Virginia Woolf
Virginia Woolf var enskur rithöfundur og einn helsti boðberi módernismans á 20. öld. Nafn hennar fór hátt á árunum milli stríða og var hún á þeim tíma mjög áberandi í bókmenntaumræðunni í London og tilheyrði hinni svokallaðri Bloomsbury klíku, sem samanstóð af mörgum helstu rithöfundum, listamönnum og hugsuðum þess tíma, fólki eins og E. M. Forster, John Maynard Keynes, Lytton Strachey og fleirum. Kunnustu verk hennar eru Mrs. Dalloway (1925), To the Lighthouse (1927), Orlando (1928) og ritgerðin A Room of One's Own sem vakti mikla athygli og var nokkurs konar stefnuyfirlýsing hennar sjálfrar þar sem hún réðst gegn ríkjandi viðhorfum og sérstaklega stöðu kvenna í listaheiminum.
Woolf átti löngum við að stríða andleg veikindi, það sem í dag er gjarnan kallað geðhvarfasýki. Hún drekkti sér árið 1941 einungis 59 ára gömul.
Adeline Virgina Stephen fæddist í Lundúnum 25. janúar 1882. Foreldrar hennar Sir Leslie Stephen og Julia Prinsep Duckworth Stephen höfðu bæði misst maka sína af fyrra hjónabandi og áttu börn fyrir, Julia þrjú börn en Leslie eina stúlku með dóttur hins kunna rithöfundar William Thackeray. Saman áttu þau svo fjögur börn, drengina Thoby Stephen og Adrian Stephen og svo stúlkurnar Virginu og Vanessu.
Faðir hennar, Leslie, var virtur sagnfræðingur, rithöfundur og fjallamaður. Julia, móðir hennar, fæddist á Indlandi en flutti ung með móður sinni til Englands.
Menntun sína hlutu systurnar Vanessa og Virginia heima fyrir eins og tíðkaðist með stúlkur á þeim árum. Þar voru listir í hávegum hafðar og mikil bókaeign sem krakkarnir nýttu sér vel. Það brá skugga á heimilishaldið að dóttir Leslie frá fyrra hjónabandi átti alla tíð við andleg veikindi að stríða og var á endanum komið fyrir á hæli árið 1891.
Það vakti mikla reiði hjá Virginu og Vanessu að bræður þeirra skyldu sendir í skóla meðan þær systur þurftu að húka heima yfir náminu. Voru bræðurnir sendir til Cambridge að læra. Það hjálpaði þó að systkinin voru mjög náin og þær Virginia og Vanessa kynntust mikið af vinum bræðra sinna og drukku í sig helstu mennta- og listastrauma samtímans í gegnum þá. Dvaldi fjölskyldan í London yfir vetrartímann en á sumrin voru þau í St. Ives í Cornwall þar sem fjölskyldan átti sumarhús. Voru bestu minningar Virginiu einmitt frá þeim tímum er fjölskyldan dvaldi þar.
Árið 1895 lést móðir Virginu skyndilega og var það henni reiðarslag. Þá var Virgnia þrettán ára. Tveimur árum síðar dó svo Stella hálfsystir hennar og í kjölfarið fékk Virginia taugaáfall.
Það bjargaði henni á þessum tíma að hún og systir hennar Vanessa fengu inngöngu í King's College skólann í London og nam hún þar forn-grísku, latínu, þýsku og mannkynssögu. Stundaði hún þar nám í fjögur ár eða til ársins 1901. Þar komst hún líka í kynni við kvennabaráttuna sem var farin að láta að sér kveða í auknum mæli.
Árið 1904 lést faðir hennar og Virginia fékk aftur taugafall og nú svo svæsið að það varð að leggja hana inn á hæli í skamman tíma. Ævisöguritari hennar og frændi, Quentin Bell, heldur því fram að meira hafi búið að baki andlegu veikindum Virginiu. Hann trúir því að orsökin liggi ekki síður í því að hálfbræður hennar hafi ítrekað misnotað yngri systur sínar Virginíu og Vanessu. Hvað sem því líður þá mátti Virginia alla tíð glíma við erfið andleg veikindi og þurfti nokkrum sinnum að leggjast inn vegna þeirra.
Skömmu eftir að faðir hennar dó komust þær systur í kunningskap við hóp fólks, rithöfunda, listamenn og heimspekilega þenkjandi fólk, sem seinna var þekkt undir nafniu Bloomsbury hópurinn. Hópurinn taldi sig eiga ýmislegt vantalað við samfélagið og ríkjandi þankagang og stóð fyrir alls kyns uppátækjum þar sem þau villtu á sér heimildir og plötuðu yfirvöld með ýmsu móti. Árið 1907 giftist Vanessa, systir Virginiu, listgagnrýnandanum Clive Bell og Virginia giftist rithöfundinum Leonard Woolf árið 1912, sem báðir voru hluti af hópnum. Virðist sem hjónaband þeirra Virginiu og Leonards hafi á margan hátt verið hamingjuríkt og þau hafi elskað hvort annað. Það kom þó ekki í veg fyrir það að þau ættu í öðrum ástarsamböndum til hliðar enda var frelsi í ástarmálum nokkuð ríkjandi í Bloomsbury hópnum. Virginia átti t.a.m. í ástarsambandi við Vitu Sackville-West um tíma en hún var gift diplómatanum og rithöfundinum Harold Nicholson. Byggir Virginia söguna Orlando á Vitu, en þar lætur Virginia sögupersónuna stökkva á milli alda ýmist sem kona eða karl. Sonur Vitu, rithöfundurinn Nigel Nicholson, skrifaði um þá sögu að hún væri lengsta og mest heillandi ástarbréf í allri bókmenntasögunni. Þær héldu vinskap alla tíð.
Virginia hóf að skrifa fyrir alvöru strax um aldamótin 1900 en þá birtust eftir hana greinar í tímaritinu The Times. Fyrsta skáldsagan The Voyage Out kom þó ekki út fyrr en árið 1915. Var það hálfbróðir hennar Gerald Duckworth sem gaf hana út. Sagan sem fyrst átti að heita Melymbrosia hafði verið lengi í smíðum og Virginia breytti henni nokkrum sinnum. Var hún seinna gefin út í fyrra uppkasti og undir nafninu Melymbrosia.
Woolf hélt áfram að skrifa bæði greinar og skáldsögur og flest verka hennar komu út hjá útgáfufyrirtækinu Hogarth Press sem hún og maður hennar áttu og ráku sameiginlega. Fengu verk hennar venjulega góða gagnrýni þó svo að salan hafi stundum verið tregari. Í dag er hún álitin ein af stóru rithöfundum 20. aldar og einn fremsti fulltrúi módernistanna svokölluðu. Þá þykir hún einn helsti nýjungasmiður í enskum bókmenntum, nálgun hennar var nýstárleg og ólík því sem áður hafði sést, persónur hennar bjuggu yfir meiri dýpt og skoðanir hennar ristu í yfirborð þess velsæmis sem margir héldu fast í. Stjarna hennar sem rithöfundar dofnaði töluvert mikið í kjölfar síðari heimsstyrjaldarinnar en mikilvægi hennar jókst aftur þegar kvenréttindabaráttu óx fiskur um hrygg í kringum 1870.
Vegna þess hve sögur Virginu voru nýstárlegar í uppbyggingu og skoðunum hefur mörgum láðst að átta sig á meginstyrk hennar sem er hinn ljóðræni prósi sem virðist einhvern líða áreynslulaust áfram á seiðmagnaðan hátt. Þar gefur hún höfundum eins og Joseph Conrad og James Joyce ekkert eftir.
Þegar Virginia hafði gengið frá síðustu skáldsögu sinni í handriti, Between the Acts, sótti á hana mikið þunglyndi. Lagðist þar margt á eitt, svo sem upphaf síðari heimsstyrjaldar, eyðilegging heimilis hennar í sprengjuárásum Þjóðverja og tómlæti það sem ævisaga hennar um Roger Fry hlaut meðal almennings og gagnrýnenda. Það var svo þann 28. mars árið 1841 að hún fyllti vasana á kápu sinni með grjóti og gekk í ána Ouse. Lík hennar fannst ekki fyrr en tæpum mánuði síðar eða 18. apríl.
Í orðsendingu sem hún skildi manni sínum eftir skrifaði hún:
,,Minn kærasti, ég finn að ég er aftur að missa vitið. Mér finnst við ekki geta aftur gengið í gegnum þann hrylling sem það hefur í för með sér. Og ég er líka viss um að ég næ mér ekki í þetta sinn. Ég heyri raddir og ég get ekki einbeitt mér. Því geri ég það sem mér finnst best í stöðunni. Þú hefur fært mér mestu mögulegu hamingju. Þú hefur gert allt sem hægt er að gera. Ég trúi ekki að tvær manneskjur hafi verið hamingjusamari en við áður en þessi skelfilegi sjúkdómur kom til. Ég get ekki barist gegn honum lengur. Ég veit að ég er að eitra líf þitt og að án mín gætir þú gert svo mikið. Og ég veit að þú átt eftir að gera það. Þú sérð að ég get ekki einu sinni skrifað þetta almennilega. Ég get ekki lesið. Það sem ég vildi sagt hafa er að öll mín hamingja er þér að þakka. Þú hefur sýnt mér óendanlega þolinmæði og verið mér ótrúlega góður. Ég vil segja það – allir vita það. Ef einhver hefði getað bjargað mér þá hefði það verið þú. Allt er mér nú horfið nema vissan um góðmennsku þína. Ég get ekki haldið áfram að skemma líf þitt. Ég held ekki að nokkrar tvær manneskju gætu hafa verið hamingjusamari saman en við vorum. V.''