Einar Hjörleifsson Kvaran

EinarEinar Hjörleifsson Kvaran var einn helsti íslenski rithöfundur sinnar samtíðar, auk þess sem hann lét mikið til sín taka á öðrum sviðum lista og menningar.  Hann var eldhugi og sporgöngumaður, sem trúði á mátt sinn og megin og sótti þar fram sem áhugi og skoðanir leiddu hann.  Hann starfaði lengi sem ritstjóri, bæði erlendis og hér heima, var leikari og leikstjóri, fyrirlesari, sálarrannsóknarmaður og margt fleira.  Þó svo að lítið hafi farið fyrir Einari og verkum hans í seinni  tíð, hafði hann mikil áhrif á sínum tíma. 

Snemma kynntist Einar hugmyndum Georgs Brandesar og féll fyrir raunsæisstefnunni og voru fyrri verk hans skrifuð með þeim formerkjum.  Smátt og smátt vék raunsæið fyrir hans eigin sýn sem erfitt er að fella undir nokkra ákveðna bókmenntastefnu.  Honum þótti þó alltaf takast best upp þegar hann skrifaði um það fólk sem átti undir högg að sækja í þjóðfélaginu. 
Upp úr aldamótunum fékk Einar mikinn áhuga á dulrænum fyrirbærum og eilífðarmálunum.  Hafði þess lengi gætt í skrifum hans að þrátt fyrir ákveðinn trúaráhuga svaraði kirkjan ekki þeim spurningum sem brunnu á honum.  Hann kynnti sér allt sem hann gat um framhaldslíf því hann þráði að vita hvað tæki við að þessu lífi slepptu.  Fljótlega litaði þessi áhugi öll verk hans og þótti mörgum það miður.

Einar starfaði lengstum við blaðaútgáfu og þá oftast sem ritstjóri og það er kannski á þeim vettvangi sem vegur hans og áhrif urðu hvað mest. Lagði hann mikið í greinaskrif sín og þar naut hann sín svo um munaði, enda valdi hann sér oftast viðfangsefni sem hann hafði mikinn áhuga á. Og eins og með svo marga þá var hann hvað bestur þegar honum var mikið niðri fyrir. 
Einnig þótti hann frábær fyrirlesari og upplesari.  Þegar hann kom til Kanada hafði hann í fyrstu að engu föstu starfi að hverfa og brá þá m.a. á það ráð að flytja fyrirlestra um hitt og þetta.  Voru þeir jafnan vel sóttir og fékk hann strax orð á sig fyrir stórkostlega framsögn hvort heldur hann las upp úr skáldverkum sínum eða fjallaði um hugðarefni og baráttumál.

Einar Hjörleifsson var stórbrotinn persónuleiki, sem fetaði óvenjulegar leiðir og þrátt fyrir að skoðanir hans og verk féllu ekki öllum í geð og hann eignaðist ákafa andstæðinga, efuðust þeir jafnt og aðrir ekki um heilindi Einars í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur og frýjuðu honum hvorki vits né hæfileika.

Einar Gísli Hjörleifsson fæddist að Vallanesi á Norður-Völlum í Fljótsdalshéraði 6. desember árið 1959.  Foreldrar hans voru Hjörleifur Einarsson og Guðlaug Eyjólfsdóttir. 

Vallanes var fornt kirkjusetur og þótti gott brauð, en kunnastur þeirra presta sem þar höfðu þjónað má segja að hafi verið Stefán Ólafsson sem var eitt helsta skáld 17. aldar og margir þekkja af ljóðinu Björt mey og hrein.  Þegar Einar fæddist var afi hans og nafni Hjörleifsson prestur þar. 
Hjörleifur faðir Einars hóf nám við Prestaskólann haustið 1856 og lauk prófi sem guðfræðingur tveimur árum síðar.  Að prófi loknu hélt hann aftur í föðurgarð þar sem hann dvaldi fram til þess að honum var veitt brauðið í Blöndudalshólum í Húnavatnssýslu árið 1860.  Í millitíðinni hafði hann svo gengið að eiga Guðlaugu Eyjólfsdóttur og eignast með henni Einar. 
Voru þau hjónin að Blöndudalshólum í rúm tíu ár eða þangað til Hjörleifi var veitt Goðdalaprestakallið í Skagafirði árið 1870.  Þar dvöldu þau hjón í sex ár uns Hjörleifur fékk prestakallið á Undirfelli í Vatnsdal.  Þjónaði hann þar samfleytt í þrjátíu ár þangað til hann lét af prestskap. 

Ekki eru til margar lýsingar á Einari sem ungum dreng.  Í ritgerð sem dr. Stefán Einarsson skrifaði um Einar er þetta að finna um hann ungan:  „Hann virðist hafa verið uppáhald móður sinnar og einhversstaðar segist hann hafa átt bágt með að sofna, nema hún héldi í höndina á honum.  Góður í sér virðist hann hafa verið, meyrlyndur nokkuð og íhugull, en minna fyrir það að hafa sig í hnjaski og harðabráki, sem strákum er títt."

Mun hann snemma hafa fengið mikinn áhuga á bókum og segir Dr. Stefán Einarsson að hann hafi snemma verið farinn að setja saman vísur og sögur.  Hafi hann þegar hann var tólf ára brennt heilt safn af sögum sem hann hafði samið.   

Einar hóf nám í Lærða skólanum haustið 1875.  Tók hann inntökupróf í skólann ásamt Jónasi Jónassyni sem seinna var kenndur við Hrafnagil og var einnig undirbúinn undir skóla af föður Einars.  Var ekki laust við að Einar hlakkaði til að hefja námið og hefði til þess töluverðar væntingar.  En strax í upphafi urðu vonbrigðin mikil.  Í ritgerð sem hann skrifaði fjörtíu árum eftir að hann hóf þar nám fer hann ekki leynt með hvernig honum leið í skólanum og má með ólíkindum heita hve skoðanir hans eru enn sterkar eftir svo langan tíma.  Þar segir m.a.: „En ekki hefur neitt af því, sem fyrir mig hefur komið á þessum mörgu árum, haggað vitund við þeirri andstyggð, sem ég fékk á lífinu í 1. bekk latínuskólans." 

En þrátt fyrir að Einari þyki aðstæður og aðbúnaðurinn í latínuskólanum með versta móti fyrsta árið nær hann fljótt að aðlagast og gera aðstæðurnar sér vilhollari.  Hann eignast þarna góða vini og tekur virkan þátt í öllu félagslífi.  Og ekki var laust við að það gustaði um hann.  Hann tók t.a.m. þátt í nokkurs konar hallarbyltingu gegn aðalfélagi skólapilta, Bandamannafélaginu, og átti þátt í stofnun nýs félags sem fékk nafnið Ingólfur. 

Í árbók skólans þar sem ritaðar voru stuttar lýsingar á nemendum fáum við nokkra mynd af manninum.  Þar segir:  „Meðalmaður á hæð og fremur grannvaxinn.  Laglegur, gáfur í besta lagi.  Skáld gott og samdi ljóðmæli og skáldsögur manna mest í skóla.  Vel máli farinn og vel að sér, einkum í skáldskap og æstetik.  Átti marga óvildarmenn í skóla.  Meðallagi reglusamur."
Bókmenntaáhugi hans eykst á þessum árum og hann er duglegur við að kynna sér nýja strauma auk þess sem hann skrifar töluvert, bæði ljóð, leikrit og sögur.  Bestu verk hans frá þessum árum eru án efa smásögur hans og voru tvær þeirra gefnar út meðan hann var enn í skólanum.  Voru það sögurnar Orgelið og Hvorn eiðinn á ég að rjúfa?  Var það fyrir tilstilli Matthíasar Jochumssonar að þær fengust prentaðar, en hann prentaði söguna Orgelið sem framhaldssögu í ritinu Þjóðólfi.  Hina söguna sendi hann til Jóns Ólafssonar ritstjóra Skuldar sem gaf hana út sem sérrit.  Þóttu sögurnar nokkuð byltingakenndar og fengu misjafna dóma og þó einkum sagan Hvorn eiðinn á ég að rjúfa? sem vakti almenna hneykslun.  Var talað um að höfundurinn væri siðspilltur.  Víst er að Einar hafði þá kynnt sér rit danska bókmenntarisans Georgs Brandesar og heillaðist að sýn hans. Brandes boðaði raunsæi í skáldskap og má merkja þau áhrif í þessum fyrstu sögum Einars þó svo að ekki sé hægt að telja þær til raunsæisbókmennta.

Eftir sex ára nám í Lærða skólanum útskrifaðist Einar svo sem stúdent árið 1881 með fyrstu einkunn og sumarið eftir sigldi hann til Kaupmannahafnar og hóf nám við háskólann þar.  Skráði hans sig í hagfræði.  Ekki lagði hann mikið kapp á það nám og lauk aldrei prófi.  Hann las hins vegar af mikilli elju bókmenntir, einkum Norðurlandabókmenntir, en líka rit eftir þýska, enska, franska og rússneska höfunda.  Var hann mjög hrifinn af Dostojevskí. 
Í Kaupmannahöfn umgekkst hann mest vini sína úr Lærða skólanum og þá sem deildu með honum áhuga á bókmenntum.  Má þar fyrst nefna Hannes Hafstein og Bertel E. Ó. Þorleifsson, en síðan bættist Gestur Pálsson í hópinn.  Allir höfðu þeir mikinn áhuga á bókmenntum og raunsæisstefnunni.
Ákváðu þeir að gefa út tímarit með skáldskaparefni.  Fékk það nafnið Verðandi.  Var ritið kostað af Tryggva Gunnarssyni móðurbróður Hannesar.  Framlag Einars í ritinu var sagan Upp og niður.  Kom ritið til Íslands með vorskipum 1882 og fékk ágætar viðtökur.  Þó voru skoðanir manna á sögu Einars ærið misjafnar.  Eins og fyrri daginn er það Jón Ólafsson sem hampar Einari mest. 
Einar yrkir töluvert á Hafnarárunum og eru verk hans mun þroskaðri en fyrri verk.  Og strax á þessum árum virðast trúarbrögð vera honum hugleikin, því hann heldur fyrirlestur um trúarbragðafrelsi og heldur því fram að á Íslandi sé ekki trúarbragðafrelsi í reynd.  Voru nokkrir sem andmæltu þeirri niðurstöðu.  Árið 1883 kom Sigurður bróðir Einars út og hóf að nema læknisfræði. Deildu þeir bræður herbergi á Garði, enda voru þeir mjög samrýndir alla tíð. 
Upphaflega hafði ætlunin verið að halda áfram með útgáfu Verðandi, en ekkert varð af því.  Einar átti þó þátt í að stofna nýtt blað árið 1884 sem fékk nafnið Heimdallur.  Þar sveif raunsæið einnig yfir vötnum, en blaðið hélt ekki úti nema í það ár.  Ritstjóri Heimdalls var Björn Bjarnason, síðar sýslumaður í Dölum.  Til gamans má geta þess að Björn hált áfram blaðaútgáfu og hóf að gefa út blað á dönsku sem hann kallaði Vort Hjem sem síðar breyttist í Hjemmet. 
Árið 1883 var ákveðið í Bókmenntafélaginu að gefa út ljóðmæli Bjarna Thorarensen og var Einar fengin til að rita formála að því.  Kom það út árið 1884.  Þótti hann gera ljóðum Bjarna góð skil.

Vorið 1885 kvæntist Einar danskri konu, Maren Mathilde Petersen.  Var hún tveimur árum yngri en hann.  Var um borgaralegt hjónaband að ræða en ekki kirkjulegt.  Uppgefin skýring á því var að brúðguminn viðurkenndi engin þau trúarbrögð sem játuð voru í ríki Danakonungs. 

Brátt var Garðstyrkur Einars á enda og hann hafði ekki lokið neinu embættisprófi.  Hans beið því engin föst staða heima á Íslandi, auk þess sem árferði var þar slæmt.  Hann afræður því að halda til Vesturheims strax það sama ár.  Var sú ferð álgjörlega út í óvissuna að því er best verður af ráðið, en þó hefur það sennilega verið skársti kosturinn í stöðunni.

Héldu þau hjónin fyrsta kastið til Minneapolis, þar sem þau bjuggu í 2-3 mánuði hjá norska skáldprestinum Kristjáni Jansen.  Frá Minneapolis héldu þau síðan til Winnipeg í Kanada, en þar var þá orðin töluverð Íslendingabyggð. 

Fyrsta árið í Winnipeg hafði Einar ekkert fast starf, en var þó sístarfandi.  Hann hélt fyrirlestra, erindi og var frumkvöðull í að koma á fót leiklistarstarfsemi þar vestra, auk annars.  Þótti Vestur-Íslendingum mikill fengur að fá jafn hæfileikaríkan menningarmann í sínar raðir. 

Hann var jafnan með ferskar skoðanir á mönnum og málefnum og óhræddur við að láta þær í ljós.  

Haustið 1886 var stofnað til blaðs meðal Vestur-Íslendinga og gaf augaleið að Einar yrði fenginn til að starfa við það.  Fékk blaðið nafnið Heimskringla.  Ekki entist sú vinna honum lengi, því þrettán vikum eftir að fyrsta tölublaðið leit dagsins ljós hætti Einar vegna ágreinings við eigandann.  Hafa það verið honum mikil vonbrigði að þannig skyldi fara, ekki síst vegna þess að þá um sumarið höfðu þau hjónin eignast son og þurftu á föstum tekjum að halda. 

Það var þeim til láns að hjónin Sigtryggur Jónasson og Rannveig Briem kona hans buðu Einari og konu hans að flytjast til sín með soninn.  Síðla sumars 1887 veikist svo sonur Einars og dó.  Var þá kona hans ófrísk að öðru barni þeirra.  En örlaganornirnar létu ekki þar við sitja því  fimm dögum eftir að þeim hjónum fæddist annar sonur lést Maren kona Einars.  Rannveig húsráðandi tók soninn Matthías að sér, en honum var heldur ekki ætlað langt líf og lést hann árið eftir.  Var þetta mikið áfall fyrir Einar og endurspegla mörg ljóða hans frá þessum tímum dapurleika hans. 

En fljótlega kynntist Einar íslenskri stúlku, Gíslínu Gísladóttur, og gengu þau í hjónaband 12. september 1888. 

Allt frá því að Einar hætti á Heimskringlu höfðu hugmyndir að nýju blaði sem Einar myndi ritstýra vaknað meðal nokkurra málsmetandi manna og í upphafi árs 1888 kom út fyrsta tölublað þessa nýja blaðs, sem hlaut nafnið Lögberg.

Og Einar hellti sér út í þá vinnu af þeim krafti sem einkenndi öll hans störf.  Í blaðinu kom hann sjónarmiðum sínum á framfæri og hikaði ekki við að gagnrýna það sem honum fannst að betur mætti fara, hvort heldur í Kanada eða heima á Íslandi.  Hann skrifaði hispurslausar ádeilugreinar, fréttir, vandaða ritdóma, auk þess sem hann þýddi valin verk eftir merka erlenda höfunda, vinsælar sögur og margt fleira.  Það eina sem virtist skorta á skrif hans voru frumsamin skáldverk.  Eina frumsamda sagan sem hann birti eftir sig meðan hann var ritstjóri þar vestra var sagan Félagsskapurinn í Þorbrandsstaðahreppi, sem er ekki með því besta sem hann skrifaði.

En árið 1889 kom sagan Vonir út á Íslandi og var Jón Ólafsson útgefandinn.  Þó svo að sagan hafi hlotið misjafna dóma, fyrst eftir að hún kom út, stendur hún enn í dag sem eitt það besta sem Einar skrifaði.  Gestur Pálsson sem þá var orðinn ritstjóri Heimskringlu skrifaði þó mjög lofsamlega um söguna.  Og þegar hún var þýdd yfir á dönsku tveimur árum síðar skrifaði sjálfur Georg Brandes um hana og sagði að hún væri „hrein perla, lýsingin meistaraleg“. 

Á þessum árum virðist Einari hafa liðið vel, þrátt fyrir mikið annríki.  Að minnsta kosti segir hann það sjálfur í bréfi til Hannesar Hafsteins í desember 1891.  Þá átti hann orðið tvö börn með konu sinni Gíslínu. 

Jón Ólafsson sá sem hafði gefið út sögurnar Hvorn eiðinn á ég að rjúfa? og Vonir hafði lent í miklum málaferlum í kjölfar þess að hann lenti í ritdeilu við Benedikt Gröndal á Íslandi.  Var Jón þá að verja það fólk sem flutt hefði vestur um haf frá Íslandi og gerði það heldur kröftuglega.  Lauk þeim málaferlum með því að Jóni var gert að greiða háar sektir.  Til að þakka honum stuðninginn efndu Vestur-Íslendingar til samskota og sendu honum pening til að greiða sektina.  Í kjölfarið var honum svo boðið út til að gerast meðritstjóri blaðsins Lögbergs. 

Mun Einar hafa verið því samþykkur og jafnvel stuðlað að því.  En samvinna þeirra sem ritstjóra entist ekki lengi og árið 1891 ákvað að Einar að hætta.  Tók Jón þá alfarið við blaðinu en einungis í stuttan tíma, því hann lenti fljótlega upp á kant við eigendur þess og var rekinn, en Einar tók aftur við sem ritstjóri.  Í kjölfarið tókust þeir Jón og Einar nokkuð harkalega á í ritdeilum, en Jón fékk inni á Heimskringlu og urðu með þeim vinslit.  Tók Einar sér þetta mjög nærri enda hafði Jón gefið út sögur hans og stutt hann í gegnum tíðina.

Annar góðvinur Einars sem hann lenti í hörðum illdeilum við á þessum tíma var Gestur Pálsson, en hann gerðist ritstjóri Heimskringlu árið 1890.  Var töluverður ágreiningur á milli blaðanna sem studdu ólík stjórnmálaöfl í Kanada og börðust um hylli kaupenda.  Gestur vill til að byrja með sitja á friðarstóli, en leggur þau áform til hliðar þegar hann á stjórnmálafundi er tekinn til bæna af Einari vini sínum.  Urðu hnútuköstin á milli þeirra hörð og heiftug í kjölfarið. 
Einar hafði alla tíð ort ljóð af nokkurri íþrótt, en var þó ekki hampað sem ljóðskáldi.  Þó  mátti finna perlur innan um.  En smátt og smátt þroskast hann sem ljóðskáld og árið 1893 telur hann sig tilbúinn að gefa út ljóðabók.  Var það Björn Jónsson ritstjóri Ísafoldar sem stóð að útgáfunni.  Fékk bókin prýðilegar viðtökur og svo góða gagnrýni að helstu andstæðingar og „óvinir“ Einars gátu ekki annað en mært hana.  Jafnvel Jón Ólafsson sem þá átti í hatrömmum deilum við Einar skrifaði: „Tiltölulega mörg af þessum 32 kvæðum eru hreinar perlur, smáir, slípaðir, táhreinir gimsteinar“.  Þegar óvinur manns gefur verkunum slíkan dóm hlýtur að vera mark takandi á því. Því miður var ljóðagerð alla tíð aukagrein hjá Einari.

Þrátt fyrir að lífsbarátta Einars gengi þokkalega í Winnipeg, fjölskyldan dafnaði ágætlega og hann hefði góða vinnu, leitaði hugur hans heim. En Ísland bauð ekki upp á marga kosti fyrir mann sem ekki hafði neitt embættispróf upp á vasann. 
En þá er það að Björn Jónsson eigandi og ritstjóri blaðsins Ísafoldar sem þá var stærsta blaðið sem gefið var út á Íslandi býður Einari að snúa heim og gerast meðritstjóri með sér.  Og það var ekki sökum að spyrja. Einar þáði boðið með þökkum.  Hélt hann heim árið 1895 og hafði þá verið burtu 14 ár.

Og það leið ekki langur tími áður en Einar var farinn að setja mark sitt á Ísafold.  En í Vesturheimi hafði Einar veikst af berklum og strax fyrsta sumarið hrakaði heilsu hans svo mikið að Björn Jónsson býðst til að styrkja hann til að ferðast eitthvað suður bóginn til að ná heilsu.  Var það úr og Einar dvelur nokkra mánuði á Korsíku.  Hann sendir pistla heim í blaðið og fær tóm til að skrifa söguna Litla-Hvamm og byrja á sögunni Örðugasti hjallinn.  Voru þær síðar gefnar út árið 1901 í einu bindi ásamt með sögunni Vonir í bók sem fékk nafnið Vestan hafs og austan.

Upp úr aldamótunum fer pólitísk barátta að harðna til muna í landinu og blöðin taka flest afstöðu með einstökum flokkum.  Þeir Einar og Björn á Ísafold styðja Valtýinga og svo mikið kapp leggja þeir í baráttuna að Einar býður sig fram til þings á Snæfellsnesi aldamótaárið 1900.  En ekki höfðu þeir erindi sem erfiði og tapaði Einar kosningunum nokkuð stórt. 

Ekki voru þeir félagar þó af baki dottnir og héldu baráttu sinni áfram og var Einar þar framarlega í flokki.  Skrifaði hann margar greinar fyrir málstað Valtýinga.

Þó svo að Ísafold væri á þessum tíma stærsta blað landsins var erfitt að dreifa því um byggðir landsins, og á Akureyri var þá einungis eitt blað, Stefnir, sem studdi Heimastjórnarflokkinn.  Því er það að nokkrir málsmetandi menn fyrir norðan ákveða að hefja útgáfu á nýju blaði og fá Einar til að ritstýra því.  Hefur það áreiðanlega verið gert í samráði við Björn Jónsson.

Einar tók þessu boði og flytur árið 1901 norður með fjölskyldu sína en blaðið Norðurland kom fyrst út 1. október það ár.  Lagði Einar mikinn metnað í blaðið og þar sem hann var nú einn ritstjóri gat hann ráðið meiru um efni blaðsins.  Þótti blaðið mjög gott og skemmtilegt, en auk Einars sjálfs hafði hann fengið marga af færustu pennum landsins til að skrifa í það. 

Og þó svo að stofnun blaðsins hafi fyrst og fremst verið stjórnmálalegs eðlis, skyggði stjórnmálaumræðan ekkert á annað efni, enda lá áhugi Einars víða.  Hann var t.a.m. mikill baráttumaður fyrir bættri alþýðumenntun og skrifaði mikið um það, sem og önnur framfara- og menningarmál.  Studdi hann mjög við bakið á Guðmundi Finnbogasyni sem vildi á margan hátt umbylta menntun á Íslandi.  Þá ritaði hann töluvert um trúmál sem jafnan höfðu verið honum ofarlega í huga.  Hann vill að menn sýni trúarskoðunum annarra virðingu og umburðarlyndi.

En þrátt fyrir velgengnina með Norðurland hætti Einar þar eftir þrjú ár.  Ástæðan fyrir því var sú að einn helsti samstarfsmaður hans fyrir norðan, Páll Briem, fluttist suður og bauðst til að hjálpa Einari að kaupa blaðið Fjallkonuna.  Einar sló til. 

Er ekki að efa að Einar hefur verið spenntur og hlakkað til þessa nýja verkefnis.  En örlögin gripu þá óvænt inn í eins og Einar hafði áður fengið að kynnast.  Páll Briem, sá sem ætlaði að fjármagna kaup Fjallkonunnar fyrir Einar, fékk lungnabólgu það sama ár og dó.  Eftir stóð Einar og barðist í bökkum.  Slógu nokkrir flokksfélagar Páls saman og keyptu blaðið fyrir Einar þannig að hann mundi geta eignast það smátt og smátt.

Einar hafði alla tíð mikinn áhuga á leikhúsi.  Í Winnipeg hafði hann sett upp leikrit, leikið og leikstýrt, og það hafði hann einnig gert í Reykjavík og á Akureyri.  Átti hann þátt í stofnun Leikfélags Reykjavíkur árið 1897 og var Einar leiðbeinandi þar frá 1888-1901 er hann flutti norður. 

Þá er það  á þessum árum sem Einar fær óbilandi áhuga á ýmsu er varðaði dulræn málefni.  Sagði hann sjálfur seinna að áhugi hans á þeim efnum hefði kviknað árið 1903 er hann enn stýrði Norðurlandi. 

Fékk Einar til liðs við sig ýmsa til að kanna þessi mál frekar og var mjög gagnrýndur fyrir af ýmsum andstæðingum sínum, ekki síst Jóni Ólafssyni ritstjóra Reykjavíkur og Hannesi Þorsteinssyni ritstjóra Þjóðólfs.  Dylgjuðu þeir um þessar rannsóknir og gerðu óspart gys að þeim.  Því var það að Einar ákvað að halda opinn fyrirlestur um þessi mál 25. apríl árið 1905.  Kallaði hann fyrirlesturinn Samband við framliðna menn

Um áramótin 1906 ákvað Einar að hætta sem ritstjóri Fjallkonunnar.  Var ástæðan einkum sú að hann vildi geta einbeitt sér meira að sagnagerð, en einnig bar hann við heilsubresti; að hann þyldi ekki álagið sem starfinu fylgdi.
Til að bæta sér upp tekjumissinn tekur hann þó að sér að skrifa stuttan bækling um sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og kröfur þeirra á hendur Dönum.  Kom hann út vorið 1907 og kallaðist Frjálst sambandsland.  Og þrátt fyrir að vera hættur sem ritstjóri tók Einar áfram fullan þátt í þeirri pólitísku umræðu sem átti sér stað í landinu. 

Vorið 1907 bauðst Einari að fara í heimsókn til Kanada að vitja fornra slóða.  Kom hann aftur heim í nóvember það sama ár og skrifaði ferðasögu upp á 200 blaðsíður sem kom út 1909.  Var honum vel tekið vestra og hann sendur með 1000 kr. gjöf aftur heim.  Sama ár sækir hann um skáldastyrk til Alþingis vegna stórrar skáldsögu sem hann sé með í smíðum og fær úthlutað 1200 krónum.
Voru þó margir á móti því að hann fengi nokkurn styrk og bentu á að hann hefði nánast ekkert birt í langan tíma.  Og það mátti til sanns vegar færa, því frá því að sagnasafnið Vestan hafs og austan kom út árið 1901 hafði hann einungis sent frá sér fjórar sögur í tímaritum.  Árið eftir voru þær fjórar sögur gefnar út í bók ásamt með einni nýrri. 

Það er svo árið 1908 að fyrsta skáldsaga Einars lítur dagsins ljós.  Nefndist hún Ofurefli og má segja að þar sé á ferðinni fyrsta Reykjavíkursagan.  Hlaut sagan mjög góða dóma og töldu margir að um tímamótaverk væri að ræða í íslenskri skáldsagnagerð.  Þremur árum síðar kom framhald Ofureflis, en það var sagan Gull og fékk hún einnig mjög jákvæða dóma, þó svo að ekki væri skrifað eins mikið um hana og Ofurefli

Árið 1908 hraktist Hannes Hafstein frá völdum og Björn Jónsson vinur Einars varð ráðherra.  Hugðu margir þá gott til og ætluðu að Björn mundi koma miklu í verk, ekki síst Einar, en annað kom á daginn.  Var valdatíð Björns róstursöm og hann hrökklaðist sjálfur frá 1911.  Fljótlega eftir var efnt til kosninga og Einar tók mikinn þátt í þeirri baráttu.  Bauð hans sig fram fyrir sjálfstæðimenn í Borgarfjarðarsýslu, en tapaði eins og sjálfstæðisflokkurinn gerði á landsvísu.
Árið 1913 komu tvær bækur út eftir Einar.  Sú fyrri var smásagnasafn sem hann kallaði Frá ýmsum hliðum og hafði að geyma þrjár sögur sem áður höfðu birst í Skírni, en það voru sögurnar Á vegamótum, Marjas og Vistaskifti.  Hinar tvær sögurnar voru nýjar og nefndust Góð boð og Anderson.  Fékk bókin ágæta dóma.

Hin bókin var leikritið Lénharður fógeti, sem jafnframt var fyrsta leikritið sem Einar gaf út.  Fékk það í fyrstu frekar slaka dóma, en var þrátt fyrir það sett upp í leikstjórn hans sjálfs og fékk þá töluvert skárri dóma.  En þrátt fyrir dómana var ásóknin mjög góð og var það lengi sýnt fyrir fullu húsi.

Eftir velgengnina með Lénharð fógeta réðst Einar í að skrifa annað leikrit, þar sem hann reyndi sig við samtímann.  Hét það Syndir annarra og kom út 1915.  Fékk það misjafna dóma en var einnig sýnt við ágæta aðsókn.

Árið 1916 kom hann svo með nýja skáldsögu, sem hann nefndi Sálin vaknar.  Fékk hún mjög góða dóma.

Árið 1915 voru sett ný lög um ættarnöfn.  Var almenningi gefinn kostur á að velja sér slík nöfn og menn jafnvel hvattir til þess.  Einar Hjörleifsson sat í nefndinni sem mótaði tillögurnar og tók hann sér nafnið Kvaran árið 1916 ásamt mörgum úr fjölskyldu hans.

Árið 1918 kom enn ný skáldsaga eftir Einar.  Nefndist hún Sambýli og var lengsta saga hans.  Fékk hún yfirleitt góða dóma, en þó ekki eins og Sálin vaknar.  Árið eftir kom svo út fyrri hluti sagnabálksins Sögur Rannveigar, en seinni hlutinn kom þremur árum síðar (1922).

Árið 1912 hóf Einar aftur að leikstýra hjá Leikfélaginu eftir hlé og hélt því áfram fram til 1916.  Ári síðar, 1917, var hann svo kosinn formaður félagsins og var það næstu fimm árin.

Allt frá 1903 hafði áhugi Einars á dulrænum fyrirbærum verið mikill og hafði hann ásamt öðrum rannsakað þau mál af miklu kappi, en það er fyrst árið 1918 að hann ásamt öðrum stofnar Sálarrannsóknarfélag Íslands og er kjörinn formaður þess.  Þá safnaði hann saman stórum hluta þess sem hann hafði skrifað um slík mál og gaf út á bók sem hlaut nafnið Trú og sannanir, hugleiðingar um eilífðarmálin.  Árið 1920 kom svo út nýtt tímarit um andleg málefni sem fékk nafnið Morgunn og var Einar ritstjóri þess. 

Sumar af sögum Einars voru þýddar á önnur tungumál og féllu þar í ágætan jarðveg.  Sagan Ofurefli kom t.a.m. út í Danmörku, Tékklandi og Þýskalandi.  Árið 1918 var svo farið að gefa sögur hans út í Svíþjóð.  Á þriðja áratugnum komu upp kvittur að verið væri að hugleiða Einar til bókmenntaverðlauna Nóbels. Ekki er vitað hve mikil alvara bjó þar að baki, en af þessu spruttu ritdeilur þar sem hæst bar ritdeila Einars sjálfs og Sigurðar Nordals.

Orsökin var sú að sænsk blaðakona hafði tekið viðtal við Sigurð út af fyrrnefndum orðrómi og þótti mörgum hann gera heldur minna úr Einari sem rithöfundi en efni stæðu til.  Brugðust menn illa við þessu meinta fálæti Sigurðar og veittu honum ákúrur í blöðum.  Í einu svara Sigurðar sagðist hann ætla gera grein fyrir skoðun sinni á skrifum Einars í sérstakri umfjöllun.  Það gerði hann í Skírni árið 1925.  Var það upphafið á mikilli ritdeilu, eða ritglímu milli þeirra Einars, sem síðar var gefin út á bók.  Þykir sú ritdeila um margt merkileg en þeir tókust á af kunnáttu og leikni sem báðir áttu nóg af.

Um fimm ára skeið, frá 1923 kom ekkert nýtt út af skáldskap eftir Einar.  Tími hans fór að stórum hluta í að sinna sálarrannsóknum, ritstýra Morgni og öðru sem til féll og hann hafði áhuga á.  En árið 1928 birti hann nýja sögu í Eimreiðinni, sem hét Reykur og aftur ári síðar söguna Hallgrímur.

Svo er það árið 1931 að Leikfélag Reykjavíkur sýnir nýtt leikrit eftir Einar sem hann kallaði Hallsteinn og Dóra.  Hlaut það misjafna dóma en aðsóknin var með besta móti.  

Þessi góðu viðbrögð virðast hafa kveikt í Einari og ári síðar er nýtt leikrit, Jósafat, sett upp hjá Leikfélaginu.  Ekki hlaut það jafngóða dóma og fyrri leikrit, en það truflaði nokkuð gagnrýnendur hve upptekinn Einar væri að troða lífsskoðunum sínum inn í textann; fannst það jaðra við áróður. 

Árið 1933 kom svo út nú skáldsaga eftir Einar sem bar nafnið Gæfumaður, en það átti eftir að verða síðasta skáldsaga hans.  Fékk hún ágætar viðtökur.  Árið eftir kom út nýtt ljóðasafn eftir Einar sem innihélt kvæðin úr ljóðmælunum frá 1893 og svo valin kvæði, mörg óbirt sem hann hafði samið í gegnum tíðina. 
Einar lést 22. maí árið 1938.  


Stefán Einarsson: Íslensk bókmenntasaga 874-1960 – útg. Snæbjörn Jónsson 1961