Leshringir á Lestu.is
Leshringir er ný og áhugaverð þjónusta sem Lestu.is býður notendum upp á til að styðja þá í að tileinka sér valin bókmenntaverk og gera lestur þeirra almennt markvissari. Þá eru þau líka hugsuð til að koma fólki með sameiginleg áhugasvið saman og stuðla þannig að ánægjulegum samskiptum.
Þjónusta þessi er, að því er við best vitum, nýjung í lestri bóka, þ.e. eins og hún er útfærð hjá okkur. Í grunninn má reyndar segja að hér sé um nokkurs konar leshring að ræða, þar sem hópur fólks tekur sig saman um að lesa og kynna sér ákveðna sögu og skiptast síðan á skoðunum um hana. Hafa slíkir leshringir lengi verið við lýði í samfélaginu og notið töluverðra vinsælda. Á þann hátt verður lesturinn ekki bara eintal höfundar og lesarans, heldur sameiginleg upplifun margra. Getur það auðgað upplifunina að fá fleiri sjónarhorn á viðkomandi bókmenntaverk og þá er líka miklu skemmtilegra að deila þessari reynslu með öðrum.
Það sem gerir þessi leshringur þó frábrugðin öðrum leshringjum er í fyrsta lagi að þau eru á Netinu og allir geta tekið þátt í þeim. Í öðru lagi er boðið upp á alls kyns hliðarefni s.s. myndbandsviðtöl, upplestur og útprentanlegt ítarefni. Í þriðja lagi geta þátttakendur nálgast sjálfa bókina hér á vefnum og lesið hana af skjánum, hvort heldur á heimilistölvunni eða á þartilgerðum lesbrettum.
Rétt er að taka það fram að hér er um ákveðna tilraun að ræða. Höfum við engar fyrirmyndir til að vinna út frá og má búast við einhverri missmíð í byrjun. Biðjum við ykkur að virða það til vorkunnar og munum við taka öllum ábendingum fagnandi. Rétt er að taka það fram að þátttaka í námskeiði hefur enga bindingu í för með sér og er hverjum og einum í sjálfsvald sett hversu virkur hann vill vera í umræðunni. Það hvílir engin kvöð að taka þátt í umræðum; þið getið einfaldlega bara notið þess sem þarna er á boðstólnum að svo miklu leyti sem þið kjósið.
En markmiðið með þessum rafrænu leshringjum er eins og áður sagði fyrst og fremst að styðja fólk í lestri þannig að lesturinn verði meðvitaðri, skilvirkari, áhugaverðari og síðast en ekki síst ánægjulegri. Vonum við að námskeiðin eigi eftir að falla í góðan jarðveg og að sem flestir fái notið þeirra.
Þó svo að fyrstu leshringirnir séu opnir að öllu leyti biðjum alla þá sem vilja vera með að skrá netföng sín í þar til gerðan reit á forsíðu viðkomandi námskeiðs. Það auðveldar allt utanumhald og það að koma upplýsingum um framhald og valið ítarefni til ykkar.
Fyrsti leshringurinn tekur fyrir söguna Sýður á keipum eftir Jón Trausta (Guðmund Magnússon). Er þetta stutt saga með fjórum leshringsstundum. Sjá forsíðu leshrings með Sýður á keipum.
Góða skemmtun!