Lestu.is

Bylting í bókmenntum og lestri

Það er okkur mikil ánægja að kynna fyrstu íslensku rafbókasíðuna sem við köllum einfaldlega Lestu.is.  Hér er boðið upp á vandaðar bækur af ýmsu tagi sem hægt er að lesa beint af tölvunni eða í lesbretti/spjaldtölvu. Við leggjum megináherslu á sígildar íslenskar bókmenntir, en bjóðum einnig upp á eitthvað af nýrri íslenskum bókum og völdum erlendum bókum.  Við stefnum m.a. að því að bjóða upp á heildarverk eftir öll íslensk höfuðskáld og rithöfunda frá fyrri tíð.

Með sumum bókum fylgir ítarefni sem styður textana og hjálpar skólum og einstaklingum að nýta sér þá betur. Þar má m.a. nefna:

  • kynningar á völdum höfundum og verkum
  • leshringi um valin verk og/eða höfunda
  • fróðleik af ýmsu tagi, s.s. myndbandsviðtöl við höfunda og annað bókafólk.

 

Af hverju Lestu.is?

Umhverfi bóka, tímarita, dagblaða og alls ritaðs máls hefur þróast ört á undanförnum árum með aukinni tækni og mun á næstu árum þróast enn frekar.  Lesbretti og spjaldtölvur (Kindle, eReader, iPad o.fl.) sem geta geymt fjölda texta (bóka) eru framtíðin. Slík tæki bjóða auk þess upp á mun meiri útfærslumöguleika en hefðbundnar bækur, þ.e. hægt er að velja stærð leturs, jafnvel hægt að sækja stakar orðskýringar o.s.frv. Því má segja að við séum að upplifa byltingu í meðförum ritaðs máls, byltingu sem enn sér ekki fyrir endann á. 

Hefur þessi þróun nú þegar leitt af sér breytta umgengni við hið ritaða mál á ýmsum sviðum, eins og má t.a.m. sjá á stöðu og útbreiðslu dagblaða, en nú sækja stöðugt fleiri fréttir og aðrar upplýsingar á Netið og áskrifendum dagblaða fækkar. Getur þetta haft ófyrirséðar afleiðingar í för með sér bæði hvað snertir almennt fréttalæsi og fréttaöflun. 

Hvað varðar bókmenntaverk og bækur almennt gefur þessi nýja tækni mikil og fögur fyrirheit, ekki síst m.t.t. eldri texta sem oft er erfitt að verða sér úti um nema í bókasöfnum og þá með takmarkaðar notkunarheimildir. Að geta sótt sér eldri texta og bókmenntir milliliðalaust á rafrænu formi kemur til með að  gjörbylta því umhverfi sem menn þekkja,bæði almennt og í námi. 

En ef þessi nýja tækni á að njóta sín til fullnustu er nauðsynlegt að hafa mikið magn aðgengilegra texta sem styðja við þróunina. Það er einmitt það sem við á Lestu.is höfum unnið að og munum vinna að í framtíðinni. 

Nú þegar bjóðum við upp á stórt safn af textum sem hægt er að sækja og reglulega bætast fleiri við. Er það takmark okkar að hafa á boðstólum innan tíðar allan bókmenntaarf okkar Íslendinga, ásamt völdu erlendu efni. 

 

Lestu.is fyrir skóla

Því hefur verið spáð að rafbækur muni í nánustu framtíð leysa hefðbundnar kennslubækur af hólmi að einhverju marki. Víst er að þessi framsetning höfðar til ungs fólks og býður upp á fjölbreytta möguleika, og gæti haft mikinn sparnað í för með sér, bæði fyrir menntastofnanir og heimili. 

Erfitt er um þetta að spá, en þó er alveg ljóst að þessi nýja tækni á eftir að hafa mikil áhrif á mennta- og skólamál í náinni framtíð. 

 

Tækniútfærslur og aðstoð

Hægt er að nálgast rafbækurnar á Lestu.is með tvennum hætti. Annars vegar með því að gerast áskrifandi og hafa þannig ótakmarkaðan aðgang að efninu á vefnum, og hins vegar með því að kaupa stakar rafbækur.

Notendum Lestu.is gefst kostur á að sækja rafbækurnar í ólíkum sniðum, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum best:

  • mobi (fyrir Kindle o.fl.)
  • ePub (fyrir iPad, iPhone o.fl.)
  • flettibókaform fyrir allar tölvur

Verið velkomin í hóp notenda rafbókasíðunnar Lestu.is!