenn.
Flýði hann til Evrópu þar sem hann gekk í flokk upprerisnarmanna. Einkum dvaldi hann í Genf og í London. Hann hafði þó ekki alveg sagt skilið við útsendara keisarans og lék áfram tveim skjöldum. Reyndi hann að fá fleiri byltingarmenn til að gera slíkt hið sama, en það tókst ekki betur en svo að byltingarmennirnir urðu áskynja um tvöfeldni hans og létu drepa hann árið 1906.
Eftir því sem sagan segir var það trú Gapons að það myndi einungis styðja baráttu verkalýðsins til langframa að vera í sambandi við lögreglu keisarans. Ef marka má ævisögu hans sem hann skrifaði árið 1905 var Gapon einlægur í sinni afstöðu og vildi einungis gera það sem helst myndi koma fólkinu til góða, en það voru ekki allir jafnsannfærðir um það.