Þó svo að sagan Leysing eftir Jón Trausta (Guðmund Magnússon) sé fæstum kunn þessa dagana, er hún af sumum talin tímamótaverk í íslenskri bókmenntasögu. Sagan, sem skrifuð var haustið 1907 og fylgdi í kjölfar sögunnar Höllu frá árinu áður, lýsir af óvenjumiklum þrótti og skilningi þeim breytingum á sviði þjóðlífsins sem áttu sér stað á Íslandi á þessum árum. Dr. Stefán Einarsson hélt því fram í ritgerð um höfundinn að í Leysingu sé í fyrsta sinn í íslenskri skáldsögu lýst þjóðfélagslegri hreyfingu, baráttu gamalla og nýrra verslunarhátta.