Harriet Beecher Stowe

Harriet Beecher Stowe var bandarískur rithöfundur sem barðist fyrir réttlæti til handa blökkumönnum. Frægasta skáldsaga hennar, Uncle Tom's Cabin, sem kom út árið 1852, lýsir á raunsæjan hátt þeim ömurlegu aðstæðum sem svartir máttu búa við á þeim tíma meðan þrælahald var við lýði. Hafði sagan mikil áhrif í baráttunni að afnema þrælahald. Hún skrifaði í allt þrjátíu bækur, bæði skáldsögur, ferðaminningar og greinasöfn, en það er þó einkum og sér í lagi umrædd bók sem hefur haldið nafni hennar á lofti.

Harriet Beecher Stowe fæddist í Litchfield, Connecticut 14. júní árið 1811. Var hún sjöunda í hópi 14 barna foreldra sinna. Foreldrar hennar voru mjög trúaðir og faðir hennar Lyman Beecher var kunnur kalvínistapredikari. Á heimilinu var rík áhersla lögð á menntun og fengu systurnar sömu menntun og bræðurnir sem var óvenjulegt á þeim tíma.

Árið 1832 þegar Harriet var 21 árs flutti hún til Cincinnati, Ohio til föður síns sem hafði nýlega tekið við sem forseti yfir trúarstofnun þar. Þar gekk hún í bókmenntaklúbb og kynntist nokkrum verðandi rithöfundum og stjórnmálamönnum með svipaðar skoðanir og hún. Á þessum tíma var mikill uppgangur í Cincinnati og fólk sótti þangað í stríðum straumum í leit að vinnu. Einkum voru það írskir innflytjendur og frjálsir svartir menn sem börðust um vinnuna. Þremur árum fyrr (1829) hafði komið til blóðugra átaka í borginni þegar írskir innflytjendur höfðu ráðist gegn svörtum verkamönnum og reynt að hrekja þá burt. Kynntist Harriet mörgum svörtum einstaklingum sem höfðu lent í þessum átökum og hafði saga þeirra mikil áhrif á hana. Kom aftur til átaka 1836 og 1841.

Í bókmenntaklúbbnum kynntist Harriet prófessor Calvin Ellis Stowe sem var ekkill. Þau gengu í hjónaband 1836. Var hann mikill baráttumaður gegn þrælahaldi og gengu þau hjón skrefinu lengra en margir í baráttunni og hýstu marga svarta einstaklinga sem strokið höfðu frá ,,eigendum" sínum, á heimili sínu. Síðan hjálpuðu þau þeim að komast yfir til Kanada þar sem þeir voru frjálsir þegnar. Eignuðust þau hjón 7 börn.

Árið 1850 samþykkti bandaríska þingið lög sem bönnuðu öllum að hjálpa strokufólki. Stowe hafði þá flutt með fjölskyldu sinni til Brunswick, Maine, þar sem maður hennar kenndi við háskóla. Það var eitt sinn í messu á háskólasvæðinu að Harriet varð fyrir einhvers konar vitrun eða sýn þar sem hún sá fyrir sér deyjandi þræl. Var það til þess að hún ákvað að skrifa sögu þessa manns. Á þessum tíma varð hún fyrir því áfalli að átján mánaða gamall sonur hennar dó. Sagði hún síðar að það hefði einnig átt stóran þátt í að hún hóf að skrifa söguna Kofi Tómasar frænda því að sorgin við missinn fékk hana til að fyllast meðaumkvun með þrælum sem máttu þola það að börn þeirra væru tekin af þeim og seld á uppboði.

Þann 9. mars árið 1850 skrifaði Harriet Gamaliel Bailey, ritstjóra blaðsins National Era, sem studdi opinberlega afnám þrælahalds, þar sem hún sagðist ætla að skrifa sögu sem tæki fyrir óréttlætið sem fólst í þrælahaldi. Skömmu síðar í júní 1851 birtist fyrsti hluti sögunnar Uncle Tom's Cabin í tímaritinu. Fyrst kallaði hún söguna The Man That Was A Thing (Maðurinn sem var hlutur), því var fljótlega breytt í Life Among the Lowly (Líf meðal hinna snauðu). Lokahluti sögunnar birtist 1. apríl 1852. Í kjölfarið var hún gefin út á bók og var fyrsta upplagið 5000 eintök í tveimur bindum. Á innan við ári hafði sagan selst í þrjú hundruð þúsund eintökum sem hafði aldrei gerst fyrr í Bandaríkjunum, en sagan var jafnframt fyrsta bókin þar í landi sem seldist í yfir milljónum eintaka.

Bókin hafði gríðarleg áhrif, einkum og sér í lagi í Norðurríkunum og í kjölfarið óx baráttunni gegn þrælahaldi fiskur um hrygg. Sagan sem dró ekkert undan sýndi öllum á ljósan og áhrifaríkan hátt hvað þrælahald hefði í för með sér og að þessi ófögnuður gegnsýrði allt samfélagið.

Víða í Suðurríkjunum vakti sagan sterk varnarviðbrögð. Voru í kjölfarið skrifaðar margar bækur sem dásömuðu suðrið og reyndu að gefa aðra og jákvæðari mynd af þrælahaldi, en engin þeirra náði þó eyrum fólks eins og saga Harriet.

Við upphaf þrælastríðsins árið 1861 bauð Abraham Lincoln Harriet í Hvíta húsið og þegar þau hittust á Lincoln að hafa sagt: "So you are the little woman who wrote the book that started this great war." (Svo þú ert litla konan sem skrifaði bókina sem leiddi til þessa mikla stríðs.)

Á árunum eftir borgarastríðið (þrælastríðið) barðist Harriet ötullega fyrir auknum réttindum giftra kvenna, en hún hélt því fram að staða giftrar konu væri um margt ekki ósvipuð þræls. Giftar konur máttu ekki gera neina samninga eða eiga neinar eignir og allt sem þær erfðu varð sjálfkrafa eign eiginmanna þeirra. Það skipti heldur engu þótt konan aflaði mikilla tekna, allar þær tekjur rynnu óskoraðar til eiginmannsins sem mætti ráðstafa þeim að vild.

Árið 1868 varð Harriet ritstjóri tímaritsins Hearth and Home, en lesendahópur þess var einkum konur. Hún starfaði þar þó ekki nema í eitt ár. Árið 1870 var bróðir Harriet sakaður um hjúskaparbrot og varð úr því hneykslismál sem fór hátt í fjölmiðlum. Harriet sem trúði statt og stöðugt á sakleysi bróður síns flýði undan þessu máli til Flórída. Þegar hún sneri aftur til Connecticut stofnaði hún ásamt öðrum The Hartford Art School (Listaskólann í Hartford) sem seinna varð Háskólinn í Hartford. Árið 1886 lést eiginmaður Harriet og uppfrá því fór heilsu hennar sjálfrar að hraka. Varð hún á endanum mjög veik og vilja margir nútíma sérfræðingar meina að hún hafi þjáðst af Alzheimers sjúkdóminum. Harriet Beecher Stowe lést 1. júlí árið 1896 áttatíu og fimm ára gömul.