Upplesnar flettibækur

Við á Lestu.is erum stöðugt að reyna að upphugsa áhugaverðar og skemmtilegar nýjungar ef það mætti verða til að auka lestur almennt og koma betur til móts við þarfir ykkar. Ein slík nýjung sem við bjóðum upp á núna eru það sem við höfum kosið að kalla upplesnar flettibækur.

Nú fyrsta kastið verða slíkar bækur einkum miðaðar við yngri lesendur.  Við byrjum á tveimur bókum úr smiðju þeirra á Skólavefnum, en það eru bækurnar Sómi sjóræningi og Stína og Ásta.  Eru sögurnar eftir Berglindi Guðmundsdóttur og hafa verið notaðar við lestrarkennslu í mörgum skólum.  Hvetjum við alla til að kynna sér þetta efni nánar því það gefur mikla möguleika á alls kyns útfærslum í námi. Við munum svo bæta við fleiri bókum með reglulegu millibili. 

Notkun

Flettibækurnar eru einfaldar í notkun; þið smellið einfaldlega á tengilinn og hefjið síðan lesturinn og/eða hlustunina.  Til að fletta bókinni, þá getið þið valið um að smella á örina til hægri eða fara með bendilinn í hornið nest til hægri, smella á músina og draga síðuna eins og í venjulegri bók. 

Eins og áður sagði bjóða upplesnar flettibækur upp á marga möguleika umfram venjulega bók og er tilvalið að nota þær til að styrkja börn í lestrarnámi.  Þær henta t.a.m. vel ef kennari eða foreldri vill setjast niður með barninu og lesa með því.  Í öllu falli er gott að gera það í fyrstu atrennu, en svo getur barnið lesið bókina sjálft eitt síns liðs og hlustað með. 

Þá getur líka verið gott að nota flettibækur með skjávarpa, einkum og sérílagi ef allur bekkurinn er að lesa saman bókina. 

Síðast en ekki síst er  gott að nota flettibækur einar og sér; varpa þeim upp á skjávarpa og spyrja bekkinn út úr efninu á jákvæðan og almennan hátt.

Góða skemmtun!