Ralph Waldo Emerson
Ralph Waldo Emerson var bandarískur rithöfundur, skáld, fyrirlesari og heimspekingur, sem var í forsvari fyrir bandarískum forskilvithyggjusinnum um miðja 19. öld. Hann miðlaði skoðunum sínum til almennings í gegnum fjölda ritgerða og yfir 1500 fyrirlestra sem hann hélt um gjörvöll Bandaríkin.
Emerson skrifaði um ýmis efni, þar á meðal einstaklingshyggju, frelsi, getu mannsins til að framkvæma nánast hvað sem er, og samband sálarinnar við umhverfið. Hann var einn af lykilmönnum rómantísku stefnunnar í Bandaríkjunum og verk hans höfðu geysimikil áhrif á ýmsa hugsuði, rithöfunda og skáld sem fetuðu í fótspor hans.