Thomas Hardy
Einn vinsælasti enski höfundurinn um aldamótin 1900 var Thomas Hardy. Best er hann þekktur fyrir skáldsögur sínar sem voru skrifaðar í raunsæjum stíl og fjölluðu um ástir og örlög venjulegs fólks til sveita. Hafa sögur hans lifað ágætu lífi fram á daginn í dag og fundið sér farveg í kvikmyndum og vinsælum sjónvarpsþáttum. Af þekktum sögum eftir hann má nefna Tess of the d'Urbervilles, Jude the Obscure og The Mayor of Casterbridge.
Thomas Hardy fæddist í Dorset 2. júní 1840. Foreldar hans voru Thomas eldri, byggingarverktaki og steinsmiður þar í sveit, og kona hans Jemima. Hardy gekk í skóla í sinni heimabyggð og naut þar kennslu Juliu Martin sem var honum góð og tengdust þau vináttuböndum sem héldust alla ævi. Er hún talin hafa átt stóran þátt í því að hann lagði út á ritvöllinn. Þá lagði móðir hans sem var bæði vel lesin og metnaðargjörn fyrir hönd sonar síns, sitt af mörkum til að fræða son sinn.
Þegar Hardy varð 16 ára var honum komið sem lærlingi hjá John Hicks, arkitekti í héraðinu. Dvaldi hann hjá honum þar til hann var tuttugu og tveggja ára og lauk tilskildum réttindum í greininni. Á þessum árum kynntist hann skáldinu og prestinum William Barnes og urðu þeir miklir vinir. Einnig kynntist öðru skáldi, Horace Moule, og má ætla að þeir hafi átt þátt í vekja hjá honum löngun til að fara að skrifa.
Í iðnnámi sínu kynntist hann mörgum og deildi kjörum með fólki af ólíkum stéttum, fólkinu sem síðar varð uppistaðan í mörgum verka hans. Þá lék hann á fiðlu í héraðshljómsveitinni undir stjórn föður síns. Hefur sú reynsla verið honum dýrmæt þegar hann samdi söguna Under the Greenwood Tree. Á þessum árum vaknaði líka líka áhugi hans á þjóðfræði og þjóðsögum.
Að loknu námi árið 1862 hélt hann til London, þar sem hann hóf störf við virta arkitektúrstofu. Þó svo að London hafi ekki beint heillað hann var þar margt forvitnilegt að sjá og kynnast, ekki síst allir þeir listviðburðir sem hann sótti af kappi. Í London hóf hann líka að skrifa fyrir alvöru og sendi töluvert af ljóðum í blöð en var venjulega synjað um birtingu. Og þá sló hann heldur ekki slöku við í starfi sínu, því hann vann til nokkurra verðlauna fyrir sköpunarverk sín á því sviði. Eitt af því sem hrjáði hann þó í London var almennt heilsuleysi, og svo virðist sem reynsla hans þar hafi eitthvað skekið grunninn í barnatrú hans, en fram að því hafði hann verið mjög trúaður.
Eftir fimm ára dvöl í London sneri Hardy aftur á heimaslóðir og fór að vinna fyrir Hicks, sem hann hafði lært hjá. Það er þá sem hann lýkur við fyrstu sögu sína, The Poor Man and the Lady. Ekki hlaut hún náð fyrir augum útgefenda og Hardy fleygði henni. Vinur Hardys George Meredith, sem var yfirlesari hjá útgefanda og hafði m.a. átt þátt í að fyrstu sögu Hardys var hafnað hvatti hann til að gefast ekki upp, heldur reyna aftur. Fjórum árum síðar var Hardy tilbúinn með aðra bók, Desperate Remedies og fékk hana útgefna (1871). Vann hann þá enn á arkitektúrstofunni sem Hicks hafði stýrt, nema hvað nú var Hicks látinn og annar tekinn við af honum.
Á þessum tíma var hann sendur til að taka út kirkju í Cornwall á vegum vinnunnar og í þeirri ferð kynntist hann fyrri konu sinni, Emmu Lavinia Gofford sem hann giftist árið 1874.
Desperate Remedies var vel tekið og Hardy hélt áfram á sömu braut og rak hver sagan aðra. Fyrst, Under the Greenwood Tree (1872), A Pair of Blue Eyes (1873), Far from the Madding Crowd (1874). Varð sú síðastnefnda mjög vinsæl og gerði Hardy mögulegt að giftast eins og áður sagði.
Næst kom sagan The Hand of Ethelberta (1876), The Return of the Native (1878), The Trumpet Major (1880) og A Laodician (1881). Höfðu þau hjónin þennan tíma búið á mörgum stöðum, m.a. í London, en hvergi fest yndi. Hjónabandið gekk oft á tíðum illa.
The Mayor of Casterbridge kom svo út árið 1886, The Woodlanders (1887), smásagnasafnið Wessex Tales (1888), Tess of the d'Urbervilles (1891) og Jude the Obscure (1895). Er þó hreint ekki allt upp talið.
Eftir 1896 hætti Hardy nánast að skrifa sögur, em fór í auknum mæli að einbeita sér að ljóðagerð. Kom fyrsta ljóðakverið út árið 1898 og nefndist The Wessex Poems og var samantekt á ljóðum sem hann hafði skrifað síðustu 30 ár. Eftir það einbeitti hann sér einkum að ljóðum og gaf út bækur 1901, 1904, 1906, 1908, 1909, 1914, 1919, 1922 og 1925.
Árið 1910 var honum veitt viðurkenning (Order of Merit) fyrir framlag sitt til bókmennta.
Kona Hardys lést árið 1912 höfðu þau þá verið aðskilin um tíma. Þrátt fyrir það tók hann lát hennar mjög nærri sér og í kjölfarið orti hann ljóðabálk þar sem hann tekst á við sorgina sem hann fann við missinn. Tveimur árum síðar, 1914, giftist hann svo ritara sínum, Florence Dugdale.
Hardy veiktist af brjósthimnubólgu í desember 1927 og lést af hennar völdum í janúar árið eftir. Trúr köllun sinni orti hann síðasta ljóðið á andlátsbeðinu til konu sinnar. Þegar kom að því að jarðsetja hann voru menn ekki á eitt sáttir. Fjölskylda hans og vinir vildu að hann yrði grafinn í Stinsford en skiptaráðandi dánarbúsins vildi að legstaður hans yrði í ljóðskáldahorninu (Poet's Corner) Var ákveðið að fara millileið, þ.e. hjarta hans var grafið í Stinsford, en askan af líkamanum í Ljóðskáldahorninu.
Rithöfundurinn Thomas Hardy
Skipta má skrifum Hardys í tvennt. Annars vegar skáldsögurnar, sem hann er þekktastur fyrir og smásögurnar, og hins vegar ljóðin.
Sögurnar, hvort heldur skáldsögurnar eða smásögurnar, eru í flestum tilfellum sprottnar upp úr umhverfi höfundarins. Gerast þær gjarnan í héraðinu Wessex, og byggja á raunverulegu umhverfi og ímynduðu tilbúnu umhverfi. Nafnið Wessex var þó ekki til meðan Hardy var á lífi en nafnið sækir hann til þess tíma þegar Engilsaxar réðu ríkjum á svæðinu þar sem nú eru héruðin Berkshire, Devon, Dorset, Hampshire, Somerset og Wiltshire.
Innri tími sagnanna eða tíminn sem þær eru látnar gerast á, er venjulega tíminn skömmu fyrir iðnbyltinguna, áður en járnbrautir urðu aðal samgöngutækin.
Efniviðurinn eru ástir og örlög venjulegs fólks til sveita og það verður að segjast eins og er að oft er eins og hann leiti uppi heldur ill örlög fyrir persónur sínar.
Það er fyrst með útkomu bókarinnar Far from the Maddening Crowd (1874) að Hardy öðlast almennar vinsældir. Þá fyrst fara skrifin að gefa nægilega mikið af sér til að hann geti leyft sér að hætta að starfa sem arkitekt og snúa sér alfarið að ritstörfum.
Í kjölfarið einbeitti hann sér að skáldsagnagerð og skrifaði smásögur inn á milli. Um aldamótin 1900 er Hardy orðinn einn vinsælasti enski rithöfundurinn í ákveðnum hópi, en að sama skapi fara gagnrýnendur þá að verða óvægnari í umfjöllun sinni sem og ákveðnir hópar almennings.
Þóttu bækur hans djarfar og skoðanir hans voru byltingakenndar og djarfar og fannst sumum hann ganga of langt í því. Eins og t.a.m. þegar hann lýsir kjörum og lífi syndugra kvenna og sýnir þeim nokkra samúð, sbr. Tess of the d'Urbevilles. Í sögunni Jude the Obscure þótti hann fjalla á heldur hispurslausan hátt um kynlíf og draga upp neikvæða mynd af hjónabandi. Stóð það mikill styr um þessa léttúð hans að bóksalar áttu það til að selja bókina í brúnum bréfpokum til að vekja ekki athygli á henni. Þá munu einhverjir hafa kveikt í henni í mótmælaskyni.
Einnig þótti hann nokkuð gagnrýninn á kirkjuna, þó svo að sú gagnrýni sé aldrei færð í orð með beinum hætti. Það var fremur hvernig hann fjallaði rækilega um stranga siði kirkjunnar og stofnanalegar venjur að fólk fann fyrir andúð hans á henni. Guð sjálfur virðist aldrei vera neins staðar nálægur þegar hann fjallar um trú.
Eitt af einkennum Hardys var hve mikla áherslu hann gat lagt á ákveðin smáatriði og verið nákvæmur í lýsingum sínum. Ljær þetta sögum hans ákveðið yfirbragð og gefur þeim oft á tíðum aukna dýpt, en að sama skapi getur það gert þær þyngri aflestrar og langdregnari.
Annað einkenni, ekki síður mikilvægt , er hve nákvæmur hann gat orðið á köflum. Oft notaði hann atburði úr raunverulegu lífi inn í sögur sínar og notaðist við raunverulegar heimildir. Eins og t.a.m. þegar hann lætur persónu (little Jude) skrifa sjálfsmorðsbréf, þá notar hann raunverulegt bréf sem birt hafði verið í blöðum.
Óblíð örlög eru einkennandi í sögum hans; örlög sem söguhetjurnar fá oftast ekki umflúið. Hann birtir okkur smæð mannsins gagnvart að því er virðist tilviljanakenndum þótta örlaganna, eins og strá í vindi.
Meðal höfunda sem sóttu í smiðju Hardys má nefna D. H. Lawrence og Virginiu Wolf.
Hvað ljóð Hardys varðar, þá gaf hann út fyrsta ljóðasafnið árið 1898. Var það safn ljóða er hann hafði skrifað í gegnum tíðina. Var hann þá búinn að missa áhugann á söguforminu, en auk þess vildi hann sjálfur meina að hann hefði alla tíð verið hrifnari af ljóðum. Hélt hann áfram að gefa út ljóðabækur alveg fram í andlátið.
Ljóðum Hardys var ekki tekið jafn vel og sögum hans og það er fyrst töluvert eftir lát hans að menn fara að skoða þau af einhverri alvöru og viðurkenna þau. Þau þykja samt engan veginn standa jafnfætis sögum hans.
Algengt efni ljóða Hardys er maðurinn sem leiksoppur örlaga, rétt eins og í sögunum, auk þess sem hann yrkir um vonbrigði sín með ástina og lífið gegnumsneitt.
Þá orti hann töluvert um það að yrkja. Stíllinn á ljóðum hans er breytilegur og oft stirður eins og hann þurfi of mikið að erfiða við að koma þeim saman. Þegar honum tekst best upp virka þó ljóðin þjál og lipur. Mjög algengt var að hann orti ljóðin í 1. persónu.
Hafa tónskáld gert nokkuð af því að búa til lög við ljóð Hardys og oft með ágætum árangri.