Einar Benediktsson
Það hafa orðið örlög Einars Benediktssonar að fólk minnist hans einkum fyrir lífið sem hann lifði; líf ævintýramannsins og heimsborgarans. Virðist það leita meira á fólk heldur en skáldverkin, sem eru þó í grunninn sá kjarni sem færir sögusögnunum sem umlykja manninn líf og munu gera í framtíðinni.
Einar fæddist 31. október árið 1864. Faðir hans, Benedikt Sveinsson, var kunnur stjórnmálamaður og athafnamaður, en móðir Einars, Katrín Einarsdóttir, þótti ákaflega vel gefin kona og mælsk. Sagði Einar sjálfur að frá henni hefði hann fengið skáldagáfuna. Einar gekk í Lærða skólann í Reykjavík og varð stúdent 1884. Þaðan lá leiðin í Kaupmannahafnarháskóla þar sem hann nam lögfræði og lauk því námi árið 1892.
Þegar heim kom lét Einar fljótt til sín taka. Hann gaf sig að allri landsmálaumræðu og árið 1896 kom hann á laggirnar fyrsta dagblaði sem gefið var út á Íslandi. Kallaði hann það Dagskrá og ritstýrði því sjálfur til að byrja með. Þá kom hann að stofnum Landvarnarflokksins árið 1902 og átti mikinn þátt í að koma upp fyrstu loftskeytastöð landsins (1906). Blaðið Dagskrá lifði ekki mjög lengi en Einar kom að fleiri blöðum á síðar á ævinni.
Frá 1908 og fram til 1921 starfaði Einar einkum að ýmiss konar fjármálastarfsemi og bjó þá víða, eins og í Noregi, Edinborg, Kaupmannahöfn og London. Þá ferðaðist hann mikið og dvaldi um tíma í Þýskalandi, á Spáni og í Norður-Afríku. Og eins og við mátti búast um svo víðförulan mann á þeim tímum, þegar fæstir fóru út fyrir landsteinana og þá einkum til Kaupmannahafnar, varð nafn Einars á þessum árum sveipað dulúð og ævintýrablæ.
Í viðskiptum hugsaði Einar stórt og sá mörg tækifæri, sem fæst urðu þó að veruleika. Hann stofnaði t.a.m. Fossafélagið Títan árið 1914 ásamt öðrum, en það sóttist m.a. eftir því að virkja Þjórsá. Frá 1921 bjó hann lengst af í Reykjavík, en síðustu átta árin, frá 1932, bjó hann í Herdísarvík.
Samhliða lífsstritinu var hugur Einars stöðugt við skáldskap, einkum ljóðagerð. Kom skáldskapur hans út í fimm bókum: Sögur og kvæði (1897), Hafblik (1906), Hrannir (1913), Vogar (1921) og Hvammar (1930). Þá þýddi hann Pétur Gaut eftir Henrik Ibsen (1901). Auk þess skrifaði Einar mikið af blaðagreinum, ritgerðir og fleira sem birtust víða.
Einar lést árið 1940 og var grafinn í þjóðargrafreit á Þingvöllum.