Júlíana Jónsdóttir

Júlíana Jónsdóttir fæddist á Íslandi 27. mars árið 1838, en lést í Bandaríkjunum 12. júní árið 1917.  Mun hún hafa flutt vestur um haf  einhvern tíma á níunda áratug 19. aldar og búið þar síðustu þrjátíu árin eða svo.  Eftir Júlíönu komu út tvær ljóðabækur. Sú fyrri hét einfaldlega Stúlka og var gefin út á Akureyri árið 1876. Mun sú bók hafa verið fyrsta ljóðabók sem gefin var út eftir konu á Íslandi.  

Seinni bókin fékk nafnið Hagalagðar og var gefin út í Winnipeg árið 1916. Í Íslenskum æviskrám segir að Júlíana hafi verið laundóttir Jóns Sigurðssonar vinnumanns í Fjarðarhorni í Hrútafirði og Guðrúnar Samsonardóttur bónda að Rauðsgili Jónssonar. Ólst hún upp með móðurföður sínum í Rauðsgili. Júlíana var lengi vinnukona hjá séra Friðriki Eggerz í Akureyjum, enda kennir hún sig við Akureyjar í fyrri bók sinni. Síðar hélt hún til Vesturheims og andaðist þar ógift árið 1917.

Ljóð Júlíönu byggja einkum á rímnahefðinni, en einnig bregður hún fyrir sig annars konar bragarháttum svo sem fornyrðislagi.  Júlíana hefur verið vel lesin, og hún sækir orð og kenningar langt að og stundum allt aftur til sögualdar.   
Eins og gefur að skilja með svo gamla bók, þá er stafsetningin önnur en í dag, tekin var sú ákvörðun að láta hana halda sér óbreytta, enda hefur bókin mikið sögulegt heimildagildi. 

Hægt er að kynna sér ævi og verk Júlíönu betur í bók Guðrúnar P. Helgadóttur, Brautryðjandinn, sem kom út árið 1997.