Torfhildur Hólm
Torfhildur Hólm var stórmerkileg kona sem fór ótroðnar slóðir og ruddi brautina fyrir þá sem á eftir komu, og ekki bara kynsystur sínar. Ekki einasta var hún fyrst íslenskra kvenna til að gefa út skáldsögu, heldur var hún fyrsta konan sem hafði atvinnu af ritstörfum almennt. Þá víkkaði hún út íslenska sagnahefð því hún var fyrst allra til að rita sögulegar skáldsögur á Íslensku. Fyrsta bókin til að vekja almenna athygli á Torfhildi var sagan Brynjólfur biskup, en hún kom út árið 1882. Í kjölfarið komu svo sögurnar Elding, sem gerist á landnámsöldinni, og sögurnar af biskupunum Jóni Vídalín og Jóni Arasyni. Hlutu sögur hennar almennt góðar viðtökur meðal almennings.
Torfhildur Hólm fæddist 2. febrúar árið 1845 á Kálfafellsstað í Skaftafellssýslu. Foreldrar hennar voru Þorsteinn Einarsson prestur og Guðríður Torfadóttir. Torfhildur lagði stund á ensku og hannyrðanám í Reykjavík. Hún giftist Jakobi Hólm verslunarstjóra á Hólanesi nyrðra en varð ung ekkja því maður hennar lést eftir eins árs hjónaband. Torfhildur flutti til Vesturheims árið 1876 og fyrsta skáldsaga hennar Tárablómið birtist árið 1879 í vestur-íslenska blaðinu Framfara.
Torfhildur flutti aftur til Íslands árið 1889. Alþingi ákvað að veita henni skáldalaun 500 krónur á ári. Torfhildur var fyrsti Íslendingurinn til að fá listamannalaun. Torfhildur gaf út bókmenntatímaritið Draupnir á árunum 1891 til 1908 og tímaritið Dvöl á árunum 1901 til 1917.
Eins og áður sagði var Torfhildur fyrst allra Íslendinga til að semja sögulegar skáldsögur og lagði hún mikinn metnað í að hafa sögurnar bæði sannsögulegar og að þær gæfu sem réttasta mynd af því tímabili sem hún var að fjalla um hverju sinni. Þá vildi hún koma kristnum gildum á framfæri í sögum sínum,
Var Torfhildi í mun að fylgja sögulegum staðreyndum eins vel og hún gat og tókst þar ágætlega. Á margan hátt er erfitt að skipa sögum Torfhildar í einhvern ákveðinn flokk, og væri helst að segja sögurnar rómantískar á raunsæjan hátt. Ekki hlaut Torfhildur almennt jákvæða umfjöllun gagnrýnenda, en það var þó engan veginn algilt. Á margan hátt eru sögur hennar oft á tíðum stirðlega stílaðar, en þar sem henni tekst best upp er stíllinn þó mjög áferðafallegur og mikilfenglegur. Það má líka til sanns vegar færa að hún hafi skrifað inn í samtíma sinn þar sem almenningur tók sögum hennar vel og voru þær töluvert vinsælar.
Sjá má áhrif frá Torfhildi í verkum Halldórs Laxness Íslandsklukkunni og fyrsta skáldsaga Halldórs var að hans eigin sögn verkið Afturelding sem dregur nafn sitt frá skáldsögu Torfhildar Eldingu. Ein sögupersóna Halldórs ber nafnið Garðar Hólm.
Torfhildur lést 14. nóvember árið 1918.