Mark Twain
Mark Twain eða Samuel Langhorn Clemens eins og hann hét réttu nafni vann sér almenna hylli með bókum eins og Tom Sawyer og Huckleberry Finn og þrátt fyrir að bækur hans endurspegli fyrst og fremst eigin uppruna hafa þær fundið samhljóm hjá börnum og fullorðnum út um allan heim og gera enn í dag. Til marks um áhrif hans á bandarískar bókmenntir sagði Ernest Hemingway: "Allar bandarískar nútímabókmenntir byggja á einni bók eftir Mark Twain og það er bókin Huckleberry Finn."
Samuel fæddist 30. nóvember árið 1835 í Flórida, þar sem faðir hans var kaupmaður. Var hann sjötti í röð sjö barna foreldra sinna, en af þeim sjö komust þó einungis þrjú á fullorðinsaldur.
Þegar Samuel var fjögurra ára gamall flutti fjölskyldan til bæjarins Hannibal við bakka Mississippi fljóts, en sá bær er fyrirmyndin af bænum Sánkti Pétursborg þar sem sögurnar um Tom Sawyer og Stikilsberja-Finn gerast. Þrælahald tíðkaðist á þessum tíma í Missouri og Samuel ólst upp með því og átti síðar eftir að skrifa töluvert um það.
Þegar Samuel var ellefu ára gamall lést faðir hans úr lungnabólgu og hann þurfti þá að leggja sitt af mörkum til heimilisins og ala önn fyrir sjálfum sér. Hóf hann störf sem lærlingur hjá prentara. Árið 1851 fór hann svo að setja texta og fljótlega upp úr því fór hann að skrifa greinar og húmorískar lýsingar í blaðið The Hannibal Journal, sem var í eigu bróður hans Orions.
Átján ára gamall yfirgaf hann uppeldisstöðvarnar í Hannibal. Næstu fjögur árin var hann á faraldsfæti og ferðaðist á milli staða og starfaði sem prentari. Láu leiðir hans m.a. til New York, Philadelphiu, St. Louis og Cincinnati.
Fjórum árum síðar sneri hann aftur til Missouri. Hafði lengi blundað með honum sá draumur að stýra fljótabát og nú ákvað hann að láta reyna á það, enda var það vel launað starf þó það væri bæði hættulegt og erfitt. Til að geta orðið stýrimaður á slíkum bát varð hann að eyða tveimur árum í að kynna sér Mississippi fljótið frá ósum og upp úr; þekkja hverja einustu hindrun og bugðu sem í ánni var.
Meðan á þessu stóð sannfærði hann yngri bróður sinn Henry til að koma og vinna á slíkum bát. Fyrir þrákelkni Samuels lét Henry tilleiðast, en það fékk hörmulegan endi, því Henry lést árið 1858 þegar báturinn sem hann var á sprakk í loft upp. Tók Samuel sér það mjög nærri og ól með sér sektarkennd út af því alla ævi.
Réttindi til að stýra gufubát fékk Samuel svo 1859, ári eftir slysið, og starfaði við það fram til þess að þrælastríðið braust út árið 1861, en þá lögðust ferðir fljótabátanna af um tíma.
Missouri fylkið leyfði á þessum tíma þrælahald og var talið fylgja Suðurríkjunum að málum þrátt fyrir að það gengi ekki í samtök þeirra. Í upphafi stríðsins stofnaði Samuel liðsveit ásamt með nokkrum vinum sínum til að berjast með Suðurríkjunum. Ekki stóð það lengi, því eftir fyrsta bardagann sem hann lenti í, þar sem einn maður dó, gerði hann sér grein fyrir að hann gæti ekki tekið þátt í slíku og hljópst undan merkjum. Er sagan The Private History of a Campaign that Failed byggð á þessu ævintýri.
Hélt hann þá til Nevada ásamt Orion bróður sínum. Tóku þeir bræður sér tveggja vikna ferð á hendur með hestvagni til að komast þangað. Varð sú ferð kveikjan að mörgum sögum, s.s. í bókinni Roughing It og The Celebrated Jumping Frog of Calveras County.
Ferð sína endaði Samuel í Virginíuborg í Nevada þar sem hann reyndi fyrir sér sem gulleitarmaður. Hafði hann ekkert upp úr því og fékk á endanum vinnu við dagblað þar, The Territorial Enterprise.
Skömmu síðar ferðaðist hann til San Francisco í Kaliforníu og vann við blaðamennsku auk þess sem hann tók til við að flytja fyrirlestra. Þar kynntist hann öðrum höfundum, s.s. Bret Harte.
Árið 1867 fór hann sem fréttaritari til Hawaii á fljótabát. Pistlar hans úr þeirri ferð vöktu töluverða athygli fyrir hnyttni og varð úr að hann fór í svipaða ferð til Evrópu. Voru fréttir hans úr þeirri ferð síðar gefnar út undir nafninu The Innocents Abroad. Þá kynntist hann manni að nafni Charles Langdon, en sá sýndi honum ljósmynd af systur sinni Ólivíu. Eftir því sem Samuel hélt fram síðar þá var það ást við fyrstu sýn, því um leið og hann sá myndina var hann ákveðinn að Ólivía skyldi verða konan hans.
Þau kynntust svo "fyrir alvöru" árið 1868 og giftust tveimur árum síðar. Hófu þau búskap í Hartford Connecticut árið 1871 og eignuðust son sem lést 19 mánaða úr barnaveiki. Síðan eignuðust þau þrjár dætur. Voru þau gift í þrjátíu og fjögur ár eða þangað til Ólivía lést árið 1904.
Eftir að Samuel stofnaði til fjölskyldi má segja að hann hafi nánast einungis lifað á fyrirlestrum og skriftum og naut innan tíðar almennrar hylli. Leið varla ár að ekki kom út ný bók eftir hann. Árið 1906 hóf hann að gefa út sjálfsævisögu sína í The North American Review og ári síðar gerði Háskólinn í Oxford hann að heiðursdoktor við skólann. Hann lést árið 1910 úr hjartaveiki.
Þrátt fyrir að hafa notið ómældrar velgengni sem rithöfundur og fyrirlesari um æfina var lífið ekki alltaf dans á rósum hjá Mark Twain. Lenti hann um tíma í töluverðum fjárhagserfiðleikum eftir að hafa fjárfest óskynsamlega og lagt fé í alls kyns nýjar uppfinningar sem ekki urðu að veruleika. Auk þess fór hann sjálfur út í útgáfustarfsemi sem endaði með ósköpum. Gekk það þó vel framan af, er hann gaf út Minningar Ulysses S. Grant, en svo fékk hann þá flugu í höfuðið að gefa út ævi páfans og fór flatt á því.
Þegar útlitið var sem svartast fékk hann hjálp úr óvæntri átt. Þannig var að sá sem hafði fyrst farið með kröfu á hendur honum var maður að nafni Henry H. Rogers. Þegar Rogers áttaði sig hve útlitið var svart fyrir Twain ákvað hann að taka yfir fjármál hans og koma hlutunum í rétt horf. Varð það að ráði á endanum að Twain var lýstur gjaldþrota og þar með féllu allar skuldir hans ómerkar.
Þó að Twain samþykkti þetta örþrifaráð var hann engan veginn sáttur við það og í kjölfarið hélt hann í fyrirlestraferð út um allan heim og náði á endanum að öngla saman nægu fé til að greiða allar skuldir sínar þó svo að honum bæri engin skylda til þess eftir gjaldþrotið.
Vinátta hans og Rogers entist meðan báðir lifðu og skrifuðust þeir töluvert á, en bréfasamskiptin milli þeirra voru gefin út eftir lát þeirra beggja og þykir gefa góða mynd af manninum Samuel Clemens, enda var vinskapur þeirra það náinn að einlægnin fær að njóta sín í bréfunum.
Annað sem hafði djúp áhrif á Twain á efri árum var lát tveggja dætra hans og konu hans Ólivíu. Einkum tók hann nærri sér er dóttir hans Suzy dó úr heilahimnabólgu árið 1893. Var hún honum mjög kær. Átti hann mjög erfitt í kjölfar þess, og lagðist í djúpt þunglyndi um tíma. Þegar kona hans dó árið 1904 jók það á depurð hans og svo þegar Jean dóttir hans dó 24. desember árið 1909, féll honum allur ketill í eld.
En hvað sem persónulegum áföllum leið átti hann síðustu árin hug og hjarta almennings í Bandaríkjunum og ef að fréttist af honum einhvers staðar, þá streymdi að múgur og margmenni til þess eins að bera hann augum. Eitt sinn er hann var beðinn um að halda opinbera ræðu dreif þar að fjölda manns og þurfti hann að bíða í meira en tíu mínútur áður en hann gæti hafið ræðuna vegna fagnaðarláta.
Sjálfur dó Twain úr hjartaveiki 21. apríl árið 1910. Var hann jarðsettur í fjölskyldugrafreitnum í Elmira, New York.
Til er skemmtileg saga er tengist dauða Twains, en árið 1909 var haft eftir Twain að hann hefði komið í þennan heim með Halley halastjörnunni árið 1835 og að hann mundi hverfa á brott með henni næst þegar hún kæmi sem yrði árið 1910. ,,Það yrðu mér mikil vonbrigði ef ég hverf ekki með henni. Almættið hefur sennilega sagt við sjálfan sig: Hér eru tvö óútskýranleg furðufyrirbæri sem áttu samleið hingað og skulu því einnig hverfa héðan saman." Stóð það heima.
Twain byrjaði snemma að skrifa í blöð og tímarit, en fyrsta verkið sem eitthvað kvað að var sagan The Celebrated Jumping Frog of Calaveras sem birtist í New York Saturday Press árið 1865. Vakti sagan nokkra athygli og í kjölfarið var Twain beðinn um að skrifa ferðapistla í blaðið Sacramento Union. Vöktu þeir pistlar aukna athygli, einkum vegna þess hve fyndnir þeir voru og voru þeir skömmu síðar ásamt með fleiri pistlum teknir saman í bók sem hlaut nokkrar vinsældir.
Árið 1872 gaf Twain út aðra bók með ferðasögum Roughing It sem unnar voru upp úr ferðalagi hans með bróður sínum til Nevada. Þóttu ferðapistlar hans gefa óvenjulega innsýn í amerískt samfélag.
Þá var röðin komin að fyrstu eiginlegu skáldsögunni The Gilded Age: A Tale of Today. Twain var þó ekki einn höfundur hennar því hann samdi hana með Charles Dudley Warner.
Næstu verk Twains byggðu á reynslu hans við Mississippi fljótið. Árið 1876 kom út sagan um Tom Sawyer en hana byggði Twain á eigin reynslu sem unglings í Hannibal. Í sögunni kynnti hann einnig til sögunnar Stikilsberja-Finn, sem kannski er hans þekktasta persóna.
Gaf hann út jöfnum höndum eftir það, skáldverk, ritgerðir og ferðapistla, en þekktustu verk hans eru: The Prince and the Pauper (Prinsinn og betlarinn) (1882), Adventures of Huckleberry Finn (Stikilsberja-Finnur) (1884), A Connecticut Yankee in King Arthur's Court og The 1000.000 Pound Banknote and Other Stories (1893).
Með útgáfu sögunnar um Stikilsberja-Finn má segja að Twain hafi náð að festa sig í sessi sem vinsælasti höfundur Bandaríkja sinnar samtíðar og enn þann dag í dag er hann talinn amerískastur allra höfunda. Hafði hann byrjað á henni nokkrum árum fyrr en einhvern veginn ekki fundið rétta tóninn þá og skrifaði t.a.m. söguna Prinsinn og betlarinn í millitíðinni. Þegar Stikilsberja-Finnur kom út var henni tekið sem engri annarri skáldsögu hafði áður verið tekið í Bandaríkjunum.
Þó svo að sögur Twains, einkum á fyrri hluta ævinnar, búi yfir ákveðnum léttleika og séu öðrum þræði hreinar ævintýrasögur, er þar venjulega að finna alvarlegri undirtón. Í Stikilsberja-Finni koma t.a.m. þrælar fyrir sem á þeim tíma var ekki venjulegt og þar að auki koma fram hugleiðingar um stöðu þeirra. Voru viðhorf hans nokkuð róttæk miðað við tímann sem hann skrifaði þau inn í, þó svo að í dag mundi mönnum þykja höfundurinn nokkuð fordómafullur. Hefur sú skoðun jafnvel orðið ofan á hjá sumum að vilja banna bókina vegna fordóma. Gekk það einu sinni svo langt að bókasafn í Virginíu í Massachusetts lét verða af því að úthýsa bókinni með viðeigandi yfirlýsingu. Þegar Twain frétti það sendi hann útgefanda sínu bréf þar sem hann sagði m.a.: ,,Þeir hafa nú úthýst Finni litla sem úrhraki úr bókasafninu og sagt að hann eigi ekki heima í sómasamlegu umhverfi; ég er viss um að þetta selur 25.000 eintök til viðbótar."
En í sambandi við viðhorf hann til þrælahalds þá barðist hann alla tíð fyrir auknum réttindum blökkumanna og er rétt að vitna í hans eigin orð: "I have no race prejudices... All that I care to know is that a man is a human being - that is enough for me; he can't be any worse."
Hann var líka duglegur við að gagnrýna ríkjandi stjórnarfar og þar er hann hvað beinskeyttastur í sögunni A Connecticut Yankee in King Arthur's Court.
Heimsvaldastefna Evrópuþjóða og annarra var honum þyrnir í augum. Einnig gagnrýndi hann opinber trúfélög töluvert og vildi meina að þar réði hræsnin oft ríkjum.
Annars má segja að Twain hafi haft skoðanir á flestu milli himins og jarðar. Það má m.a. annars sjá af óteljandi fjölda ritgerða sem hann skrifaði um hin ýmsu mál. Það sem hvað helst einkennir öll hans skrif er gagnrýnin á allt sem skerðir frelsi einstaklingsins. Þá vildi hann bæta almenna menntun og sjá til þess að allir hefðu jafnt aðgengi að grunnmenntun óháð litarhætti og þjóðfélagsstöðu. Undir það síðasta beindust skrif hans gjarnan að öllu því andstyggilega sem mennirnir og stjórnvöld aðhöfðust.
Það vakti nokkra athygli að Twain var grænmetisæta, enda mjög óvenjuleg afstaða á þeim tíma. Þá barðist hann hatrammlega gegn því að nota lifandi skepnur til rannsókna. Vildi hann meina að ekki mætti gera neitt sem veldi annarri skepnu kvölum nema með hennar samþykki. Það skipti engu þó það væri gert í þágu læknavísinda.
Það hefur verið skoðun margra að Twain hafi staðið á hátindi sem rithöfundur fyrir árið 1893 og að öll hans bestu verk séu skrifuð fyrir þann tíma. Setja menn það gjarnan í samband við lát dóttur hans það ár. Víst er að fráfall hennar gekk mjög nærri honum, og skrif hans breyttust í kjölfarið. Spaugsemin sem hafði verið svo stór hluti af skrifum hans hvarf að nokkru og allur andinn í verkunum varð þyngri. Aðrir vilja meina að þrátt fyrir þessa breytingu þá séu skrif hans eftir 1893 engu síðri, þau séu bara öðruvísi.
Sjálfur taldi Twain sig frekar vera ágætan greinahöfund en að hann væri góður höfundur skáldsagna. Þrátt fyrir að skáldsögur hans næðu slíkum vinsældum sem raun bar vitni bakkaði hann aldrei með þessa skoðun sína.
Eitt af því sem mönnum þótti Twain takast hvað best upp með í sögum sínum var hvernig hann skrifaði samtöl. Voru þau mjög raunveruleg og byggðu á framburði. Það var einkum í gegnum samtölin sem persónur hans öðluðust líf og sín sérstöku persónueinkenni.
Síðasta verk Twains sem hann náði ekki að ljúka var sjálfsævisaga.
Eins og sagt var í upphafi hét Mark Twain með réttu Samuel Langhorn Clemens en flestir þekkja hann einungis sem Mark Twain. Reyndar notaðist hann einnig við önnur pennanöfn um ævina, en fram til 1863 merkti hann greinar sínar nafninu Josh. Þá notaðist hann stundum við nafnið Thomas Jefferson Snodgrass. Nafnið Mark Twain fékk hann að eigin sögn að láni frá skipstjóra einum sem hann kynntist er hann var sjálfur að læra að verða skipstjóri á fljótabátum. Þannig var að stöðugt þurfti að mæla dýpt vatnsins í ánni og var það gert með þar til gerðri snúru. Ef dýpið var yfir tvo faðma æpti sá sem mældi "mark twain" sem merkti þá að allt væri í lagi því dýpið væri tveir faðmar eða meira. Twain er forn orðmynd af tölunni tveir og mark merkir viðmið. Umræddur skipstjóri Isaiah Sellers hafði víst haft þann sið að skrá hjá sér í skipstjórnarbókina ýmsar gagnlegar upplýsingar um ána og aðrar uppákomur og sendi áfram til einhvers héraðsblaðs. Merkti hann greinarnar með undirskriftinni mark twain.
Ýmsar fyndnar frásagnir eru til Mark Twain sem gjarnan sá spaugilegu hliðarnar á því sem kom fyrir hann. Árið 1897 fékk sá orðrómur byr undir báða vængi að Mark Twain væri dáinn. Um leið og hann heyrði það skrifaði hann stutta grein í blöðin þar sem hann lýsti því yfir að ,,fréttirnar af andláti hans væru orðum auknar".
Í annað sinn er hann hafði fengið far með snekkju vinar síns Henry Rogers og kom ekki á tilsettum tíma til New York, varð sá orðrómur uppi að snekkjan hefði sokkið með allri áhöfn. Gekk það svo langt að dagblöðin voru farin að skrifa um þetta. Þegar Twain kom svo á snekkjunni nokkrum dögum síðar til New York og frétti af þessu skrifaði hann grein sem hann sendi í blöðin þar sem hann sagði m.a.: ,,Ég mun gera ítarlega rannsókn á þessu hvort ég hafi lent í hafvillum og drukknað. Ef það reynist vera rétt, þá mun ég við fyrsta hentuga tækifæri gera almenningi grein fyrir því."
Margar tilvitnanir í fleyg orð Mark Twains hafa gengið á milli manna í gegnum tíðina og látum við hér fljóta með tvær þeirra sem sýna ágætlega afstöðu hans til tilverunnar:
"I believe that our Heavenly Father invented man because he was disappointed in the monkey."
"If men neglected 'God's poor' and 'God's stricken and helpless ones' as He does, what would become of them? The answer is to be found in those dark lands where man follows His example and turns his indifference back upon them: they get no help at all; they cry, and plead and pray in vain, they linger and suffer, and miserably die"(úr 'Thoughts of God').
Heimildir:
Vefsíðan Wikipedia: http://en.wikipedia.org/wiki/Mark_Twain
Vefsíða: Mark Twain in his time: http://etext.virginia.edu/railton/index2.html