John Buchan
John Buchan, fyrsti barón af Tweedsmuir var skoskur skáldsagnahöfundur, sagnfræðingur og embættismaður sem þjónaði um tíma sem 15. landstjóri Breta í Kanada. Sögur hans af athafna- og ævintýramanninum Richard Hannay, og þá sérstaklega sagan The Thirty Nine Steps (Þrjátíu og níu þrep), urðu afar vinælar á sínum tíma og hafa lifað fram á þennan dag og eru enn að koma nýjum lesendum skemmtilega á óvart.
Buchan sem var fyrsta barn foreldra sinna fæddist 26. ágúst árið 1875 í Perth í Skotlandi. Faðir hans var prestur í hinni frjálsu kirkju Skotlands. Á sumrin dvaldi hann oftast hjá afa sínum og ömmu í Broughton. Þar lagði hann grunninn að útivist og náttúrugöngum sem hann unni alla tíð.
Honum gekk mjög vel í skóla og 17 ára hlaut hann styrk til að hefja nám við Háskólann í Glasgow þar sem hann lagði stund á klassísk fræði og skrifaði ljóð. Þaðan var honum svo veittur styrkur til að hefja nám í Oxford. Vann hann þar til ýmissa verðlauna fyrir ritgerðasmíð.
Að námi loknu hóf Buchan störf í utanríksþjónustunni og árið 1901 varð hann einkaritari Alfred Milners sem var þá landstjóri Breta í Suður-Afríku með aðsetur í Höfðaborg. Átti sá staður alla tíð pláss í hjarta hans sem merkja má af mörgum sögum hans. Þegar hann sneri aftur heim settist hann að í London og hóf að skrifa, auk þess sem hann varð ritstjóri tímaritsins The Spectator. Þá varð hann sér úti um lögmannsréttindi þó svo hann starfaði aldrei sem slíkur. Árið 1907 kvæntist hann Susan Charlotte Grosvenor. Eignuðust þau fjögur börn.
Árið 1910 gaf hann út skáldsöguna Prester John, sem var fyrsta ævintýrasaga hans þar sem sögusviðið var Suður-Afríka. Þá fór hann að taka virkan þátt í stjórnmálum fyrir skoska sambandsflokkinn. Helstu baráttumál hans voru frjáls verslun, aukin réttindi kvenna, almanna tryggingar.
Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út hóf Buchan að skrifa áróðursrit fyrir bresku áróðursmaskínuna og starfaði einnig sem fréttaritari í Frakklandi fyrir Times. Samhliða öðrum störfum var hann sískrifandi og árið 1915 kom frægasta bók hans út, The Thirty-Nine Steps, sem var ævintýra og njósnasaga sem átti að gerast í aðdraganda fyrri heimsstyrjaldar. Aðalperónan var hinn geðþekki Richard Hannay sem Buchan byggði á Edmond Ironside, vini sem hann kynntist í Suður-Afríku. Varð sagan gríðarlega vinsæl. Ári síðar kom út bókin Greenmantle sem var nokkur konar sjálfstætt framhald af Þrjátíu og níu þrep.
Árið 1916 skráði Buchan sig í herinn og var settur til aðstoðar Alexander Haig; að skrifa ræður og þess háttar. Árið 1917 var hann hækkaður í tign og settur yfir upplýsingamálum hersins undir Beaverbrook lávarði. Sagði Buchan síðar að það hefði erfiðasta starf sem hann hafði nokkru sinni fengist við. Þá var hann fenginn til að aðstoða Charles Masterman við að setja saman framhaldsrit þar sem saga stríðsins var rakin.
Þegar stríðinu lauk fór Buchan að einbeita sér að sagnfræðirannsóknum og skrifum samhliða afþreyingarsögum sínum. Hann var kjörinn forseti skoska sagnfræðifélagsins og valin til að gegna ýmsum embættum öðrum. Þá var hann kosinn á þing fyrir skoska sambandsflokkinn. Hann vildi veg Skotlands sem mestan en var þó á báðum áttum um hvernig fara ætti að því. Þegar verst áraði í Skotlandi og fólk flutti þaðan í nokkrum mæli sagði hann á breska þinginu: "Við viljum ekki verða eins og Grikkir, sterkir og öflugir hvar sem við setjumst, en með dautt Grikkland að baki."
Strax árið 1935 var byrjað að gera kvikmyndir eftir sögum buchans. Alfred Hitchcock reið á vaðið og gerði mynd eftir sögunni Þrjátíu og níu þrep. Þá var Buchan aðlaður á þessum tíma og gerður að baróni. Og sama ár var hann svo skipaður landstjóri Breta í Kanada sem var mikil virðingarstaða með miklum pólitískum áhrifum. Voru þetta erfiðir tímar í heiminum, ekki síst hvað varðaði uppgang Þjóðverja í Evrópu. Buchan varaði við Hitler og hans brölti þó svo að hann vildi í lengstu lög forðast stríð.
Hann átti þó ekki eftir að lifa aðra heimsstyrjöld því 6. febrúar árið 1940 féll hann er hann fékk heilablóðfall, en við fallið hlaut hann mikið höfuðsár. Reyndu læknar allt hvað þeir gátu til að bjarga honum en allt kom fyrir ekki, því hann lést finn dögum síðar, 11. Febrúar 1940.
Buchan var mjög afkastamikill höfundur þrátt fyrir að vera ávallt hlaðinn öðrum störfum. Eftir hann liggja 29 skáldsögur, tvö smásagnasöfn, nokkur ljóðasöfn og fjöldi sagnfræðirita. Þá skrifaði hann ævisögur m.a. um Oliver Cromwell, Walter Scott, Júlíus Sesar og Ágústus. Samantekið eru þetta um 100 rit.