Jónas Hallgrímsson
Jónas Hallgrímsson fæddist 16. nóvember árið 1807 að Hrauni í Öxnadal. Faðir hans var séra Hallgrímur Þorsteinsson, aðstoðarprestur hjá séra Jóni Þorlákssyni, þjóðskáldinu á Bægisá, og var hann fimmti maður frá systur séra Hallgríms Péturssonar" (1). Mun Hallgríms nafnið þaðan komið. Rannveig móðir hans var dóttir Jóns bónda og skálds frá Hvassafelli.
Þegar Jónas var á fyrsta ári fluttu foreldrar hans sig að Steinsstöðum, en þeir eru nokkru utar í Öxnadalnum, og þar orti hann fyrstu vísurnar sem geymst hafa, aðeins sjö ára gamall. Var hann einn fjögurra systkina og þó hjónin ungu hafi verið fátæk virðast þau hafa verið vel bjargálna sem mátti teljast nokkuð gott á þeim harðindaárum. Þá virðist hann einnig hafa notið mikils ástríkis af foreldrum sínum og munu hann og faðir hans hafa verið sérstaklega samrýmdir. Það er svo þegar Jónas er níu ára gamall að ský dregur fyrir sólu og fótunum er allt í einu kippt undan tilveru hans. Þá um sumarið hélt faðir hans ásamt tveimur ungum mönnum til veiða í Hraunsvatni en báturinn sem hann var á hvolfdi með þeim afleiðingum að hann drukknaði. Aldrei fáum við áttað okkur til fulls á því hvers konar reiðarslag þetta hefur verið fyrir Jónas og alla fjölskylduna, en móðir hans stóð alein uppi með fjögur lítil börn. Og neyðin átti eftir að gera þennan missi enn sárari. Til að létta á heimilinu er Jónas sendur að Hvassafelli, þar sem Guðrún móðursystir hans tók hann í fóstur. ,,Sagt er, að hún hafi látið sér mjög annt um þennan unga frænda sinn og gert vel við hann, en ástríki hennar hefur þó naumast megnað að græða þau sár, er hann bar með sér að heiman" (2). Jónas hafði þannig ekki einungis misst föður sinn, heldur varð hann að sjá á eftir móður sinni og systkinum. Öll þessi umskipti hafa eflaust rist djúpt í vitund barnsins og mótað hann alla ævi. Síðar á ævinni orti Jónas þannig um þessa tíma og má af því ráða að sársaukinn hefur lifað með honum.
Þá var ég ungur,
er unnir luku
föðuraugum
fyrir mér saman.
Man ég þó missi
minn í heimi
fyrstan og sárstan,
er mér faðir hvarf.
En móðir Jónasar var ekki búinn að sleppa af honum hendinni og og þegar Jónas var orðinn þrettán vetra sendi hún hann til náms hjá séra Einari Thorlaciusi presti í Goðdölum, en hann og Hallgrímur faðir Jónasar voru systrasynir. Var Jónas hjá Einari tvo vetur. Haustið 1823 kvaddi Jónas síðan æskustöðvar sínar og lagði upp í fyrstu ferð sína suður um fjöll. Hann innritaðist í Bessastaðaskóla 1. október og settist þar í fyrsta bekk. Fyrsta veturinn dvaldi Jónas sex vikur í skólanum og hlaut hálfan dvalarstyrk ,,og er óvíst, hvort móðir hans eða frændi hafa kostað hann að öðru leyti. En þar sem Jónas reyndist hinn efnilegasti námssveinn og átti enga að, sem gátu veitt honum fjárhagsstyrk, þá fékk hann ókeypis námsdvöl á Bessastöðum í fimm vetur" (3).
Þegar Jónas kemur í Bessastaðaskóla eru þar einungis um 40 nemendur og bjuggu þeir allir í heimavist. Hefur samneyti milli þeirra því verið mikið og oft sprottið af vinskapur sem átti eftir að vara alla ævi. Þannig eignaðist Jónas marga sína bestu vini á þessum árum eins og Tómas Sæmundsson og Pál Melsted, sem þó var honum ekki samtíða nema eitt ár í skólanum. Sagði hann síðar um Jónas: ,,Mér þótti merkilegt flest af því sem Jónas sagði, hann fann að öllu, sem var ljótt og ósatt og hálfsatt, hann vakti eftirtekt mína og kenndi mér að taka ekki allt trúanlegt, sem talað var; mér fannst hann ætíð hafa rétt að mæla" (4).
Eftir því sem best verður séð tók Jónas virkan þátt í félagslífi skólans, jafnframt því sem hann stóð sig vel í náminu, sem hann lét þó stundum sitja á hakanum fyrstu árin þegar annað áhugaverðara sótti hugann heim. Hann var t.a.m. meðal fjögurra bestu söngmanna skólans að því er Páll Melsted hermdi og til er enn brot úr gamanleik sem hann hefur samið eða verið byrjaður að semja. Jónas útskrifaðist úr Bessastaðaskóla árið 1829 tuttugu og eins árs að aldri, og stóð þá á krossgötum. Hugur hans stefndi út til Kaupmannahafnar þar sem margir af vinum hans voru farnir á undan honum, en ólíkt þeim hafði hann enga til að styrkja sig til námsins.
Rétt eins og í dag féll skóli niður yfir sumarmánuðina. Flestir skólapiltanna voru úr sveit og á sumrin þurftu heimilin á öllum þeim að halda er vettlingi gátu valdið til að draga björg í bú fyrir veturinn. Jónas fór á sumrin heim til móður sinnar og systkina á Steinsstöðum og gekk þar að hefðbundnum sveitastörfum. Þegar Jónas hafði lokið næstsíðasta vetrinum við skólann árið 1828 hélt hann eins og vani hans var norður, en að þessu sinni var hann í fylgd með séra Gunnari Gunnarsyni sem veitt hafði verið prestsembættið í Laufási að föður hans látnum. Var Gunnar á leiðinni norður til að veita embættinu viðtöku. Með Gunnari í för var dóttir hans, Þóra, þá sextán ára. Á leiðinni virðist sem Jónas og Þóra hafi fellt hugi saman og þegar kom að skilnaðarstund þeirra á Steinsstöðum bað hann Gunnar föður Þóru um hönd hennar, ,,en hann tók málinu seinlega, kvað þau bæði ung og óráðin og erfitt að segja fyrirfram, hvað þeim kynni að henta best í ástamálum" (5).
Eins og áður sagði var Þóra aðeins sextán vetra og afstaða Gunnars föður hennar því kannski skiljanleg, auk þess sem framtíðarhorfur Jónasar voru nokkru óráðnar. Má ætla að synjun Gunnars hafi samt verið jafn hrifnæmum og tilfinningaríkum ungum manni þungbær, enda yrkir hann stuttu eftir heimkomu sína, eitt hið fegursta ástarljóð sem samið hefur verið á íslensku. Hann birti kvæðið þó ekki fyrr en síðar í Fjölni og nefndi það þá ,,Ferðalok", en áður hafði hann verið búinn að skíra það ,,Ástin mín" og ,,Gömul saga". Lokaerindi ljóðsins segir allt sem segja þarf.
Háa skilur hnetti
himingeimur,
blað skilur bakka og egg.
En anda, sem unnast,
fær aldregi
eilífð að skilið.
Er trúlegt að Jónas hafi sent Þóru kvæðið en þau skiptust á bréfum í nokkur misseri eftir þetta, þrátt fyrir andstöðu Gunnars föður hennar. Seinna orti Jónas annað ljóð til hennar, sem bar nafnið ,,Söknuður". Það átti ekki fyrir þeim Þóru og Jónasi að liggja að eyða ævidögunum saman, en sex árum síðar giftist Þóra fyrir þrábeiðni vandamanna sinna ekkjumanninum Halldóri Bjarnasyni, sem lengi var prestur á Sauðanesi. En þar með er sagan ekki öll, því svo er hermt að þegar ,,ljóðmæli Jónasar komu út eftir andlát hans, sá Þóra fyrst bókina á mannamóti og varð mikið um, því að þar voru ljóðin um skammvinnt ástalíf hennar og skáldsins og um endanlegan skilnað þeirra og ferðalok. Varð Þóra þá snortin af geðshræringu og hvarf sem skjótast heim til að búa ein að minningum sínum. Liðu svo langir tímar. Þóra varð gömul kona og lífsþreytt. En á borði við hvílu sína hafði hún jafnan tvær bækur: ritninguna og ljóðmæli Jónasar Hallgrímssonar" (6).
Jónas og Þóra guldu þess tíma sem fóstraði þau, en maður getur ekki annað en spurt sig þeirrar spurningar hvort líf Jónasar hefði tekið aðra stefnu hefði hann og Þóra fengið að halda áfram ferðinni þegar þau komu að Steinsstöðum. En slíkar vangaveltur tilheyra öðrum tíma, en í ljóði sínu ,,Söknuður" harmar skáldið örlög sín:
Man ég þig mey,
er hin mæra sól
hátt í heiði blikar.
Man ég þig, er máni
að mararskauti
sígur silfurblár…..
Hví hafa örlög
okkar beggja
skeiði þannig skipt?
Hví var mér ei leyft
lífi mínu
öllu með þér una….
og
Sólbjartar meyjar,
er ég síðan leit,
allar á þig minna.
Því geng ég einn
og óstuddur
að þeim dimmu dyrum.
Eftir að hann útskrifaðist úr Bessastaðaskóla hóf Jónas störf sem ritari landfógeta í Reykjavík, en sökum féleysis gat hann ekki haldið til móts við vini sína í Kaupmannahöfn. Í Reykjavík bjuggu þá ekki nema í kringum 500 manns, og því ekki mikið við að vera, utan einstaka dansleikja og samkvæma. Skar Jónas sig nokkuð úr í bæjarlífinu, en á sunnudögum mátti sjá hann ganga um bæinn ,,í litklæðum í samræmi við rómantískan aldaranda" (7). Fékk hann ákúrur fyrir þetta háttalag frá vinum sínum, en Tómas Sæmundsson segir í bréfi til hans að hann ætti heldur að reyna að einbeita sér að því að komast utan til náms en að vera með slíkt tilhald.
Það er svo árið 1832 að Jónas afræður að láta slag standa og halda utan til náms. Var hann þá búinn að vera í Reykjavík í þrjú ár. Hafði honum tekist að safna einhverjum aurum af kaupi sínu frá landfógeta og svo treysti hann á að fá Garðstyrk er hann kæmi utan.
Í upphafi ætlaði Jónas að stunda lögfræði og læra jafnvel dönsk lög, en fljótlega hvarf hann frá þeirri hugmynd og lagði stund á náttúrufræði. Samhliða því kynnti hann sér það helsta sem var að gerast í skáldskap, einkum þýskan og norrænan. Var þýska skáldið Heine í miklu uppáhaldi hjá honum, enda þýddi hann talsvert af ljóðum eftir hann. ,,Þá var hann meðal þeirra fyrstu sem skildu og virtu H. C. Andersen að verðleikum" (8).
Árið 1835 hefur hann ásamt vinum sínum þeim Brynjólfi Péturssyni, Konráði Gíslasyni og Tómasi Sæmundssyni útgáfu tímarits sem þeir kölluðu Fjölni. Með tímaritinu, sem átti að vera bæði til fróðleiks og skemmtunar, vildu þeir efla þjóðernisvitund Íslendinga og vekja þá af þeim pólitíska og skáldlega dvala sem einkennt hafði þá um langan aldur. Á forsíðu fyrsta blaðs Fjölnis birtu þeir ljóð Jónasar ,,Ísland farsælda frón" og gaf það tóninn.
Þegar Jónas hafði verið í Kaupmannahöfn í fjögur ár var Garðstyrkurinn þrotinn og þó að Jónas hefði aflað sér víðtækrar menntunar í sínu fagi hafði hann ekki lokið embættisprófi í greininni, og var því varla gjaldgengur til neinna embætta. Sótti hann þá um styrk til framhaldsnáms og til rannsókna á náttúru Íslands. Fékk hann að lokum 150 dali í styrk til þess verks.
Eftir fimm ára dvöl í Kaupmannahöfn hélt hann aftur til Íslands og dvaldi þar sumarlangt við rannsóknir sínar, og notaði tækifærið í leiðinni til að heimsækja vini sína og fjölskyldu. Að því loknu hélt hann aftur til Kaupmannahafnar, þó svo að hann hefði ekki að neinu föstu að ganga þar. Á þessum árum sækir hann meira að segja um fjögur prestköll úti á Íslandi en fékk ekki. Enn leitaði hann eftir styrk til náttúrufræðirannsókna og ,,var honum í nokkur ár veitt úrlausn í því efni" (9).
Árið 1838 býður hann sig fram til að semja vísindalega lýsingu á Íslandi í tengslum við Íslandskort það er Björn Gunnlaugsson hafði gert fyrir Hið Íslenska bókmenntafélag. Var því tekið vel. Virðist Jónasi hafa liðið nokkuð vel á þessum tíma en mörg hans þekktustu kvæði voru einmitt samin á þessum árum (1837 -1839).
Þá er það að enskir fésýslumenn fá áhuga á því að hefja námurekstur á Íslandi, en áður en leyfið væri veitt til þess vildu Danir að láta kanna hvaða verðmæti lágu að baki, til að geta fengið sem mest út úr þeim viðskiptum. Er ákveðið að senda hingað tvo danska náttúrufræðinga, í þeim erindagjörðum. Var annar þeirra Japhetus Steenstrup, skólabróðir og vinur Jónasar. Það varð úr að Jónas er fenginn til að fara með, þeim til aðstoðar, og skyldi hann fá 100 dali fyrir, á meðan dönsku náttúrufræðingarnir fengu 1000 dali. Taldi Jónas sig þurfa meira fé, og tókst að fá dönsk yfirvöld til að lána sér 100 dali til viðbótar. Sigldu þeir við svo búið til Íslands og komu þangað vorið 1839. Þrátt fyrir að Jónas hafi einungis farið í ferðina sem aðstoðarmaður hinna tveggja kom fljótt í ljós þegar á reyndi að hann var enginn eftirbátur Dananna, enda mun kunnugri öllum staðháttum. ,,Hann kynnti sér vandlega Reykjahlíðarnámur og gerði þetta sumar margar athuganir í Þingeyjarsýslu, Eyjafirði og Skagafirði. Steenstrup og félagi hans fóru nokkuð um sunnanlands, en sinntu lítið aðalviðfangsefninu, brennisteinsmálinu" (10).
Seint um sumarið er Jónas svo á ferð yfir fjallgarðinn sem skilur að Skagafjörð og Eyjafjörð og hreppir aftakaveður. Varð honum mjög kalt og þegar hann kemst loks heim til móður sinnar að Steinsstöðum var hann orðinn sárþjáður af brjósthimnubólgu. Varð hann að halda þar kyrru fyrir í nokkrar vikur, en hann mun aldrei hafa náð sér alveg eftir þessi veikindi. Um veturinn hélt hann svo suður og ætlaði að hafa ofan af fyrir sér með kennslu og ritstörfum, en í Reykjavík tóku veikindin sig upp aftur og hann lá rúmfastur lungann úr vetrinum.
Næsta sumar tóku þeir félagar svo upp þráðinn aftur og fóru víða. Danirnir héldu svo aftur heim þegar nær dró vetri, en Jónas varð eftir og hafði vetursetu í Reykjavík. Vann hann mikið að ritgerðum um náttúrufræði, þýddi stjörnufræði úr dönsku og lauk við Hulduljóð. Sumarið eftir fékk hann aftur styrk og hélt rannsóknum sínum um landið áfram. Haustið 1841 heldur hann svo aftur til Reykjavíkur til að reyna að ljúka við rannsóknir sínar fyrir Íslandslýsinguna, en var þá orðinn talsvert skuldugur, enda segir hann í bréfi til Finns Magnússonar á þessum tíma: ,,Þegar þér fréttið næst af mér, verð ég dauður úr sulti." Fyrir tilstilli Steenstrups, Finns og fleiri fékk Jónas þennan vetur styrk til að greiða skuldir og kosta lokaáfangann. Þá bauð Bókmenntafélagið honum 200 dala þóknun árið eftir ef hann kæmi til Kaupmannahafnar og lyki við Íslandslýsinguna. Dugði það honum til að ljúka við síðasta áfangann að rannsóknum sínum þennan síðasta vetur á Íslandi.
Síðustu þrjú árin (1842 - 1845) bjó Jónas í Danmörku. Fyrsta veturinn vann hann hörðum höndum að Íslandslýsingunni, auk þess sem hann reyndi að glæða Fjölni nýju lífi. Hafði hann á þessum árum næstum engar tekjur aðrar en það sem Bókmenntafélagið greiddi honum og hrukku þær skammt. Þó rofaði til hjá honum veturinn 1843 - 1844, þegar Steenstrup bauð honum til sín, en hann var þá orðinn kennari í Sórey. Vildi hann að þeir ynnu saman úr rannsóknum þeim er þeir höfðu unnið á Íslandi. Virðist Jónas sjaldan eða aldrei hafa búið jafnvel og þar, en um vorið 1844 er Steenstrup kallaður til að fylgja Friðriki ríkisarfa Danmerkur í ferð til Færeyja og Skotlands og Jónas heldur aftur til Kaupmannahafnar. Þetta síðasta ár Jónasar var honum erfitt og það kveður við nokkuð þunglyndislegan tón í kvæðum hans frá þessum tíma.
Það er svo hinn 20. maí 1845 að Jónas er á leið heim til sín seint um kvöld að hann dettur í stiganum í húsi því sem hann bjó í og brotnaði fóturinn fyrir ofan ökklann. Gerði hann ekki vart við sig, heldur staulaðist af sjálfsdáðum upp á þriðju hæð þar sem hann bjó og lagðist í öllum fötunum upp í rúm þar sem hann lá fram til morguns. ,,Sagðist hann ekki hafa viljað ónáða menn, því að hann vissi, að hann gæti ekki lifað" (11).
Morguninn eftir er hann svo fluttur á Friðriksspítala þar sem hann lá í fjóra daga og bar sig að sögn ágætlega. Var hann að lesa í bók meðan bundið var um beinbrotið, sem var svo hrikalegt að brotin stóðu út úr fætinum. ,,Á fjórða degi kom drep í fótinn, og sá læknirinn það um kvöldið, en geymdi þó til morguns að taka fótinn af. Jónas vissi, hvað verða átti, og brá sér hvergi, en bað, að ljós væri látið loga hjá sér, og var að lesa alla nóttina skemmtisögu eftir Marryat, sem heitir Jakob Ærlig (ærlegur). Nokkru eftir miðjan morgun bað hann um tevatn, og drakk það, sem ekkert væri að. En rétt á eftir fékk hann sinadrátt, og var þegar örendur. Það var 26. dag maímánaðar, og var Jónas þá á 38. ári. 31. maí var hann jarðaður í Assistentkirkjugarðinum. Glaða sólskin var á meðan, og flest allir Íslendingar, sem voru í Kaupmannahöfn, stóðu yfir moldum hans, og Íslendingar báru hann til grafar. Bókmenntafélagið kostaði útförina" (12). Seinna voru líkamsleifar hans fluttar til Íslands og nú hvílir hann í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum við hlið Einars Benediktssonar.
Skáldið
,,Sem skáld er Jónas í sínu innsta eðli náttúruskáld (natúralisti). Hin ytri náttúra, landið með dölum sínum og fjöllum, ám og blómum, er tíðast yrkisefni hans, efnið í samlíkingum hans og umgerð hugsana hans. Hann elskaði allt fagurt form, - fagurt og náttúrlegt mál og fallandi stuðla, eins og fagrar hlíðar og fagran hljóm í ám, og þess vegna er mál hans svo lipurt og létt, að hann er í því jafnfjarri öfgum og ósönnum og ónáttúrlegum myndum eins og í hugsunum sínum. Mál sitt sækir hann í hjörtu þjóðarinnar, skáldskapinn tekur hann úr náttúrufegurð landsins" (13).
Áður en Jónas hélt utan til náms varð hann fyrir miklum áhrifum frá kvæðum Bjarna Thorarensens, sem sótti form og efni aftur til fortíðarinnar. Í Kaupmannahöfn verður hann aftur á móti fyrir djúpstæðum áhrifum frá þýskum skáldum og þá sérstaklega Heinrich Heine, en Jónas þýddi nokkur ljóða hans, sbr. Stóð ég úti í tunglsljósi.
Þá var Jónas brautryðjandi í mörgum greinum bókmennta og lista. Það má í raun segja að hann sé einn fyrsti alvöru bókmenntagagnrýnandinn þegar hann kveður upp áfellisdóminn yfir rímnakveðskapnum í Fjölni. Þá má líka segja að Grasaferðin sé fyrsta nútímasmásagan á íslensku. ,,Gamanbréfið um ferð Englandsdrottningar á fund Frakkakonungs, Klauflaxinn, sögubrot um bandingjana á Þingvöllum, Fífill og hunangsfluga og fáeinar hálffrumsamdar og hálfþýddar smásögur mynda grundvöll að skáldsagnagerð Íslendinga eftir daga Jónasar" (14). Hefur því verið haldið fram að með þessum frumdrögum hafi Jónas hafið nýtt landnám í íslenskum bókmenntum.
(1) Tómas Guðmundsson bls. XIV.
(2) Tómas Guðmundsson bls. XV.
(3) Jónas Jónsson bls. 149.
(4) Tómas Guðmundsson bls. XIX.
(5) Jónas Jónsson bls. 151.
(6) Jónas Jónsson bls. 153.
(7) Jónas Jónsson bls. 152.
(8) Jónas Jónsson bls. 154.
(9) Jónas Jónsson bls. 156.
(10) Jónas Jónsson bls. 158.
(11) Hannes Hafstein bls. 329.
(12) Hannes Hafstein bls. 329-330.
(13) Hannes Hafstein bls. 302.
(14) Jónas Jónsson bls. 172.